Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aðförin að ríkiskirkjunni

Mynd af seðlum

Í dag birtist merkileg frétt í Fréttablaðinu. Samkvæmt henni íhugar ríkiskirkjan nú að stefna íslenska ríkinu fyrir vangoldin sóknargjöld. Um er að ræða hundruðir milljóna sem kirkjan telur sig eiga inni hjá landsmönnum.

Fréttin er reyndar svolítið ruglingsleg en blaðamanninum er auðvitað vorkunn því að umræðan um sóknargjöld innan kirkjunnar er ekkert minna en snargalinn. Í fréttinni kemur fram að eftir hrunið 2008 hafi sóknargjöld verið skorin niður og einnig að þau séu reiknuð útfrá meðaltekjuskattstofni. Það er rétt. En það er einnig haft eftir biskupi að þar sem meðaltekjuskattstofn hafi hækkað en ekki sóknargjaldið sé ríkið að innheimta sóknargjöld sem það ekki skilar kirkjunni. Það er ekki bara rangt, heldur passar það engan veginn saman að sóknargjöld séu bæði reiknuð útfrá skattstofni og innheimt sérstaklega. Enda er það ekki svo. Umboðsmaður alþingis, fjármálaráðherra og nú síðast ríkislögmaður hafa staðfest það sem blasir við þegar lög um sóknargjöld (nr.91/1987) eru lesin: Ríkið innheimtir engin sóknargjöld.

Það er í raun stórmerkilegt hvernig ríkiskirkjan flakkar stöðugt á milli þess að vera sjálfstæð stofnun sem rekin er með einhverskonar félagsgjöldum og þess að vera stofnun á fjárlögum frá ríkinu, allt eftir því hvað hentar henni best. Næsta málsgrein eftir þá þar sem vitnað er í biskup um sóknargjöld sem ekki er skilað er tilvitnun í bréf forseta og framkvæmdastjóra kirkjuráðs:

Kirkjan lét þetta yfir sig ganga en fljótlega kom í ljós að gengið hafði verið miklu lengra gagnvart henni og öðrum rétthöfum sóknargjaldanna heldur en gagnvart öðrum sem sættu skerðingu á framlögum á fjárlögum og í raun var ekki hægt að lýsa þessu öðruvísi en sem aðför að kirkjunni vegna þess hversu sértæk og íþyngjandi þessi aðgerð var

Hér eru þetta orðin framlög á fjárlögum. En það merkilegasta í þessum orðum er auðvitað að hér skín í gegn nýjasta hlutverkið sem kirkjan hefur tekið sér, fórnarlambshlutverkið. Greyið ríkiskirkjan á alveg ógurlega bágt. Þetta var hrein og klár aðför.

En í hverju fólst þessi aðför? Var í sjálfu sér eitthvað óeðlilegt að á árunum eftir hrun væri skorið meira niður hjá trúfélögum heldur en í öðrum málaflokkum? Var þetta ekki bara ósköp sanngjörn forgangsröðun? Hvaðan hefði annars átt að taka þennan mun sem var á skerðingu til kirkjunnar umfram aðrar opinberar stofnanir?

Kirkjan er ekki meira fórnarlamb en það að um leið og hún rak upp kveinstafi vegna þess hversu illa hafi verið farið með sig í hruninu hljóp innanríkisráðherra til og lofaði henni fleiri hundruð milljónum, einmitt vegna meintra vangoldinna sóknargjalda (sem engin eru). Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinni annari ríkisstofnun sem ráðuneyti hafa gert sérstaka samninga við um að bæta upp niðurskurð á árunum eftir hrun.

Það er nú öll aðförin. Kirkjan þurfti eins og aðrar stofnanir að glíma við niðurskurð í kjölfar hrunsins. Hún hefur fengið loforð um að sá niðurskurður verði bættur og eru þær bætur upp á hundruðir milljóna þegar farnar að berast. En það finnst biskupi ekki nóg. Þetta gerist ekki nógu hratt. Og því miður er líklegra en ekki að hún fái það sem hún vill. Því öfugt við það sem ríkiskirkjan vill sjálf meina er hún ekki fórnarlamb í íslensku samfélagi, hún er einhver mesta forréttindastofnun sögunnar.

Egill Óskarsson 25.01.2017
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Sóknargjöld )

Viðbrögð


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 25/01/17 15:33 #

Þá er rétt að hafa í huga að...

  1. Það er beinlínis rangt að kirkjan hafi þurft að þola meiri niðurskurð en aðrir frá 2008

  2. Kirkjan fékk hins vegar talsvarðar hækkanir til 2008


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 25/01/17 15:42 #

Kirkjan fékk hins vegar talsvarðar hækkanir til 2008

Það er súlurit í þessari grein(byggt á tölum frá fjármálaráðuneytinu) sem sýnir þróunina (fyrir þá sem vilja sjá þetta með eigin augum).

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?