Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jesús mætir í Hallgrímskirkju

Hallgrímskirkja

Um daginn mættu tveir belgískir dómsdagsspámenn í Hallgrímskirkju. Samkvæmt prestinum, Sigurði Árna Þórðarsyni, voru þeir mættir til að vara Íslendinga við því að ef við myndum ekki "bæta okkur stórlega í siðferðinu og breyta um trúarafstöðu" myndi guðinn þeirra refsa íslensku þjóðinni, með eldgosi!

Viðbrögð sóknarprestsins

Prestinum fannst þetta "vondur gjörningur" og taldi að þetta væri merki um þroskaskort og sagði þetta við þá:

Ég væri algerlega ósammála þeim um bókstarfstúlkun þeirra á Biblíunni og hvernig þeir töluðu um Guð. Þeir veldu út ofbeldistexta og skildu ekki stóra samhengið sem Jesús hefði tjáð og sýnt svo vel. Það versta væri að þeir töluðu um Guð eins og Guð væri refsiglaður, pirraður karl. Svoleiðis guðsmynd væri alltaf aðeins vörpun á eigin pirringi, eigin vanlíðan og eigin reiði. Þegar fólk megnaði ekki að leysa vanda sinn, varpaði fólk honum yfir á aðra og teldi að Guð væri að baki. Ofbeldismúslimarnir í Evrópu vörpuðu vanlíðan sinni og reiði yfir hve illa hefði verið farið með múslima yfir á samfélagið. Þeir réttlættu eigin ofbeldisverk með því að nota Guð sem einhvers konar göfgun. Slík guðsmynd væri fjarri þeirri guðsmynd sem Jesús Kristur hefði túlkað, sýnt og opinberað. Guð væri ekki reiður, dómaþyrstur, refsiglaður harðstjóri heldur þvert á móti elskubrunnur veraldar, ástmögur, kærleiksríkur faðmur.

Dómsdagsspár Jesú

Það sem er skondið við þetta er að Jesús eins og hann birtist í guðspjöllunum er keimlíkur þessum belgísku dómsdagsspámönnum. Hvernig myndum við til dæmis bregðast við belgískum trúboðum sem segðu eitthvað svona?

Þá fóru Belgarnir að skamma borgirnar þar sem þeir höfðu starfað, af því að borgirnar höfðu ekki gjört iðrun. “Vei þér, Kópavogur! Vei þér, Grindavík! Ef það sem við gerðum hefði gerst í Amsterdam eða London, þá hefði þær löngu iðrast. En við ykkur vil ég segja þetta: Á dómsdegi munu Amsterdam og London farnast betur en ykkur!

Og þú, Hafnarfjörður, munt þú komast til himna? Nei, þú munt fara beina leið til helvítis! Ef það sem við gerðum hefði gerst í Sódómu, þá væri Sódóma enn til í dag. Og ég segi þér Hafnarfjörður, að landi Sódómu mun farnast betur á dómsdegi en þér!”

Þessi ummæli eru auðvitað komin frá Jesú sjálfum upprunalega (Matt 11:20-24), ég hef bara staðfært þau.

Jesús er í Nýja testamentinu álíka vanþroskaður og ruglaður og þessir belgísku dómsdagsspámenn. Í Nýja testamentinu boðar Jesú líka að maður þyrfti að iðrast eða verða fórnarlamb guðs við heimsendi.

Guðinn hans Jesú

En Sigurður segir að hann trúi á "þann Guð sem Jesús opinberaði okkur". Sá guð er samkvæmt honum ekki reiður, dómaþyrstur, refsiglaður, harðstjóri og pirraður karl.

Ef maður les guðspjöllin, sérstaklega dæmisögur Jesú, tekur maður eftir einu: Í dæmisögunum líkir Jesú guði mjög oft við reiða, dómaþyrsta, refsiglaða og pirraða karla. Jesús líkir guði við:

  • konung sem lætur drepa þá sem vildu ekki að hann yrði konungur (Lk 19:12-27)
  • þrælaeiganda sem lætur berja óhlýðna þræla eða jafnvel drepa (Lk 12:42-48)
  • konung sem í reiði sinni hendir þjóni sínum í dýflissu til að láta pynta hann (Mt 18:21-35)

Þessar dæmisögur passa ekki við "krúttguðinn" sem Sigurður Árni trúir á, en passa algerlega við þann guð sem sést annars staðar í ummælum Jesú og í frumkristni.

Jesús, og aðrir í frumkristni, trúðu því að dómsdagur væri í nánd og þá myndi guð refsa "vondu fólki". Jesús talar sjálfur um að við heimsendi myndu englar henda fólki í eldsofn (Mt 13:40-43).

Það er spurning hvort Sigurður Árni vilji líka útskýra þetta með því að Jesús hafi bara almennt verið pirraður, reiður og hafi liðið illa.

Ósamræmið mikla

Það er í sjálfu sér fínt að íslenskir prestar séu búnir að afneita öllu dómsdagstali. En það er ótrúleg hræsni að kvarta yfir því að dómsdagsspámenn séu vanþroska grey, og segja um leið að þeir ættu að taka Jesú sér til fyrirmyndar:

Jesús var nefnilega dómsdagsspámaður.

Ritstjórn 06.10.2016
Flokkað undir: ( Messurýni , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?