Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ímyndað boðorðabann

Mynd úr kennslubók

Staða kristinnar trúar í skólum landsins hefur verið þaulrædd og prestar ættu að vera vel að sér í þeim efnum. Þess vegna er ótrúlegt að sjá prest setja fram fullyrðingu í þessu máli sem er gjörsamlega út í hött.

Ríkiskirkjupresturinn Gunnlaugur Stefánsson sagði þetta nýlega:

Bönnuðu boðorðin

Nú er bannað að láta börnin læra boðorðin tíu í grunnskólanum, líka þessi átta þar sem ekki er minnst á Guð, svo ekki séu nefnd kærleiksboðorð Jesú. Af því að það er talið mismuna börnum eftir trúarbrögðum. Er víst að það auðgi fagurt mannlíf að fara á mis við boðorðin í Biblíunni?

Þessi fullyrðing er út í hött. Á Íslandi er alls ekki bannað að fræða börn um boðorðin tíu og meintan kærleiksboðskap Jesú í grunnskólum.

Þvert á móti passar kennsla um boðorðin og boðskap Jesú algerlega við aðalnámskrá og er í kennslubókum.

Aðalnámskráin

Í nýju aðalnámsskrá gunnskóla er augljóst að fræðsla um boðorðin tíu og siðaboðskap Jesú passar við markmið kennslunnar[1]. Og auðvitað er þar hvergi sagt að það sé bannað að kenna um boðorðin tíu eða “kærleiksboðorð" Jesú.

Kennslubækur

Ef maður kíkir í þær námsbækur sem Námsgagnastofnun gefur út fyrir grunnskóla landsins, þá sér maður líka hversu fráleit þessi fullyrðing Gunnlaugs er.

Sem dæmi þá kom kennslubókin Kristin trú út árið 2015 og er fyrir miðstig grunnskóla.

Á blaðsíðum 16 og 17 er umfjöllun um boðorðin tíu og þau öll talin upp. Í kennsluleiðbeiningum er stungið upp á því að kennarinn láti nemendur “draga eitt boðorð og útskýra það í nútímasamhengi" eða nefna lög í samfélaginu okkar og velta því fyrir sér hvort að það sé tenging á milli þeirra og boðorðanna tíu (bls 13).

Á blaðsíðu 24 er svo umfjöllun um “kærleiksboðorð Jesú". Bæði eru tvöfalda kærleiksboðoðrið og gullna reglan útskýrð (umfjöllunin er meira að segja kristinn áróður!).

Er það ekki merkilegt að námsgagnastofnun sé að gefa út kennslubækur fyrir grunnskóla sem kenna börnum um boðorðin tíu og kærleiksboðskap Jesú ef það er bannað á Íslandi?

Reykjavíkurborg

Það gæti vel verið að Gunnlaugur sé að hugsa um reglur Reykjavíkurborgar um samskipti grunnskóla borgarinnar og trúfélaga.

En í þeim reglum er nákvæmlega ekkert sem bannar grunnskólum að fræða börn um trúarbrögð, og þar með talið um hluti eins og boðorðin tíu og siðaboðskap Jesú. Í fyrstu greininni segir meira að segja að hlutverk skóla borgarinnar sé að “fræða nemendur um ólík trúarbrögð og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámskrá og námsefni.”

Lygi eða bara úti að aka?

Þegar prestar eru ítrekað að koma með glórulausar fullyrðingar um mál sem að þeir ættu að þekkja vel, er freistandi að álykta að þeir séu bara að ljúga í áróðursstríði. Ég ætla ekki að fullyrða það, og vona að hann sé bara algerlega úti að aka í þessu máli.

En það hljóta að vera einhverjir innan prestastéttarinnar sem vita að þetta er bull og það er skammarlegt að þeir skuli ekki leiðrétta svona fáránlegar fullyrðingar hjá kollega sínum.


[1] Á bls 198 er fínt yfirlit yfir hæfnisviðmið nemenda í samfélagsgreinum. Þar er meðal annars sagt að nemandi eigi að geta “lýst margbreytileika helstu trúarbragða og lífsviðhorfa og áhrifum þeirra á líf fólks", “nefnt dæmi um áhrif helgirita helstu trúarbragða á menningu og samfélög" og “greint áhrif Biblíunnar og helgirita annarra helstu trúarbragða á menningu og samfélög". Kennsla um fræg siðaboð á borð við boðorðin tíu og boðskap Jesú hlýtur augljóslega að passa þarna undir.

Hjalti Rúnar Ómarsson 19.06.2017
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/06/17 09:40 #

Þegar prestar eru ítrekað að koma með glórulausar fullyrðingar um mál sem að þeir ættu að þekkja vel, er freistandi að álykta að þeir séu bara að ljúga í áróðursstríði.

Þetta er gamla spurningin; hvort er prestur hálfviti fávís eða lygari?

Eins og Hjalti segir, þá er pirrandi þegar prestar segja ósatt en algjörlega skammarlegt að aðrir prestar skuli ekki leiðrétta ósannindin - horfa upp á lygarnar og taka þátt í áróðrinum með þögn sinni.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 21/06/17 16:22 #

Ég benti Gunnlaugi á þessa grein og hann stendur enn við fullyrðinguna sína um þetta boðorðabann. :l

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?