Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ranglátt og mislukkað trúboð

Mynd krökkum

Ég hef aldrei heyrt neinn amast við trúboði ef það fer fram á vettvangi trúfélagsins sjálfs sem stundar það. Ég hef t.d. aldrei heyrt neinn finna að því að prestur tali um það í messu að guð sé til, eða að börnum í sunnudagaskóla sé kennt það, þ.e. ef hægt er að draga þau frá teiknimyndunum í sjónvarpinu. En það er ekki nóg fyrir kirkjunnar menn að hafa sinn eigin vettvang á hundruðum staða um allt land til að geta stundað sitt trúboð óáreittir. Nei, þeim finnst þeir bara þurfa að fara inn í skóla og víðar til að komast í tæri við börn sem ekki mæta til þeirra í kirkjunar.

Ég játa að ég hef aldrei getað skilið almennilega hvers vegna kristniboðssinnar skilja ekki ranglætið sem felst í því. Skilja ekki sjónarmiðin um trúarlega hlutlausa skóla eða jafnræði trúar- og lífsskoðana í samræmi við trúfrelsi. Næstum eins skrítin er tilhneiging kristinfræðikennara (margra, að minnsta kosti) til að blanda sinni eigin trúarsannfæringu inn í kennslu um kristni, þótt þeir sömu séu kannski fullfærir um að fræða á eðlilega hátt um búddisma, hindúisma eða einhver önnur trúarbrögð.

Ég vinn á geðdeild. Þar er mér beinlínis bannað að halda fram mínum eigin skoðunum á trú eða stjórnmálum við sjúklingana. Nema hvað, það er enda siðlaust að misnota aðgang að fólki í viðkvæmri stöðu á annarlegan hátt. Það er dálítið líkt farið með börn í grunnskóla: kennari hefur aðgang að þeim, og meira að segja vald yfir þeim, sem er siðlaust að misnota til þess að boða sínar prívat skoðanir. Þetta á allt fullorðið fólk að skilja. Og það ætti þá líka að skilja að mönnum misbjóði ef þessi eðlilegu, faglegu skil eru ekki virt.

Það er á sinn hátt brjóstumkennanlegt, að þótt kristni hafi verið boðuð í grunnskólum Íslands í áratugi, þá eru landsmenn í fyrsta lagi áhugalitlir um trúmál, í öðru lagi illa að sér um þau og aðhyllast í þriðja lagi mjög fjölskrúðugar hugmyndir. Og þá er ég að tala um fólkið sem er ennþá í ríkiskirkjunni. Það mætir ekki í kirkju nema það sé skírn, ferming, brúðkaup eða jarðarför, eða kannski tónleikar – en ekki í messu. Það þekkir ekki játningar kirkjunnar, heldur að það verði sáluhólpið fyrir góð verk, veit ekki hvers vegna er haldið upp á hvítasunnudag eða heldur að jólatré séu kristið fyrirbæri. Innan við helmingur landsmanna segist vera bæði trúaður og kristinn. Og það fólk trúir margt hvert á afturgöngur, álfa, að langamma sé í himnaríki eða sé kannski engill – en trúir kannski ekki að Ésús hafi risið upp frá dauðum í alvörunni, en heldur samt að það sé kristið.

Þannig að trúboðið fer ekki bara fram í ranglæti – það er líka mislukkað. Mannréttindi barna eru brotin og það ber ekki einu sinni tilætlaðan árangur. Sumpart gæti það skrifast á að trúboðið sé blandað öðru skröki, eins og kristin trú snúist ekki um neitt annað en að guð sé bara góður, að kristniboð í Afríku sé það sama og hjálparstarf eða fæðing Ésú sé ástæða þess að við höldum jól. Þetta á fullorðið fólk að vita. Alla vega fullorðið fólk sem er með háskólapróf í kristinfræði.

Ég hef aldrei heyrt hugmyndir um að banna fræðslu um trúarbrögð í skólum – nema kannski frá talsmönnum trúboðs, þegar þeir gera trúfrelsissinnum upp skoðanir (rífast m.ö.o. við sjálfa sig). Skárra væri það nú. Þekking á trúarbrögðum hefur aldrei skaðað neinn. Og þekking á gagnrýni á trúarbrögð hefur reyndar heldur aldrei skaðað neinn, svo því sé til haga haldið.

Gallinn er bara þetta óeðli, að þurfa að troða trúboði inn í fræðslu sem á að vera fagleg og heiðarleg. Í skólum eiga börn að fræðast um trúarbrögð, það á ekki að innræta þeim þau, og það á ekki að segja þeim ósatt.

Reynið svo að skilja það.

Vésteinn Valgarðsson 07.04.2016
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Jón Valur Jensson - 21/05/16 00:20 #

Allur heimurinn er kirkja Guðs, Vésteinn Þú takmarkar ekki starfsvettvang hans og lærisveina hans með þínum orðum. Þeir fara að orðum Krists, ekki eftir þeim línum sem vantrúaðir leggja.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?