Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Upprisa Jesú er ótrúlega ótrúleg

Mynd B-2 sprengjuflugvél

Þegar við veltum því fyrir okkur hvort við ættum að trúa einhverri fullyrðingu eru tvö atriði sem við þurfum að skoða: “Hversu ótrúleg er fullyrðingin?” og “Hve góð eru sönnunargögnin fyrir fullyrðingunni?” Í rauninni hugsum við þegar svona, eins og sést á eftirfarandi dæmum.

Mismunandi fullyrðingar

Skoðum þessar þrjár fullyrðingar:

  1. Ég á kött
  2. Ég á B-2 sprengjuflugvél.
  3. Ég á tímavél.

Hversu ótrúlegar eru þær?

  1. Við vitum að margt fólk á ketti. Það er því ekkert ótrúlegt við það að ég myndi eiga kött.
  2. Við vitum að B-2 sprengjuflugvélar eru til. En þær eru mjög sjaldgæfar og einstaklingar eiga þær almennt ekki. Þetta er því frekar ótrúleg fullyrðing.
  3. Við höfum engin staðfest dæmi um tímavélar og það er meira að segja óvíst hvort það sé yfirhöfuð mögulegt að búa til tímavél. Þetta er því ótrúlega ótrúleg fullyrðing.

Stórkostlegar fullyrðingar, stórkostleg sönnunargögn

Hve góð sönnunargögn við þurfum til þess að trúa fullyrðingunum er í hlutfalli við það hversu ótrúlegar þær eru. Því ótrúlegri sem fullyrðingin er, því betri sönnunargögn þurfum við.

  1. Að eiga kött er svo algengt og venjulegt að vitnisburður minn myndi líklega duga. Eða þá bara mynd af mér með ketti á Facebook með textanum “Ég og kisan mín".
  2. Þú myndir væntanlega ekki trúa mér bara ef ég myndi segja þér að ég ætti B-2 sprengjuflugvél. Og mynd á Facebook af mér með B-2 sprengjuflugvél merkt “Ég og rellan mín" myndi væntanlega heldur ekki duga. En væntanlega myndirðu láta sannfærast ef þú fengir betri sönnunargögn. Til dæmis ef það væri fullyrt um það í helstu fréttamiðlum að ég hafi eignast B-2 sprengjuflugvél.
  3. Ef ég segði þér að ég ætti tímavél myndu orðin ein örugglega ekki duga. Mynd á Facebook væntanlega ekki heldur. Og líklega ekki heldur ef það væri fullyrt um það í fréttum. Þetta er svo ótrúleg fullyrðing að það þarf ótrúlega góð sönnunargögn fyrir henni.

Upprisa Jesú

Vonandi hafa dæmin sýnt að við því ótrúlegri sem fullyrðingin er, því betri þurfa sönnunargögnin að vera.

Hvort er þá fullyrðingin “Jesús reis upp frá dauðum" líkust “Ég á kött”, “Ég á B-2 sprengjuflugvél" eða “Ég á tímavél”? Mér finnst hún tvímælalaust falla í flokk með tímavélinni. Hún er ótrúlega ótrúleg. Þér finnst hún kannski líkari því að eiga B-2 sprengjuflugvél. Fullyrðingin er að minnsta kosti mjög ótrúleg.

Við þurfum því ótrúlega góð eða mjög góð sönnunargögn ef við ættum að trúa fullyrðingunni “Jesús reis upp frá dauðum.” Eru sönnunargögnin fyrir upprisu Jesú ótrúlega góð?

Við höfum fullyrðingar og helgisögur eftir þekkta og óþekkta höfunda í fornaldaritum sem við getum ekki einu sinni vitað hvort séu upprunaleg. Ég tel þetta vera á mörkum þess að vera sönnunargögn sem duga til þess að sannfæra mann um að ég eigi kött. Svona sönnunargögn myndu alveg örugglega aldrei sannfæra þig um að ég ætti B-2 sprengjuflugvél, hvað þá tímavél.

Upprisan stenst ekki almenna skynsemi

Þegar við skoðum fullyrðingu kristinna manna um upprisu Jesú á sama hátt og við skoðum fullyrðingar almennt (athugum hve ótrúlegar þær eru og hve góð sönnunargögnin eru) þá kemur í ljós að við ættum alls ekki að trúa þessari fullyrðingu þar sem að hún er ótrúlega ótrúlega og sönnunargögnin eru ótrúlega léleg.

Hjalti Rúnar Ómarsson 27.03.2016
Flokkað undir: ( Upprisan )

Viðbrögð


Benedikt Jón Sigmundsson - 27/03/16 18:49 #

Mér finnst þetta líklegasta útgáfan af þessari sögu....

http://www.idolol.com/pictures/26c56db641a2e71c63b83c45750ba025.jpg


loftur - 27/03/16 19:10 #

ég get fullvissað ykkur um upprisu jésú... ég hef hitt hann margoft


Þórður - 27/03/16 20:22 #

Hjalti Rúnar. Annað hvort áttu kött eða þú átt ekki kött. Það er ekki séns að þú eigir B2 sprengjuflugvél. Tímavélar eru ekki til, nema í skáldsögum. Það vita það allir. Og þetta með Jesús sem reis upp frá dauðum. Annað hvort trúir þú þessu eða ekki. Sem breytir því ekki að það skeði eittvað hjá trúaða fólkinu þarna á 1.öldinni. Eitthvað rosalegt og það er enn verið að spá og spökulera í því.


Jon - 31/03/16 00:25 #

Það er hægt að finna margt í 2000 til 3500 gömlu efni sem stenst ekki vísindalega þekkingu nútímans. Það er hægt að afsanna margt sem sagt er um guð. Hann er hins vegar sagður andi og enginn veit hvað andi er og því ómögulegt að segja hvort hann sé til eða ekki. Hann gæti verið þess vegna eðlisfræðilögmál sem sköpuðu heiminn - eða hvað. Hann getur verið eitthvað sem menn hafa ekki skilið enn en hefur eðlisfræðilegar skýringar. Meðan vísindin hafa ekki útskýrt allt þá er pláss fyrir guð. Amen.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 31/03/16 15:13 #

Það er ekki séns að þú eigir B2 sprengjuflugvél

Það eru til gamlar sprengjuflugvélar í einkaeigu og því er alveg örlítill séns á að Hjalti eigi slíka - en hann þyrfti að koma með nokkuð góð gögn til að sannfæra nokkurn um það.

Sem breytir því ekki að það skeði eittvað hjá trúaða fólkinu þarna á 1.öldinni. Eitthvað rosalegt og það er enn verið að spá og spökulera í því.

Er það? Gerðist þá eitthvað rosalegt hjá trúaða fólkinu í New York snemma á nítjánu öld þegar mormónatrú varð til? Gerðist eitthvað rosalegt hjá Ron H. Hubbard árið 1954 þegar Scientology var búin til?

Það að trúarbrögð hafi orðið til þýðir ekki endilega að eitthvað stórkostlegt hafi gerst enda hafa afskaplega mörg trúarbrögð orðið til í mannkynsögunni.

Meðan vísindin hafa ekki útskýrt allt þá er pláss fyrir guð.

Það er alveg pláss fyrir gvuði en það minnkar stöðugt og þessir gvuðir orðnir ósköp lítilfjörlegir miðað við glæsta fortíð! Eiginlega ekkert eftir nema gvuðir myndlíkinganna, þar sem gvuðirnir standa fyrir náttúruna og mannlegar tilfinningar.


Benni - 05/05/16 12:00 #

"Vísindamenn" eiga ekki í vandræðum með að trúa því að heimurinn hafi orðið til út frá sprengingu á engu! Og á einhvern tilviljana kenndan hãtt orðið að B2 sprengjuflugvél. Ég kaupi það alla vega ekki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/05/16 13:49 #

Það er vegna þess að þú ert of latur til að kynna þér það sem vísindamenn segja í raun um upphaf alheimsins. Væri ekki gott að byrja á því?


Benni - 10/05/16 01:01 #

Ég keypti það rugl áður en èg fór að hugsa sjálfstætt. Áður en èg áttaði mig á því að vísindamenn byggja sinn raunveruleika á kenningu getna af enn annarri kenningu af annarri kenningu. Þar sem upphaflega kenningin er röng, þá eru þær allar rangar. Þær eiga þó eitt sameiginlegt. Þær passa ótrúlega vel við það sem stendur í kabbala gyðinganna.


Sigurður Ólafsson - 29/06/16 13:06 #

Hvaða bull er þetta í þér Hjalti? Upprisa frelsarans er ekkert ótrúleg, slíkir atburðir gerast tiltölulega oft og eru stöðugt í fréttum, sjá t.d. þessa frétt. Er ekki nokkuð augljóst hvað gerðist í raun og veru þarna á Golgata hæðinni fyrir tæpum 2000 árum?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?