Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Það er mannréttindabrot að banna trúboð

Mynd af götutrúboði

Margir vilja halda því fram að Vantrú vilji banna trúboð. Það er ekki rétt. Vantrú setur sig ekki upp á móti viðurkenndum mannréttindum fólks. Meðal þeirra eru skoðana- og tjáningafrelsið, sem út af fyrir sig verja rétt fólks til að dreifa trúarskoðunum sínum, sem og öðrum skoðunum. Við þetta bætist svo auðvitað trúfrelsið. Mannréttindareglur tryggja sem sagt rétt fólks til að reyna að fá fólk við fylgis við trúarskoðanir sínar með trúboði. Ég hef ekkert sökótt við þessar mannréttindareglur. Þvert á móti tel ég þær nauðsynlegar. Í krafti þessara sömu reglna höfum við í Vantrú rétt á að koma okkar skoðunum á framfæri, og þar með veita mótvægi við trúboð.

Það sem Vantrú vill ekki að sé viðhaft er að stundað sé trúboð í opinberum skólum eða á öðrum vettvangi með sérstökum stuðningi ríkisins, eða á vegum þess. Við teljum að ríkið eigi að vera hlutlaust í trúmálum. Ríkið á hvorki að hampa trú- eða trúleysi (m.a. þess vegna erum við andvíg ákvæði stjórnarskrárinnar um að ríkið eigi sérstaklega að styðja Þjóðkirkjuna). Ríkið er stofnun sem er fyrir alla þegna þess, hvort sem þeir trúa eða trúa ekki. Taki ríkið afstöðu með tilteknum trúarbrögðum, og ef tilteknum trúarbröðgum er veittur sérstakur stuðningur, t.a.m. með sérstökum sess í skólum landsins, er þeim þegnum sem ekki aðhyllast þau trúarbrögð mismunað. Það sama á við ef ríkið tekur sérstaka afstöðu með trúleysi. Þá er þeim þegnum sem trúa mismunað.

Ég hvet alla sem vilja að börnin sín verði fyrir trúboði eindregið til að senda þau í kirkjur. Gídeonfélagið getur sent foreldrum barna bréf í pósti og boðið þeim Nýja testamenntið. Fólki er velkomið að fara í messur, bænahópa, moskur, sunnudagaskóla, kirkjukóra, reka kristilegar sjónarvarpsstöðvar og svo mætti lengi telja. Það er engin trúarstarfsemi sem ég vil banna. Vantrú er félag sem vill veita mótvægi við trúarstarfsemi, með rökstuddri gagnrýni, greinaskrifum og umræðum - ekki með því að banna hana.

Þó ég vilji ekki banna trúboð, eða aðra trúarstarfsemi, er ég ósáttur við að ríkiskirkjan hafi í skjóli framkvæmdavaldsins aðgang að skólum til að boða tiltekna trúarskoðun. Í því felst mismunum. Skólarnir eru á vegum sveitarfélaga - og sveitarfélög eru handhafar framkvæmdavalds í landinu (1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar). Ég tel það ekki eðlilegt hlutverk framkvæmdavaldsins að innprenta tilteknar trúarskoðanir í börn. Þá nýtur sú trúarskoðun forréttindastöðu.

Það er einnig rangt að Vantrú sé á móti kristinfræðikennslu í skólum. Kennsla um kristni er fullkomlega eðlileg. Vantrú hefur aldrei sett sig upp á móti henni, sé hún fræðsla um það hvað kristni er, og ekki snúið upp í trúboð.

Þrátt fyrir að Vantrú vilji ekki banna trúboð, og vilji ekki banna kristinfræðikennslu, er því stöðuglega og endalaust haldið fram. Stundum er því beinlínis haldið fram að við viljum banna allt sem kristið er. Þessu er ekki bara haldið fram um Vantrú, heldur t.a.m. um Siðmennt og Pírata. Það að banna allt sem kristið er væri mjög alvarlegt mannréttindabrot. Það er alls ekki og engan veginn það sem við viljum. Fólk sem gagnrýnir okkur fyrir málflutning sem við höfum ekki í raun uppi, og gerir okkur upp málflutning sem beinlínis stangast á við viðurkennd grundvallar mannréttindi, þarf virkilega að hugsa sinn gang. Það hefur komið fyrir að talsmenn ríkiskirkjunnar hafi haldið slíku fram. Ríkiskirkjan er studd dyggilega af almannafé. Það er ólíðandi að horfa upp á fólk nota skattekjur ríkisins til að afflytja málflutningi frjálsra félagasamtaka til að verja forréttindastöðu sína.

Sindri G. 03.05.2016
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Sigurður R. Sigurbjörnsson - 05/05/16 20:48 #

Í mínum augum er það mannréttindabrot að boða trú. Boða börnum, bláeygum og ósjálfbjarga, trú á eitthvað sem ekki gefur neitt nema falsvonir. Að fullorðnir hafi þau völd að geta mótað hugi barna sinna með trú sem þau geta og eiga mjög erfitt með að losa sig við nema verða fyrir einelti, ofsóknum, pyntingum og jafnvel lífláti eins og við þekkjum af dæmum úr trúsamfélögum múslima.

Tyrkir hafa sest að í stórum stíl hér á vesturlöndum og sett á fót moskur sem þeir kalla menningarmiðstöðvar. Stór hluti þessara safnaða er ríkisstyrktur úr sjóði trúmálaráðuneytis Tyrkja. Tyrkir þykjast vera "secular" ríki, en hvers vegna styrkja þeir trúboð í 52 löndum víðs vegar um heim án þess að Sindri geri athugasemdir við það og kalli það ekki mannréttindabrot?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/05/16 10:30 #

Vísa á svar mitt hér.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.