Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kverkatak kirkjunnar á RÚV

Mynd af merkjum RÚV og kirkjunnar

Fyrir um áratug sendi ég dagskrárstjóra Rásar 1 tilboð um að gera þætti um efahyggju. Þessi hugmynd var afleiðing pirringsins sem hinn trúlausi finnur fyrir þegar ríkisútvarpið okkar allra heldur úti skefjalausum trúaráróðri með morgunbæn, orði kvöldsins, útvarpsmessum alla sunnudaga og sérstökum þáttum um trúarlíf með endalausum drottningarviðtölum við presta og guðfræðinga.

Auðvitað er RÚV, sem ríkisstofnun, aðeins að sinna þeirri skyldu sinni, samkvæmt stjórnarskrá, að ríkið eigi að styðja og vernda hina evangelísk-lútersku kirkju. En á meðan ekkert mótvægi fær að heyrast, engar efahyggjuraddir fá í útvarpstækinu að bollaleggja orð hugsuða og heimspekinga, þá er einfaldlega ekki hægt að kalla þetta útvarp allra landsmanna.

Aldrei barst neitt svar frá dagskrárstjóranum og fyrsti þáttur í þáttaröðinni "Gil efans" fór aldrei í loftið.

Nú er það svo að hin volduga kirkjudeild, sem í stjórnarskrá er vernduð af ríkinu, er í aðstöðu til að gernýta hvert tækifæri til að halda úti trúaráróðri í tækjum landsmanna. Hver kirkjulegur frídagur er undirlagður trúarþvælunni og nýliðinn Hvítasunnudagur er þar engin undantekning.

Dr. Pétur Pétursson sá um þáttinn "Kristur kemur", þátt um sögu Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi. Þátturinn var um margt fróðlegur, en ekki er hægt að segja að umfjöllunin hafi verið gagnrýnin, heldur nánast eins og einn samhangandi lofsöngur um trúarlíf Íslendinga.

Pétur afgreiddi gagnrýni á Hvítasunnukirkjuna í tveimur málsgreinum. Hann byrjaði á því að setja upp strámann, eitthvað svona "sumir segja að hvítasunnufólk sér ruglað og sjúkt..." Þar með var auðvelt fyrir hann að slá það út af borðinu.

Við sem gagnrýnt höfum trúarbrögð opinberlega höfum ekki haldið því fram að fólkið í Hvítasunnukirkjunum sé ruglað og sjúkt. En hugmyndakerfið er það og fólkið því miður á valdi þess. Þess utan er þetta fólk oftast í fínu lagi.

Ekki liðu margar mínútur frá því að þessum þætti lauk þar til kominn varí loftið annar þáttur um guðdóminn, en nú með Sören Kierkegaard í miðpunktinum. Það er næstum eins og þessi tvö umfjöllunarefni, Sören og Hvítasunnusöfnuðir séu úthugsuð pæling hjá kirkjumafíunni, umfjölluninni um söfnuðina ætlað að sýna umburðarlyndi ríkiskirkjufólks og þátturinn um Sören til marks um djúphygli guðfræðinganna.

Hvar eru þættirnir um gagnrýni Þórbergs og Laxness á trúarhugmyndir samtíðar þeirra? Hvar er umfjöllunin um skrif Bertrand Russel?

Allt snýst þetta um normalíseringu. Það er búið að hamra svo mikið á kristilegu efni í útvarpinu gegnum tíðina að jafnvel hinum trúlausu þykir Þjóðkirkjan á einhvern hátt normal og viðhorf hennar bara hófsöm og fín. Ef þessi viðhorf væru að koma fram í dag og ekki þessi normalísering sem búin er að venja okkur við, þá þættu þessi viðhorf og þessi boðun glórulaus. Ef gagnrýnin hugsun væri kennd í skólum og viðhorfum efahyggjufólks og trúleysingja gerð skil í fjölmiðlum, fordómalaust, ætti fólk enn verr með að skilja gildi þessarar trúarþvælu sem í dag þykir í hæsta máta eðlileg.

Þegar kemur að fríþenkjurum og gagnrýninni hugsun þegir RÚV oftast þunnu hljóði og maður fær á tilfinninguna að við búum í einhverju harðlínutrúarríki. Ég fer ekki fram á meira en jafnvægi í umfjölluninni, en hér vantar allt jafnvægi.

Hér vantar "Gil efans".

Birgir Baldursson 08.06.2017
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?