Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

1953: Sannleikurinn hans Jóhannesar Birkilands

Mynd af Birkiland

Prestar og trúboðar leggja allra manna mest áherzlu á sína eigin vellíðan, hugsa um ekkert annað en það, að þeim sjálfum vegni ágætlega í ÞESSUM HEIMI, að þeir sjálfir geti orðið eins langlífir og frekast er unnt. "Spírítistar" svonefndir, sem ljúga því vísvitandi eða óafvitandi, að þeir hafi sannanir fyrir því, að meðvitundin lifi eftir líkamsdauðann, eru næst prestunum og trúboðunum allra manna varfærnastir um heilsu sína, sækjast eftir auði og gjöfum hans: lífsþægindum og öryggi gegn áhyggjum af skorti, og vilja um fram allt ekki deyja fyrr en í fulla hnefana! [s. 7]

Textabrotið er eftir Jóhannes Birkiland og er tekið úr bókinni "Sannleikur" sem höfundur gaf sjálfur út árið 1953. Jóhannes þessi var efalaust talinn klikkhaus og sérvitringur, dóni og níðingur. En þrátt fyrir að vera álitinn af samtíðarmönnum sínum sem gagnslaus furðufugl þá er talið að frá árunum 1927-1953 hafi hann skrifað og gefið út minnst sex bækur og tugi smárita.

Hinn kristni átrúnaður er efldur af spilltustu öflum allra þeirra þjóða, þar sem hann er drottnandi. Hvergi er áróður fyrir þessum hræðilegasta, hryllilegasta og háskalegasta átrúnaði allra tíma rekinn af slíku og algeru blygðunarleysi og hjá íslenzku dvergþjóðinni, er setur met í alls konar öfgum og ótalmörgu öðru snarvitlausu, eins og kunnugt er Íslendingum sjálfum, en öðrum þjóðum og stærri lítt eða ekki, því að fréttaþjónustan til annarra þjóða og stærri er miðað við sjálfshólið, þar sem látið er skína í það, að allir Íslendingar séu mestu ágætismenn allra tíma, gallalausir og óviðjafnalega gáfaðir, enda ætla þeir að gleypa útlendinga, sem koma til Íslands, með húð og hári af feginleika og flærð, og það vantar þá ekki gestrisnina, þó að íslenzkum börnum sé úthýst í sjálfri Reykjavík og farizt af þeim sökum. Hin aldaprestriðna íslenzka þjóðkirkja hefur orðið enn prestriðnari og spilling hennar aukizt ógurlega, og er það ávöxtur þeirra langmestu blóðpeninga, sem ein þjóð hefir hlutfallslega öðlazt nokkru sinni! Ekki að furða, þótt ástandið sé illt og bölvað hjá íslenzku dvergþjóðinni. Hvergi er kirkjan eins hatrammlega svívirðuleg og á Ísland. [s.9-10]

Birkiland fékk vafasamt uppeldi og var á margan hátt frekar seinheppinn maður. Manískur í seinni tíð, óttalegur fylliraftur og með furðulega félagslega hæfni. Maðurinn var ekki aðeins reiður útí kirkjuna, hann lagði fæð á hana og kallar presta skíthæla og annað verra hvað eftir annað. Birkiland var mjög yfirlýsingaglaður í þessu merkisriti, en hann blandar þó oft öðru, og að mestu ótengdu rausi, inní skaðsemi trúboðs og trúarítroðslu.

Sannleikurinn er engu að síður athyglisverð heimild um trú og trúleysi á Íslandi um miðbik 20. aldar. Birkiland var undir miklum áhrifum frá Sigmund Freud, Robert G. Ingersoll, Halldóri Laxness, Þórbergi Þórðarssyni og dr. Níelsi Dungal sem áttu það allir sameiginlegt að vera frekar berorðir í sínum staðhæfingum er varðar trú og trúarbrögð. En Jóhannes skóf heldur ekkert utan af því:

Viðbjóðslegustu blóðsugur veraldarinnar eru prestarnir (og trúboðarnir). Þeir tilheyra þeirri einu stétt þar sem allir ljúga öllu frá rótum. Þeir eru samvizkulausir, hjartalausir ... verstir allra manna! Þessir sannkölluðu höggormar, þessir forsætisráðherrar lyga-almættisins spýta deyfieitri í fólkið, vita, hve fíflslega er hægt að fara með það og notfæra sér þess konar hlunnindi og forréttindi í þjóðfélaginu til hins ýtrasta. Þeir eru í broddi fylkingar með það að heimska alþýðuna, svo að hún er sinn eigin böðull og alþýðumenn böðlar hvor á öðrum, svíkja hvorn annan, ef þeir geta, ljúga hvor að öðrum og blekkja hvorn annan einsog þeim er frekast unnt. [...] [s. 29-30]

Ritstjórn 31.05.2016
Flokkað undir: ( Baksýnisspegillinn )

Viðbrögð


Guðjón Eyjólfsson - 31/05/16 18:26 #

Það eru tvær myndir- eru þetta tveir menn eða eru þetta tvær myndir af Jóhannesi?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 31/05/16 19:00 #

Þetta eru tvær myndir af Jóhannesi, sem sýna hann fyrir og eftir langa dvöl á Kleppspítala.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?