Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Baráttudagur kvenna - Maryam Namazie

Mynd af Namazie

Í tilefni nýliðins alþjóðlegs baráttudags kvenna er ekki úr vegi að fjalla um kvenhetju í baráttunni við skuggahliðar trúarbragða. Konan sem orðið hefur fyrir valinu er hin íranska Maryam Namazie, aðgerðasinni og mannréttindabaráttukona.

Maryam horfði upp á það í barnæsku, árið 1979 í írönsku byltingunni, að Íran varð klerkaveldi. Dag einn mætti trúarlögreglan í skólann hennar, skipti bekkjunum upp eftir kyni og skipaði stelpunum að ganga með hijab (höfuðklút). Árí síðar flutti fjölskylda hennar með hana úr landi.

Allar götur síðan hefur hún barist gegn kvennakúgun undir islam og núna í seinni tíð gegn því að við á Vesturlöndum séum í nafni trúarumburðarlyndis að sýna kúgandi hefðum skilning. Sem dæmi hefur hún beðið okkur að taka ekki þátt í samstöðuátaki um að sýna hijab sem eðlilegan klæðnað kvenna, því kúltúrinn eigi sér rætur í menningu sem gengur út á að aðskilja konur og karla í samfélaginu og gera konur ábyrgar fyrir hegðun karla, sem eru m.a. sagðir verða fyrir áhrifum af kynþokka kvenna og missa stjórn á sér ef þær eru ekki faldar á bakvið klæði.

Þessi áhersla islamismans á að hylja konur hefur orðið til þess að Maryam fór að mótmæla með því að koma fram nakin. Hún segir að nekt sé sterkasta vopnið gegn þeirri hugmynd að líkami hennar sé eitthvað sem hún eigi að fela og blygðast sín fyrir. Hún neitar að láta feðraveldið stjórna hverju hún klæðist og hvort hún megi koma nakin fram. Til að sýna það í verki að hún fallist ekki á fáránlegu reglurnar, brýtur hún þær.

Maryam er harður talsmaður veraldlegrar stjórnsýslu, sekúlarisma. Hún fullyrðir að aðeins þannig geti allir haft málfrelsi, skoðanafrelsi og iðkað trú sína í friði. Trúarleg stjórnvöld fari alltaf á endanum að traðka á réttindum fólks og því sé aðskilnaður ríkis og trúarbragða lykilatriði.

Hún hefur talað gegn notkun á hugtakinu islamófóbía, því viss ótti við öfgahægri islam sé hvorki rasismi né ástæðulaus ótti. Þvert á móti sé full ástæða til að óttast þann arm íslam sem vill verða stjórnmálaafl. Það sé öfgahægri íslam rétt eins og til er öfgahægristefna meðal kristinna.

Fordómar gegn múslímum eru engu að síður staðreynd og hún talar fyrir opnum landamærum og að sigra islamismann með fræðslu og samskiptum, en ekki með því að ráðast á neinn hátt gegn venjulegum múslímum, sem eru að sjálfsögðu ekki allir islamistar.

Maryam ferðast um og heldur fyrirlestra um islamisma, tekur þátt í mótmælum og styður konur sem mótmæla kúgun og stjórnsemi í nafni trúar.

Við fyrstu hlustun kemur Maryam stundum fyrir eins og hún fordæmi öll trúarbrögð. En við nánari athugun kemur í ljós að hún leggur einfaldlega ofuráherslu á mannréttindi einstaklinga, hvort sem þeir eru í einhverjum skilningi kristnir, múslímar eða annað. Hún vill ekki taka þátt í því með öfga-hægrinu að láta islamismann bitna á flóttafólki og innflytjendum en hún vil heldur ekki taka þátt í því með pro-islam vinstrinu að tala um að bera virðingu fyrir trú hópa og kalla gagnrýni á islam islamofóbíu. Hún segir mannréttindi einstaklinga vera það sem þurfi að setja fókusinn á, það sé svarið við yfirgangi trúarbragðanna.


Þeir sem hafa meiri áhuga á málflutningi Namazie geta horft á þennan fyrirlestur, lesið þessa ræðu eða fylgst með henni á Twitter eða Facebook.

Upprunaleg mynd fengin hjá Nano GoleSorkh og birt með cc-leyfi

Kristinn Theódórsson 11.03.2016
Flokkað undir: ( Samherjar )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 11/03/16 20:11 #

Flott kona. Hún er líka talsmaður samtaka fyrrverandi múslima. Ég hlustaði á hana flytja fyrirlestur í Odda fyrir nokkrum árum og ræddi heilmikið við hana á eftir. Öfugt við marga "málsmetandi" frv. múslima, er hún ekki verkfæri í höndum heimsvaldasinna eða rasista, heldur bara ærleg manneskja. Flott kona.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?