Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Íslendingar verða trúlausari með aldrinum

Mynd af

Trúarviðhorf Íslendinga hafa verið könnuð í þremur stórum könnunum árin 2004, 2011 og 2015. Þegar fjórum fjölmennum aldurshópum er fylgt eftir á þessu tímabili benda niðurstöður sterklega til þess að fullorðnum Íslendingum sem játa trú hafi farið nokkuð hratt fækkandi á þessu tímabili.

Hrapandi trúhneigð

Því er oft fleygt fram að „fólk verði trúaðra með aldrinum“ og er á þann hátt reynt að tengja saman trú og aukinn þroska. Þessari tilgáta er kolröng ef marka má svörin sem fengust. Reyndar benda niðurstöðurnar þvert á móti til þess að „fleiri Íslendingar verði trúlausir með aldrinum“.

Í öllum könnununum var svörum skipt niður eftir aldurshópum. Tilhneigingin er í þá átt að færri fullorðnir Íslendingar játar trú sem sést greinilega þegar svör fólks sem fætt er á árunum 1940 til 1990 eru borin saman á stöplariti. Sama mynstur sést hjá öllum aldurshópunum, trúuðum hefur fækkað mikið á tímabilinu 2004 til 2015 hjá öllum hópunum, jafnt yngri sem eldri. Svo heppilega vill til að viðhorf til trúmála hafa verið könnuð á um það bil fimm ára fresti og því eru aldurshóparnir nánast þeir sömu í öllum könnununum.

Mynd af stöplariti

Í öllum hópum fækkar þeim sem trúa á tímabilinu 2004 til 2011. Hrapið í fyrsta aldurshópnum vekur athygli en ber að hafa í huga að viðhorf þessa hóps voru fyrst könnuð 2004, skömmu eftir fermingarárið, en hlutfall þeirra sem trúa í hópnum fellur mjög hratt á næstu árum.

Hér að neðan eru niðurstöðurnar settar upp í töflu. Nákvæma samantekt á gögnunum er að finna í skjali neðst í greininni.

Árgangur Trúhneigð 2004 Trúhneigð 2011 Trúhneigð 2015
1981-90 66% 45% 48%
1971-80 73% 67% 54%
1961-70 85% 72% 71%
1940-60 84% 84% 79%


Í öllum þremur könnunum var fólk spurt að því hvort það væri trúað eða ekki. Spurningarnar 2004 og 2015 voru nánast samhljóða „Telur þú þig vera trúaða(n) eða ekki?“ (2004) og „Telur þú þig trúaða(n) eða ekki?“ (2015). Í könnuninni 2011 var spurt um sama atriði en stuðst við orðalagið „Trúir þú á Guð eða önnur æðri máttarvöld?“. Markmiðið með spurningunum er einfaldlega að athuga hvort fólk upplifi sig sem trúað eða ekki og svarendur þurfa ekki að skilgreina trúna á nokkurn hátt. Stærð úrtaka og svarhlutfall í öllum könnununum voru sambærileg við kannanir sem birtar eru reglulega í fjölmiðlum um fylgi stjórnmálaflokka.

Upplýsingar + fræðsla = minni trú

Vantrú hefur fjallað bæði um trúarlífskönnunina sem Gallup framkvæmdi 2004 fyrir Biskupsstofu og Guðfræðideild HÍ og trúarlífskönnunina haustið 2015 sem rannsóknafyrirtækið Maskína framkvæmdi fyrir Siðmennt. Svörin frá 2011 koma hins vegar úr Þjóðarpúlsi Gallup frá júní 2011. Sá þáttur Þjóðarpúlsins í júní 2011 sem snéri að trú landsmanna fékk talsverða umfjöllun í fjölmiðlum á sínum tíma en niðurstöðurnar úr könnunum 2004 og 2011 voru einnig bornar saman á vefsíðu Siðmenntar.

Það er gott að hafa þessar niðurstöður í huga næst þegar fullyrt er að fólk verði trúaðra eftir því sem það eldist og þroskist. Út frá þessum niðurstöðum er ljóst að fólk hefur ekki orðið trúaðra með aldri heldur þveröfugt, síðasta áratuginn hefur fólk orðið trúlausara þegar aldurinn færist yfir. Trúhneigð er almennt að minnka í þjóðfélaginu.


Ítarefni:

Ritstjórn 07.03.2016
Flokkað undir: ( Efahyggja , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/03/16 16:46 #

Það er önnur langsótt skýring á þessu. Kannski drepast trúaðir bara fyrr en trúlausir!

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?