Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Flóttamenn

Mynd af flóttamönnumMargir hafa farið mikinn vegna stuðnings Vantrúar við aðgerðir presta í þágu flóttamanna. Rétt er að byrja á því að benda á að auðvitað telur Vantrú ekki að kirkjur séu heilagri heldur en t.d. heimili fólks1. Aðgerðir prestanna voru einfaldlega í samræmi við þau gildi sem Vantrú hefur haft í heiðri. Við hefðum haldið að allt kristið fólk myndi gleðjast yfir því að sjá náungakærleikann í verki.

Þegar Vantrú fór af stað þá var fljótlega tekin ákvörðun um að félagið myndi berjast almennt fyrir mannréttindum, ekki bara réttindum trúleysingja. Þegar við berjumst gegn trúboði í skólum þá gerum við það ekki bara á þeim forsendum að börn trúleysingja eigi að sleppa við slíkan áróður heldur teljum við að hér sé brotið líka á börnum búddista, múslima og annarra sem ekki aðhyllast ríkistrúna. Við erum félag sem berst gegn mismunun á grundvelli trúarskoðanna,

Það liggur því beint við eins og staðan er í dag að Vantrú taki afstöðu. Flóttamönnum virðist einfaldlega vera mismunað á forsendum trúarbragða. Orðræðan sem viðgengst í samfélaginu gagnvart múslimum er hræðileg. Þó við teljum það eðlilegt að gagnrýna íslam, eins og önnur trúarbrögð, þá verður sú gagnrýni að vera studd staðreyndum. Í dag sjáum við hins vegar hræðsluáróður sem byggist á alhæfingum og þekkingarskorti eða hreinum lygum.

Evrópa stendur frammi fyrir alvarlegum flóttamannavanda sem hefur orðið til vegna aðgerðarleysis. Þessi skortur á aðgerðum á sér rætur að rekja til hræðslu og fordóma. Við í Vantrú erum kannski gamaldags pósítívistar en við teljum hægt að leysa vandann með þekkingu og mannúð.

Það er kannski einfeldningslegt að segja það, en þegar fólk er að deyja þá sjáum við muninn á réttu og röngu.


[1] Við höfum þó gegnum tíðina ekki stundað okkar beinu aðgerðir þannig að þær trufluðu trúarathafnir.

Upphafleg mynd eftir Mikhail Evstafiev og birt með cc-leyfi

Óli Gneisti Sóleyjarson 08.07.2016
Flokkað undir: ( Siðferði og trú , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Guðjón Eyjólfsson - 08/07/16 16:52 #

Ég vil nota tækifærið og hrósa vantrú fyrir að standa með flóttamönnum. Þeir þjóðkirkjumenn sem hafa reynt að styðja við bakið á flóttamönnum eiga líka hrós skilið. Ég tel að það sé mikilvægt að menn sem eru óssamála um trúmál eða önnur mál geti unnið saman að málefnum sem þeir eru sammála um. Þá er meiri líkur á að umbætur komist á. Kveðja


Elín Sigurðardóttir - 09/07/16 09:21 #

"Evrópa stendur frammi fyrir alvarlegum flóttamannavanda sem hefur orðið til vegna aðgerðarleysis." Þetta er einkennileg fullyrðing. Ég hélt að flóttamennirnir væru að flýja stríð. Lilja Dögg Alfreðsdóttir er á Natófundi úti í Póllandi að byggja upp spennu í heiminum á meðan kirkja í tilvistarkreppu á Íslandi býr til súrrealískan sjónleik. Að tengja þetta við þekkingu og mannúð er hræsni.


Elín Sigurðardóttir - 09/07/16 10:07 #

http://www.visir.is/samstarf-esb-og-nato-verdi-nanara-/article/2016160708998


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/07/16 10:52 #

Flóttamannastraumurinn varð til vegna stríðs. Vandinn varð til vegna aðgerðarleysis. Það væri alveg hægt að taka á móti þessum flóttamönnum ef viljinn væri fyrir hendi.


Elín Sigurðardóttir - 10/07/16 12:32 #

Af hverju heldurðu að flóttamennirnir vilji láta bjarga sér? Heldurðu að þeir vilji ekki helst af öllu vera heima hjá sér? Hvenær á að ræða rasismann í ESB/Nató og vestrænu samstöðunni hans Björns Vals?


Jóhann - 13/07/16 22:18 #

Segið mér, vantrúarmenn, er til ein einasta hjálparstofnun trúleysingja?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 14/07/16 09:38 #

Það er til fullt af stofnunum og samtökum sem hjálpa fólki án þess að gera það á einhverjum trúarlegum forsendum.

Þannig aðila styrki ég..

Og satt að segja skil ég ekki hverjum datt í hug að tengja hjálparstarf við trúarbrögð, nema kannski til að nýta "tækifærið" og standa í trúboði í leiðinni.


Hanna Lára Gunnarsdóttir - 14/07/16 21:26 #

Já, Jóhann (og aðrir sem hafa spurt um tilvist hjálparstofnana trúleysingja). Til er fjöldi hjálparstofnana sem ekki eru tengd neinum trúarhópum og sum meir að segja tengd trúleysi. Því miður er það svo að ef samtök lýsa því gagngert yfir að meðlimir þeirra séu trúleysingjar, er oft minni von til þess að (trúað) fólk styðji framtakið, vegna aldagamals hræðsluáróðurs og þvælu um mannvonsku okkar trúleysingjanna.

En þó er til fjöldi samtaka sem hafa enga trú að leiðarljósi og hafa verið virk og gjöful, jafnvel í meira mæli en þau samtök sem starfa undir merkjum einhverrar trúar. Ekki skal lastað framtak hinna síðarnefndu, þótt vitað sé að alltof oft er tækifærið nýtt til trúboðs, meðfram hjálparstarfinu. Óneitanlega er einlægari tónn í aðstoð sem er veitt án vonar um ábata í þessu lífi eða öðru. Og því er ekki laust við að manni gremjist þegar trúleysingjar eru vændir um að vera síðri mannvinir en þeir trúuðu.

Því ber að nefna nokkra trúleysingja og trúleysingjasamtök sem hafa látið gott af sér leiða. Fyrst skal frægasta telja tvo af ríkustu mönnum Bandaríkjanna (og jafnvel heimsins), þá Bill Gates og Warren Buffet. Þeir og samtök þeirra hafa varið gríðarlegum fjármunum til alls kyns hjálparstarfsemi. Báðir yfirlýstir trúleysingjar.

Stofnun Richard Dawkins (R.D. er nú einhver frægasti trúleysingi nútímans) hefur ötullega stutt mörg góð málefni, þar með talið hjálparstarf í stríðshrjáðum löndum og á svæðum sem orðið hafa fyrir náttúruhamförum.

„ Doctors Without Borders = Læknar án landamæra“ sem og „Engineers Without Borders„ hafa að leiðarljósi að engin trúarbrögð séu öðrum fremri þótt þar sé ekki beinlínis starfað „undir merkjum trúleysis“ - Trúarlíf fólksins hefur einfaldlega ekkert vægi þar innan veggja. Það er eftirbreytnivert.

„Foundation Beyond Belief“ eru samtök trúleysingja sem sinna margvíslegum mannúðarmálum og hjálparstarfsemi og sama má segja um British Humanist Association (BHA).

Rotary hreyfingin skilgreinir sig sem „Secular“ og sama gera OXFAM, KIVA, S.H.A.R.E (The Secular Humanist Aid and Relief Effort), Atheist Centre of India auk fjölda annarra stofnana vítt og breitt um heiminn, sem starfa án trúariðkunar þótt engum sé varnað trúarvissu sinnar.

Hér hafa aðeins örfá verið nefnd af þeim fjölmörgu góðgerðarsamtökum sem ekki starfa undir merkjum trúar og það er einfalt mál að finna hundruð til viðbótar ef þessi duga ekki til að hrekja þann leiðinda-áróður að ekki séu til góðgerðasamtök trúleysingja.

Þetta er allt einstaklega fyndið í ljósi 6. kapítula Mattheusarguðspjallsins, 1. - 6. vers, einkum fyrir þá sem telja sig kristna.

Að lokum er vert að benda á niðurstöður bandarískrar könnunar sem leiddi í ljós að trúlausir voru almennt gjafmildari en þeir trúuðu. (Robb Willer og Laura Saslow /Berkley, Cal.)
http://news.berkeley.edu/2012/04/30/religionandgenerosity/

Með góðri friðarkveðju, Hanna Lára.


Jóhann - 15/07/16 23:39 #

Takk fyrir svarið Hanna Lára.

Mætti ég biðja þig um að tilgreina stofnun trúleysingja sem sinnir mikilvægu hjálparstarfi?

Ekki stofnanir sem kenna sig ekki við trú, en sinna hjálparstarfi.

Ég held að það hljóti að vera misskilningur að t.d. Oxfam sé trúleysingjastofnun.

Kannski helber vitleysa í mér.

En ég leyfi mér að senda þetta:

http://www.youtube.com/watch?v=EPjhpXTpHjs


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/07/16 20:23 #

Mætti ég biðja þig um að tilgreina stofnun trúleysingja sem sinnir mikilvægu hjálparstarfi?

Til hvers?

Ég held að það hljóti að vera misskilningur að t.d. Oxfam sé trúleysingjastofnun.

Hanna Lára sagði ekki að Oxfam væri trúleysingjastofnun heldur "secular" (veraldleg, kenna sig ekki við trúarbrögð).

Hvað segir Oxfam?:

We are secular, open-minded and pluralistic


Hanna Lára Gunnarsdóttir - 17/07/16 21:05 #

Sæll aftur, Jóhann, sem og aðrir lesendur. Einfaldasta svar mitt við spurningu þinni, Jóhann, er:

Nei, ég veit ekki um margar hjálparstofnanir sem eru reknar beinlínis í „nafni trúleysis“, enda staðhæfði ég það hvergi. Skýringin er líklega sú að trúleysingjar eru almennt ekki gjarnir á að stofna samtök utan um það að „vera ekki trúaðir“.

Það væri ámóta og að stofna klúbb þeirra sem ekki safna frímerkjum eða félag þeirra sem ekki stunda körfubolta. Ég hef til dæmis hvorki verið í kvenfélagi né pólítískum flokki, en er þó ekki gengin í neitt „and- kvenfélag“ né er ég meðlimur í „flokki utanflokkafólks.“

Þó er vert að nefna að American Humanist Association og Foundation Beyond Belief taka skýrt fram að hægt sé að vera „Good Without a God“ og að samtök þeirra byggi alls ekki á trúarskoðunum. Hugsanlega eru fleiri slík samtök, - ég bara veit það ekki.

En þetta er ekki snúið. Félagasamtökin, sem ég nefndi í fyrra bréfi mínu, eru ekki sett up sem andstæðingar trúar heldur er persónuleg trú einfaldlega undanskilin í stefnuskrám þeirra og velflest þeirra skilgreina sig sem „secular“ eða „veraldleg“. Þau eru að því leytinu ólík samtökum trúarsöfnuða að með þeim nauðsynjum sem útbýtt er til hinna þurfandi, er slatti af trúar- innrætingu látið fylgja með, því miður.

Í mínum huga er slík skilyrt aðstoð ekki nándar nærri eins göfug og góð og gjafir sem gefnar eru án væntingar um endurgjald af neinu tagi.

Ég horfði á myndbandið. Það var áhugavert, en ég sé ekki glöggt hvað það hafði með spjall okkar að gera.
Í góðum friði. Hanna Lára


Jóhann - 18/07/16 00:49 #

Sæl á ný, Hanna.

Takk fyrir svarið.

Ég hnýt þó um þetta: "Nei, ég veit ekki um margar hjálparstofnanir sem eru reknar beinlínis í „nafni trúleysis."

Þetta var spurning mín: "Segið mér, vantrúarmenn, er til ein einasta hjálparstofnun trúleysingja?"

Svo enn og aftur, takk fyrir svarið.

Mér þykir leitt að þú skiljir ekki hvernig myndbandið tengist þessari umræðu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/07/16 17:17 #

Þegar menn vilja ekki sjá svör er ekkert annað í stöðunni en að endurtaka.

Hjálparstarf ætti að vera í samvinnu allra sem geta hjálpað. Ef trúleysingjar færu í meiri mæli að stofna sérstök trúleysishjálparsamtök þá yrði það til þess að þeir gætu ekki unnið með trúuðu fólki í þessu nauðsynlega starfi. Það er óþarft og óæskilegt að reisa múra í kringum hjálparstarf. Fjöldi trúleysingja og trúaðra nær að vinna saman í hjálparstarfi án þess að blanda trúmálum þar inn. Það er til fyrirmyndar. #


Jóhann - 19/07/16 01:54 #

"Hjálparstarf ætti að vera í samvinnu allra sem geta hjálpað."

Nei.

Hjálparstarf er lofsvert án samvinnu allra.

Hjálparstarf er alltaf gott.

Það þarf ekki nema einn einstakling sem hefur næga samúð til að vilja aðstoða annan. (sjá myndband).

Það að þið skulið vera að gotta ykkur uppá náungakærleikann með svona mélkisuspeki:

"Aðgerðir prestanna voru einfaldlega í samræmi við þau gildi sem Vantrú hefur haft í heiðri. Við hefðum haldið að allt kristið fólk myndi gleðjast yfir því að sjá náungakærleikann í verki."

er nánast eins og að kenna sig við Jésú, án þess að viðurkenna áhrif hans.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/07/16 12:06 #

Og þú ert nánast að tala út úr rassgatinu á þér. Við í Vantrú hrósum þegar við teljum tilefni til þess.

Ég styrki veraldlegt hjálparstarf án þess að það komi þér nokkuð við. Það er ekki trúlaust hjálparstarf, heldur hjálparstarf óháð trúarbrögðum. Eins og hjálparstarf ætti að vera.


Hanna Lára Gunnarsdóttir - 19/07/16 20:06 #

Jæja, góðir hálsar. Bestu þakkir fyrir skrifin.

Þetta er að verða ágætis ritdeilur hérna og ég fagna því. Mér þykir einkar ánægjulegt að skiptast á skoðunum og vil gjarnan halda áfram (með ykkar leyfi).

En einnig leikur mér forvitni á að vita hvað þú ert að fara, Jóhann, og langar því að spyrja: Hvað vilt þú fá út úr þessu spjalli okkar? Hver var tilgangurinn með fyrstu spurningu þinni? Hvað finnst þér um það sem hér hefur verið skrifað?
Ertu sjálfur trúaður – og þá; á hvað?

Telur þú trúlausa vera á einhvern hátt verri manneskjur (siðlausari, síður gjafmildar og ekki eins tilbúnar að stunda hjálparstarf) en trúaðir /kristnir?

Hver er skoðun þín á því sem ég skrifaði fyrst (um Warren, Gates, Dawkins og hjálparstofnanirnar sem ég tilgreindi).

Vonandi eru spurningarnar ekki of nærgöngular og ég vil taka skýrt fram að ég er alls ekki að reyna að koma illu af stað; ég er bara svo spennt og forvitin, því ég hitti nánast aldrei trúað fólk sem er tilbúið að rökræða um það við mig.

Hugsanlega verðum við færð yfir á „Spjallið“ ef við höldum áfram. Ég vona þó ekki, því ég kann ekkert á það og það hefur dofnað það mikið yfir vefsíðunni að ég vona að við fáum áfram rými hér.

En ég vil sérstaklega þakka félögunum fyrir vefsíðuna og það tækifæri sem okkur er gefið til að ræða (hingaðtil) launhelg mál.

Með góðri friðarkveðju, Hanna Lára


Árni Árnason - 20/07/16 13:18 #

Ef ég væri meðlimur í Vantrú, eins og ég hef reyndar oft látið mér detta í hug, væri ég núna að segja mig úr samtökunum.

Ég hélt í einfeldni minni að Vantrú gengi út á eitthvað allt annað en það sem nú er komið í ljós. Í þvi tilefni dettur mér í hug að spyrja hvort einhvers konar könnun eða atkvæðagreiðsla hafi farið fram meðal félagsmanna um afstöðu þeirra til framferðis prestanna í Laugarneskirkju, eða er bara nóg að Óli Gneisti ákveði þetta fyrir hönd allra hinna.

Það er orðið rosalega þreytt, og langt seilst í skilgreiningu að halda því fram að það séu manréttindi fólks í miðausturlöndum að koma til Íslands á upplognum forsendum með fölsk eða "týnd" skilríki og setjast upp á velferðarkerfið.

Ég frábið mér þá mannúð og mildi sem felst í stefnu margra Evrópulanda að dæla " flóttamönnum " inn í aflögð verkamanna-ghetto til að taka þátt í atvinnuleysi í algerri eymd og félagslegri einangrun, sem svo brýst út í annarri og þriðju kynslóð sem drepur "velgjörðarmenn" sína af fáheyrðri grimmd byggðri á afdönkuðum trúarbrögðum fullum af grimmd og hatri.

Það er hreint alveg ótrúlegur barnaskapur að halda að það leysi yfirleitt nokkurn vanda þessa fólks að það flytji með allt sitt andlega hafurtask í opinn faðm vestrænna velferðarkerfa.

Það eina sem þarf er að Sameinuðu þjóðirnar ( sem reyndar er handónýt stofnun ) gyrði sig í brók og taki á vandanum í þeirra heimalandi. Assadar og Erdoganar heimsins fá að rústa sínum heimalöndum án þess að UN lyfti litla fingri, mér liggur við að segja í skjóli UN neitunarvalds.

Einu viðbrögð UN eru frá stofnuninni með sjálfumglaða , yfirlætisfulla nafnið.

UNHCR United nations " HIGH COMMISSIONER" for refugees.

Við vitum að lífsgæðum er misskift í heiminum og ólíku saman að jafna sandlituðu tilverunni í sahara og kaffihúsunum við Austurvöll, en flottheitin færu nú fljótt af ef lausnin fælist í að flytja bara allt stóðið á Austurvöll.

Við þurfum að hafa kjark til að koma með raunhæfar lausnir. Flutningur á milljónum fólks á milli menningarsvæða er EKKI lausnin.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/07/16 13:51 #

Í þvi tilefni dettur mér í hug að spyrja hvort einhvers konar könnun eða atkvæðagreiðsla hafi farið fram meðal félagsmanna um afstöðu þeirra til framferðis prestanna í Laugarneskirkju, eða er bara nóg að Óli Gneisti ákveði þetta fyrir hönd allra hinna.

Ef þú værir í Vantrú, þá vissir þú þetta. Óli Gneisti ákvað ekkert fyrir hönd annarra félagsmanna.

Í þessari grein er heldur ekki tekin einhver endanleg afstaða félagsins Vantrúar í málefnum flóttamanna og hælisumsækjenda, enda hefur félagið ekki stefnu í þeim málum. Tal um barnaskap á ekki við, málið sem hér er vísað til fjallað um það að íslensk stjórnvöld nýta sér ítrekað heimildir samkvæmt sáttmálum sem við erum aðilar að til að vísa fólki frá landi án þess að fjalla um mál þeirra. Því mótmæla margir.

Besta leiðin til að hafa áhrif á skrif sem þessi er einmitt að vera í félaginu og tjá sig um greinarnar áður en þær birtast - en meðlimir Vantrúar hafa einmitt tækifæri til þess. Nokkuð hefur verið rætt um þessi mál á spjallborði félagsins og á lokuðum Facebook hóp félagsmanna og ýmsar skoðanir komið fram.

Svo er fólki að sjálfsögðu frjálst að segja sig úr félaginu hvenær sem er af hvaða tilefni sem er.


Jóhann - 30/07/16 00:25 #

"Í þessari grein er heldur ekki tekin einhver endanleg afstaða félagsins Vantrúar í málefnum flóttamanna og hælisumsækjenda, enda hefur félagið ekki stefnu í þeim málum."

Útvarp Saga.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 31/07/16 09:37 #

Ekki vera fáviti.


Jóhann - 03/08/16 00:41 #

"Þegar Vantrú fór af stað þá var fljótlega tekin ákvörðun um að félagið myndi berjast almennt fyrir mannréttindum, ekki bara réttindum trúleysingja."

og...

"Í þessari grein er heldur ekki tekin einhver endanleg afstaða félagsins Vantrúar í málefnum flóttamanna og hælisumsækjenda, enda hefur félagið ekki stefnu í þeim málum."

og...

"Ég styrki veraldlegt hjálparstarf án þess að það komi þér nokkuð við. Það er ekki trúlaust hjálparstarf, heldur hjálparstarf óháð trúarbrögðum. Eins og hjálparstarf ætti að vera."

go figure....


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 03/08/16 09:41 #

þá er víst kominn sigurvegari í keppninni um tilgangslausustu athugasemd ársins...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/08/16 13:23 #

Tilvitnun tvö hjá þér, Jóhann, er ekki í nokkurri einustu mótsögn við tilvitnun eitt. Og tilvitnun þrjú kemur hinum tveimur nákvæmlega ekkert við. Til hvers á þá "go figure" að vísa?


Jóhann - 10/08/16 00:16 #

Hvaða vitleysa er þetta, Birgir!

Þýðir það að: "félagið myndi berjast almennt fyrir mannréttindum" nái ekki til flóttamanna, vegna þess að:"félagið (hefur) ekki stefnu í þeim málum."

en til vara að allir eigi að gera eins og Matti!?

...þvílík staðfesta, þvvílík prinsipp!


Hanna Lára - 13/08/16 03:21 #

Skil ekkert í þessum hártogunum. Skil ekki heldur hvers vegna Jóhann svaraði mér engu. Eins og ég vandaði mig!

Fremur fúlt, því ég hef verulega gaman af málefnalegum skoðanaskiptum við kurteist og skemmtilegt fólk.

Jæja, ég tek þá bara Spaugstofuna á þetta: Það gengur bara betur næst.

Góðar stundir.

.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/08/16 12:49 #

Jóhann hefur ekki gaman að málefnalegum skoðanaskiptum, hann er hér til að láta eins og asni og pönkast í okkur. Hann er klassískt dæmi um troll.

en til vara að allir eigi að gera eins og Matti!?

Þetta er dæmi um stæla sem hafa engan tilgang annan en að fá fólk til að rífast. Endum það hér, ég loka fyrir athugasemdir við þennan þráð og hendi sennilega bara öllu út sem Jóhann skrifar hér eftir - nema það sé í alvöru málefnalegt og hafi eitthvað með umræðuna að gera.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.