Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Meira helvítis vesen hjá prestum

Málverk sem sýnir dómsdag

Nýlega var ríkiskirkjupresturin Davíð Þór Jónsson í viðtali á Harmageddon. Hann hefur rannsakað sögu helvítis og þess vegna kom það mjög á óvart að heyra hann segja þetta:

Það stendur bara hvergi í biblíunni að andskotinn drottni yfir helvíti eða að við förum til helvítis eftir dauðann. Það bara stendur ekkert um það.

Hvenær förum við til helvítis?

Það er rétt að í biblíunni ræður djöfullinn ekki yfir helvíti. Guð ræður yfir helvíti og djöfullinn er eitt af fórnarlömbum guðs í helvíti.

Það er hins vegar ekki rétt að það standi ekki neitt í biblíunni um að fólk fari til helvítis eftir dauðann.

Sem dæmi má benda á þessi ummæli Jesú:

Ég skal sýna yður hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann. (Lk 12:5)

Þarna er Jesús klárlega að tala um að guð drepi fólk og sendi það síðan til helvítis.

Vissulega er afskaplega lítið um staði þar sem það er beinlínis sagt “þegar við deyjum förum við til helvítis eða himnaríkis". En það er einungis hálf-sannleikur.

Dómsdagur og svo helvíti

Í Nýja testamentinu er nefnilega meira talað um að fólk sé sent til helvítis á dómsdegi við endurkomu Jesú. Þetta segir Jesús til dæmis:

Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Matt 13:49-50)

Auk þess er það boðað í Nýja testamentinu að við endurkomu Jesú muni hann “dæma lifendur og dauða” (svo vitnað sé í postullegu trúarjátninguna, sem Davíð Þór játar væntanlega nánast vikulega):

Og [Jesús] bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað. (Post 10:42)

Biblían talar því um að við heimsendi muni guð dæma fólk sem er dáið og ef það er í ónáð þá mun Jesús kasta þeim í helvíti.

Af hverju þessi afneitun?

Davíð Þór er einn þeirra presta sem er meinilla við trú kirkjunnar sinnar á helvíti. Ég held að það hafi því miður áhrif á túlkun hans á biblíunni. Hann og aðrir prestar sem trúa ekki á helvíti þurfa að rembast við að snúa út úr textum biblíunnar.

Það væri óskandi að þessir prestar myndu einfaldlega fordæma helvítistexta Nýja testamentisins í staðinn fyrir að reyna að fegra þá; en þá þyrftu þeir væntanlega að fordæma aðal-helvítispredikara biblíunnar: Jesú.

Hjalti Rúnar Ómarsson 06.02.2017
Flokkað undir: ( Biblían )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?