Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Andlit póstmódernismans í fræðaheiminum

Teiknimynd sem grínast með póstmódernisma

Póstmódernismi er ekki eitthvað eitt og hann er ekki bara góður eða slæmur. Það eru nokkur einkenni sem hægt er að tala um sem helstu einkenni póstmódernisma í fræðaheiminum. Þetta eru auðvitað ekki algildir né tæmandi flokkar og það er töluverð skörun á milli þeirra. Áður en lengra er haldið þá er rétt að benda á að þessi umfjöllun nær eingöngu til póstmódernisma í fræðaheiminum og þó að margt af þessu speglist í listum og menningu þá er ég ekki að fjalla um það.

Póstmódernískur stíll

Sumir póstmódernistar hafa leiðinlegan vana á að flækja mál sitt með orðskrúði og ákveðnum póstmódernískum orðaforða. Í því samhengi man ég sérstaklega eftir íslenskum fræðimanni sem sagði mér frá því að hann hafi áttað sig á innihaldsleysi eigin texta þegar hann reyndi að þýða hann á íslensku. Þetta er væntanlega komið úr frönsku þar sem fræðimenn léku sér að þessu. Stundum sýnist manni að margir séu einfaldlega að reyna að láta sjálfa sig líta út fyrir að vera klárari en þeir eru og textann dýpri en hann er. Sumir geta beinlínis komist upp með að bulla eins og Alan Sokal sýndi fram á.

Sjálfur er ég á því að fræðimenn eigi að reyna að skrifa eins skýrt og þeir mögulega geti. Þegar fræðitexti er gerður torlesinn að óþörfu þá eru fræðimenn að læsa sjálfa sig að óþörfu inn í fílabeinsturni þar sem almenningur kemst ekki að. Ég man eftir að hafa átt í erfiðleikum í námi þegar ég var að lesa grein eftir franskan fræðimann en síðan tók samnemandi minn sig til og útskýrði það fyrir mér í stuttu máli og þá reyndist inntak textanns ekki vera nálægt því jafn flókið og sýndist í fyrstu. Ég man líka eftir því að hafa barist í gegnum torskilna texta og hafa orðið svo ánægður með sjálfan mig þegar ég fattaði hvað höfundurinn var að meina. Mér leið eins og ég væri voðalega klár. Það held ég að sé kannski ein helsta ástæðan fyrir því að póstmódernískur stíll þrífst. Fólk sem les og skilur slíkan texta gleðst ekki bara yfir því að fá nýja þekkingu heldur yfir því að það sé nógu snjallt að geta skilið. Þannig verður póstmódernismi bara að tungumáli sem menn geta notað í gáfumannaleikjum af því að latínan er ekki lengur boðleg í það hlutverk.

Póstkólóníalismi og/eða efasemdir um ríkjandi gildi

Í kjölfar hnignunar nýlendustefnunnar þar sem vestræn menning var talin vera æðst fóru menn að skoða menningu annarra hópa með nýjum augum. Hugtök eins og "frumstæð" og "þróuð" voru tekin til endurskoðunar. Um leið fóru menn að efast um skiptingu vestrænnar menningu í "hámenningu" og "lágmenningu". Þetta tvennt varð til þess að fræðimenn fóru að rannsaka ýmislegt sem áður taldist ómerkilegt. Þá var farið að efast um ríkjandi kenningar í fræðimennsku og margar þeirra hraktar.

Sjálfur er ég á því að þetta sé gagnlegasti þáttur póstmódernismans. Fræðimennska var, og er jafnvel enn, of miðuð við vestræna hámenningu. Innan vestrænnar menningar er þetta líka einkenni stéttarskiptingar. Við höfum lágmenningu fyrir verkalýðinn og hámenningu fyrir yfirstéttina. Í sumum tilfellum finnst mér þetta þó ganga aðeins of langt í áttina að hugmyndinni um hinn göfuga villimann þar sem ákveðnir menningarhópar eru stimplaðir æðri eða ekta. Ég hef einnig rekist á fólk sem er í harðri baráttu gegn fræðikenningum sem voru ríkjandi þegar póstmódernisminn reis en eru nú horfnar. Þannig hafa ákveðnir angar póstmódernismans náð stöðu ríkjandi gilda þó fylgismennirnir skilgreini sig enn sem uppreisnarmenn í andófi.

Póstmódernísk þekkingarfræði

Þetta er í raun nátengt efasemdum um ríkjandi gildi vestrænnar menningar. Skoðun mismunandi menningarhópa, jafnvel skoðun hvers og eins, er talinn sannleikur útaf fyrir sig. Sannleikur hvers og eins verður jafn. Skoðun læknis og töfralæknis á sjúkdómum verður jöfn. Þetta fær á sig sögulega vídd og þá hafa illir andar valdið geðsjúkdómum og þó við finnum skýr merki berkla í egypskum faró þá dó hann ekki úr berklum af því að berklar höfðu ekki verið uppgötvaðir á þeim tíma. Þessu fylgir líka stundum siðferðisleg afstæðishyggja í kjölfarið þannig að við megum ekki yfirfæra okkar siðferðilegu gildi á aðra menningarhópa.

Sjálfur hef ég kennt mig við vísindalega efahyggju. Ég tel vísindin vera bestu þekkingarleiðina sem við höfum þó ég telji vísindi ekki fullkomin. Ég tel grundvallarmun á vestrænum lækni sem byggir á vísindalegum rannsóknum við meðhöndlun á sjúklingum og töfralækni sem hefur ekkert slíkt að baki sér. Það þýðir ekki að við hunsum töfralækninn algerlega. Mögulega sjáum við að eitthvað sem hann gerir virkar. En við tökum ekki bara upp aðferðir töfralæknisins hugsunarlaust. Við rannsökum þær og greinum (samt ekki ég persónulega). Ef við erum að skoða hluti sagnfræðilega þá er gott að muna að egypskir læknar höfðu ekki okkar þekkingu þegar þeir reyndu að lækna faró en berklar urðu ekki til þegar menn fóru að skilja sýkla. Menn þjáðust af berklum löngu áður en læknar vissu nokkuð um hvað olli sjúkdóminum. Hið sama á við um geðsjúkdóma. Það að tala um illa anda er bara ekki jafngóð skýring og hvað annað. Sú skýring er einfaldlega ekki hjálpleg. Hið sama gildir um siðferðislega afstæðishyggju. Sögulega getur verið gagnlegt að vita að siðferðisleg viðmið voru ekki söm og í dag en ef við teljum öll viðhorf jafn rétt þá gætum við til dæmis ekki sagt að fólk sem vildi afnema þrælahald hafi frekar haft rétt fyrir sér heldur en þeir sem vildi viðhalda því. Sömuleiðis er ég á því að umskurn barna sé röng af ástæðum sem er auðvelt að rökstyðja. Sá sem aðhyllist siðferðislega afstæðishyggju gæti með engu móti tekið þá afstöðu.

Frá einhverjum sjónarhornum er ég sjálfur póstmódernisti en ekki frá öðrum. Póstmódernismi er ekki eitthvað sem er hægt að hafna sem heild. Póstmódernisminn er allt í senn gagnlegur, gagnslaus og skaðlegur.


Upphafleg mynd fengin hjá Mel Chua og birt með CC-leyfi.

Óli Gneisti Sóleyjarson 01.05.2017
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Guðjón Eyjólfsson - 02/05/17 22:13 #

Þetta eru áhugaverðar pælingar, sem ég er að vissu leiti sammála. Og þó að við séu eflaust mjög ósammála um margt lítst mér miklu betur á þessar pælingar heldur en þá stæku vísindahyggju sem margi vantrúarmenn aðhyllast. Þó að hefðbundin póstmódernismi heilli mig ekki einmitt vegna þess sem þú bendir á að hann hefur tilheigingu til að vera óttarleg hotaþoka, sem ég hef engan áhuga þá held ég að við séu í eðli okkar miklu póstmódernískar en almennt er viðurkennd. Sá sannleikur sem flest okkar aðhyllast er miklu persónulegri en við viljum viðurkenna. Nú trúi ég á tilvist sannleikans, en gallinn við sannleikan er að það er útilokað að höndla hann vegna mannlegra takmarkanna- það eina sem okkur stendur til boða er miskilingur okkar á því hvernig hann er. Það að halda að skynsemi geti komið okkur til bjargar er í flestum tilvikum tálsýn. Þú talar um vísindinn og að þau séu besta leið til að afla þekkingar. Vísindin og skynsemi eru frábær og við ættu ekki að hafana þeim- en sannleikurinn er þeim æðri- það eru því miður engin trygging fyri þvi að skynsemi og vísindi nái að höndla sannleikann t.d. er tilvist örvera óháð því kvort menn hafi yfir að ráða nægilegri tækni til að skoða þær. Örverur urðu ekki til þegar menn uppgötvuðu smásjár eða rafeindasmásjár. Þess vegna er það að þó að ekki séu til nein vísindaleg rök fyrir einhverju þá hefur það engin áhrif á sannleikann og sömuleiðis setur skynseminn sannleikanum engin takmörk. Hættan við vísindinn er að menn fara að trúa þvi að sannleikurinn sé bundin af vísindlegri þekkingu og skynsemi er hættuleg með sama hætti- menn virðast trúa því í raun og veru að skynsemi geti sett sannleikanum mörk- það sem skynsemin getur ekki höndlað geti ekki verið til það er að mínu mati mikill miskilningur sannleikanum halda engin bönd og mér sýnist að hann sé að vissu leyti þannig að maðurinn eigi enga möguleika á að höndla hann allann.


Stefán - 03/05/17 12:08 #

Þetta byrjaði ágætlega hjá þér Gunnar - en fór út í skurð á undraverðum hraða.

Trú á vísindi og hina vísindalegu aðferðafræði felur í sér þá afstöðu að enginn sannleikur (kenning í vísindalegum skilningi) sé endanlegur og óhagganlegur - kenningar eru sífellt í endurskoðun útfrá nýrri þekkingu. Eins er vitað að til eru margvísleg fyrirbæri sem þekking nútímans getur ekki útskýrt - þessum fyrirbærum er ekki afneitað á nokkurn hátt. Það er þó lágmarkskrafa að sýnt sé fram á fyrirbærið sé líklega til - ekki hugarfóstur fólks. Þetta er hornsteinn vísinda.

Af þessu leiðir að einungis skilningur okkar á fyrirbærum (t.d. Sannleikanum þínum) er bundinn við, og takmarkast af, þekkingu okkar á hverjum tíma - ekki öfugt.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 03/05/17 18:17 #

Vísindaleg aðferð hefur stundum verið kölluð einfaldlega skipulögð þekkingarleit; mér finnst það skýra eðli hennar ágætlega. Í skipulagðri þekkingarleit má auðvitað ekki gefa sér að komin sé endanleg vitneskja um neitt, þar sem það getur verið eitthvað meira sem við vitum ekki. Krítíkin er þess vegna ómissandi hluti af vísindum ef þau eiga að standa undir nafni.

Upphafning vísindamannsins sem kennivalds er líka óvísindaleg. Það á ekki að trúa einhverju vegna þess að vísindamaður segi það, heldur á að meta rökin eða gögnin sem vísindamaðurinn færir fram, og byggja skoðun sína á þeim. Í mínum huga er hvítur sloppur vísindamanns – einkennisbúningurinn sem gefur honum kennivald í huga leikmanna – hann er í mínum huga sama eðlis og skrúði prests, og menningarlegt hlutverk hans eflaust ættað þaðan.

Vísindin eru kannski ekki fullkomin, en takmarkanir þeirra eru kannski í rauninni takmarkanir þeirra sem stunda þau – en kannski enn fremur þeirra sem stunda þau ekki, skilja ekki vísindalega aðferð og nálgast vísindi á sama hátt og óvísindi. Trúa bara því sem er sagt. Eða trúa bara ekki því sem er sagt. Eða trúa kannski því sem passar við það sem þau trúa fyrirfram. Eða velja og hafna eftir því hvað hentar einhverjum hagsmunum þeirra, raunverulegum eða ímynduðum.

Ég vil samt taka upp hanskann fyrir bæði þróun/vanþróun og fyrir siðferðislega afstæðishyggju. Varðandi það fyrrnefnda: Meiri þróun er það sama og betra vald samfélagsins á því að bjarga sér. Vanþróað samfélag getur haft siði sem eru betri heldur en siðir annars þróaðra samfélags. Það getur verið barnvænna, sáttfúsara, gestrisnara o.fl. sem við teljum almennt göfugt og gott. En það er samt vanþróaðra ef það er á steinaldarstigi og hitt samfélagið er á járnaldarstigi. Þannig að þróað/vanþróað er ekki einhlítur mælikvarði á gott/vont.

Varðandi siðferðislega afstæðishyggju: Hún hefur stundum fengið vonda pressu. En er hinn valkosturinn – siðferðislegur einstefnuakstur eða bókstafstrú – betri? Ef maður tekur dæmi af þjófnaði, er þá einfaldlega bannað að stela? Er líka bannað að stela matarbita ef það er eina leiðin til að gefa sveltandi barni að borða? Það á ekki að sparka í punginn á mönnum – en ef einhver er að nauðga manni og maður gerir það í sjálfsvörn, ætlar þá einhver að segja að það sé „rangt“? Mitt svar: Stundum helgar tilgangurinn meðalið og stundum ekki og það hlýtur að kallast siðferðisleg afstæðishyggja.

Að yfirfæra okkar siðferðislegu gildi á aðra hópa þýðir bæði að við skiljum ekki hvernig hinir hóparnir hugsa – og það getur verið í tíma, ekki síður en rúmi, sbr. gildismatið í okkar eigin fornsögum vs. gildismat okkar í dag – og það þýðir líka, eða getur þýtt, að við teljum okkur sjálf vera komin á þokkalega hátt siðferðislegt plan. Eða, er það ekki annars? Gott og vel – við erum það líklega flest – en samfélag sem er t.d. ekki ennþá hætt að fara illa með niðursetningana sína, fer ómannúðlega með dýr, sóðar út náttúruna og leyfir auðmönnum að komast upp með þjófnað á stigi sem er helst sambærilegt við landráð – hefur það samfélag efni á að setja sjálft sig á háan siðferðissess?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 05/05/17 10:20 #

Mér sýnist að Vésteinn sé ekki að tala um það sem ég kalla siðferðislega afstæðishyggju heldur það sem er kallað á ensku moral particularism.


Guðjón Eyjólfsson - 05/05/17 19:09 #

Ég vil útskýra aðeins betur á hverju ég byggi niðurstöður mínar. Það sem hefur algjörlega breytt hugmyndum mínum um skynseminna og takmarkanir hennar er að kynna mér nútíma eðlisfræði - en mjög margt i henni er í andstöðu við heilbrigða skynsemi- mér sýnis. Til dæmis skammtafræði sem er óskiljaleg öllu venjuleg fólki sennilega vegna þess að þessi fyrirbæri eru svo fólkin að mannleg skynsemi höndlar þau ekki. En það er fleira við eðlisfræðina sem er áhugavert. Heimsmynd eðlisfræðinnar eins og ég skil hana segir að ástæða þess að eitthvað er yfirleitt til eru náttúrlögmálinn og ef þau hættu að virka þó ekki væri nema í skamma stund mynd t.d. allt efni hverfa. Samband vísinda og sannleikans eru áhugavert. Ég fær ekki betur séð að vísindi fjalli alls ekki um sannleikann- það sem þau fjalla um er skilningur vísindamanna á sannleikannum og það er allt annað mál. Ef vísindin fjölluðu í raun og veru um sannleikann væri bara til ein vísindagrein Svo er alls ekki sem gæti skýrt all og hvernig einstakir þekkingaþættir passa saman. Þess í stað höfum við margar vísindagreinar og sem hver um sig er með hlutakenningar sem passa ekki við kenningar annar visindagreina.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 09/05/17 17:36 #

Ég var nú bara að tala um þá merkingu sem ég hygg að sé almennt lögð í siðferðislega afstæðishyggju í daglegu tali.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 10/05/17 14:10 #

@Vésteinn: Ég tók dæmi af viðhorfi til þrælahalds. Segjum að þú færir aftur til ársins 1860 og myndir hitta fyrir fólk sem teldi þrælahald fullkomlega eðlilegt og síðan afnámssinna. Gætir þú ekki tekið afstöðu til þess hvor hópurinn hefði siðferðið í lagi? Ef þú segir flatt nei og að við getum bara ekki metið það hvor hópurinn hefur rétt fyrir sér þá er það siðferðisleg afstæðishyggja. Maður myndi jafnvel komast að þeirri niðurstöðu að þrælahald væri siðferðislega rétt í Suðurríkjunum en rangt í Norðurríkjunum.

Moral particularism er hins vegar það að afneita lögmálum og skoða hvert dæmi fyrir sig. Það er sumsé hægt að afneita algildum lögmálum, skilyrðislausum skylduboðum, án þess að fara á braut siðferðislegrar afstæðishyggju.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.