Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þar hitti seiðskrattinn ömmu sína

Mynd af viðkomandi skottulækni

Getur þú nefnt alvarleg veikindi sem þú hefur læknað?
Ég hef bjargað fólki frá krabba og öðrum úr dái og mörgum öðrum.
(brot úr viðtali við Durek Verrett)

Þriðjudagskvöldið 9. febrúar fór fram umræða um andleg málefni og efahyggju á Kex Hostel. Skipuleggjendur kvöldsins voru Tveir heimar og Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður stjórnaði umræðum. Tilefni fundarins var gagnrýni Vantrúar á loddarann Durek Verrett sem Tveir heimar fluttu inn. Lífefnafræðingurinn Brynjar Örn Ellertsson var fulltrúi Vantrúar.

Aðeins um seiðskrattann

Durek Verrett kallar sig “shaman” sem á íslensku útleggst sem “töfralæknir” eða “seiðskratti”. Verrett var óhress með gagnrýni Vantrúar því hann telur sig vera alvöru töfralækni en ekki loddara. Á facebook-síðu sem Tveir heimar rekur segir að Durek Verrett “tengir sig við anda þína til að hann geti losað um kvilla, má þar nefna fíkn, þunglyndi, kvíða og einnig líkamlega sjúkdóma og meiðsli.”

Í auglýsingu á forsíðu Tveggja heima kemur eftirfarandi fram:

Shaman Durek starfar með skjólstæðingum af öllum stéttum, þ.á.m. kvikmyndastjörnum frá Hollywood. Þá eru á meðal skjólstæðinga hans tónlistarmenn, forstjórar stórfyrirtækja og kóngafólk í Evrópu. Shaman Durek er einnig eftirsóttur fyrirlesari og kennari. Hann er höfundur á föstum dálki um andlegar hliðar lífsins í The Huffington Post, með reglulegt myndbandsblogg í Frontiers Magazine

Durek Verrett hefur ekkert skrifað fyrir Huffington Post síðan í janúar 2014, og engin myndbönd hafa birst eftir hann á Frontiers Magazine síðan 2013. Hann er því ekki með fasta dálka né regluleg vídeóblogg og fátt bendir til að hann sé eftirsóttur fyrirlesari.

Það er algengt að nýaldarsinnar sem dásama gúrúa á borð við Durek Verrett telji upp fullt af “frægu” og “mikilvægu” fólki, án þess að nefna nein nöfn, sem loddarinn á að hafa aðstoðað. Tilgangurinn er að teikna glansmynd sem stenst ekki skoðun þegar betur er að gáð. Þessar upplýsingar koma nánast alltaf beint frá loddaranum sjálfum og yfirleitt er ekki hægt að staðfesta þær. Jafnvel þó Durek Verrett eigi ljósmyndir af sér með fyrrverandi forseta Íslands eða jafnvel forseta Bandaríkjanna, er það engin sönnun fyrir þeim hæfileikum sem hann þykist búa yfir.

Amma Verrets var hans helsti lærimeistari. Eini vandinn er að hún var látinn þegar hann fæddist. Það þarf varla að minnast á það að fólk sem er dáið getur ekki haft samband við eða talað við lifandi fólk, það er einfaldlega útilokað samkvæmt allri þeirri þekkingu sem mannkynið hefur aflað sér.

Hann segist einnig hafa fengið þjálfun hjá Súsönnu von Radic, Króatíuprinsessu. Hún er ekki prinsessa Króatíu heldur loddari sem segist vera prinsessa. Þannig að Durek fékk þjálfun frá draug og þekktum loddara. Hljómar sannfærandi!

Hvað gerði Durek áður en hann ákvað að gerast seiðskratti og svikahrappur? Hann var leikari og módel. Líklegast er að sá ferill hafi farið í vaskinn og í dag sé eina hlutverk hans að sannfæra fólk um að hann geti ákallað og talað við andaverur.

Ótrúlegar staðhæfingar, engar sannanir

Engin sönnunargögn eru fyrir því að nokkur hafi náð sambandi við handanheima, andaverur, himnaríki eða helvíti. Það eina sem við höfum eru frásagnir sem eru nær ávallt óáreiðanlegar vegna þess að minnið er brigðult og manneskjan breysk. Fjöldi þessara sagna sannar ekki neitt, sama hversu yfirgengilegur og yfirlætisfullur sögumaðurinn verður.

Þeir sem telja að andaverur og handanheimar séu til halda því sumir fram að það sé uppá hina komið, þá sem efast um tilvist yfirnáttúru og annarra hindurvitna, að afsanna þessar yfirnáttárulegu hugmyndir. Þetta er algjör misskilningur, það er ekki hægt að afsanna allt sem er ekki til. Þeir sem halda því fram að fyrrnefnd ótrúlegheit séu til þurfa að færa rök fyrir máli sínu, leggja fram haldbærar og mælanlegar sannanir. Sannanir sem fara ekki í manngreinaálit er það eina sem þarf.

Durek Verrett - eða hver sem talaði fyrir hans hönd - hélt því fram að hann væri alvöru, ekta og virtur töfralæknir sem gæti galdrað. Að hann væri það þekktur og hæfileikar hans svo óumdeilanlegir, að jafnvel innan lækna- og vísindasamfélagsins sé að finna fólk sem leitar til hans vegna einhverja kvilla og sjúkdóma. Þetta er auðvitað algjör þvæla.

Að gera sér upp sárindi

Í áðurnefndum umræðum reyndi Durek Verrett að beina umræðunni að því að Vantrú kallaði hann “svikahrapp og skíthæl”. Hann taldi þetta sérstaklega vítavert þar sem við þekktum ekki neitt til hans eða verka hans. Það er eflaust hægt að kalla mann sem rukkar fársjúka krabbameinssjúklinga og fólk með hvítblæði töluverðar upphæðir með loforðum að hann gæti læknað þá, án þess að gera það, einhverjum öðrum nöfnum, svo sem kuklara, svindlara, loddara og lygara. Jafnvel glæpamann.

En hann hefur rangt fyrir sér þegar hann segir að við þekkjum ekkert til hans því við þekkjum loddara mætavel. Þeir fylgja nánast allir afar svipaðri formúlu:

  • Þeir eru “alvöru” meðan hinir sjálftitluðu töfralæknarnir eru “svikahrappar”.
  • Þú verður að vera opin fyrir aðferðunum sem loddarinn beitir. Ef þú ert gagnrýninn eða efast á einhver hátt um aðferðir töfralæknisins er lítil sem engin von um bata.

Durek hélt því fram að starf hans snérist ekki um peninga heldur væri hann bara svo góður maður. Hann ætti litlar sem engar eignir og ferðaðist á milli landa og aðstoðaði fólk að losa sig við alvarlega sjúkdóma með einhverjum dularfullum aðferðum.

Engu að síður er hægt að finna myndband á Youtube-síðu hans þar sem hann kallar sig Urban Shaman. Þar stærir hann sig af flottum BMW-jeppa, Louis Vuitton hundatösku og einbýlishúsi með sundlaug. Allt þetta kostar gríðarlega peninga, peninga sem hann er að fá frá veiku fólki um allan heim með því að ljúga að því. Nema hann eigi ekkert af þessu sjálfur og sé bara að þykjast vera ríkur, eins og hann þykist vera seiðkarl. Munum að hann er leikari.

Einnig hélt hann því fram á fundinum að hann auglýsti sig aldrei heldur væri það góða orðsporið sem af honum færi sem kæmi honum áfram. Auðvitað er það ekki satt þar sem hann er með tvær aðdáenda-síður á Facebook: Shaman á Íslandi og Shaman Durek, einnig er hann með sína eigin vefsíðu, auk þess má finna viðtöl við hann á vefsíðu Tveggja heima. Hvað er þetta annað en auglýsingar? Hellingur af faglega teknum ljósmyndum og unnum myndböndum er ekkert annað auglýsingar, sérstaklega þegar þessi loddari er svo auglýstur á heimasíðu Tveggja heima auk auglýsingar í Kvennablaðinu.

Spjallað við svikahrapp og skíthæl á netinu

Mynd af loddara

Okkur gafst tækifæri að ræða beint við Durek Verrett á Facebook-síðu Vantrúar. Seiðkarlinn setti inn athugasemd þar sem hann skoraði á okkur í umræðu á Kex Hostel. Einn af stjórnendum Vantrúar-síðunnar spurði nokkurra spurninga og samtalið var að mörgu leyti áhugavert. Til að mynda sagði hann að hann gæti hjálpað fólki með hvítblæði, en ekki fólki með 4. stigs krabbamein, því þá væri það búið að missa vonina að ná nokkrum bata.

Mynd af loddara

Aldrei svaraði hann hvernig hann aðstoðar krabbameinsjúkt fólk eða fólk með hvítblæði við að ná bata nema með einhverju óljósu rugli. Að hann noti “aðferðir seiðskrattans” til að “fara inní fólk” og gera “heildræna greiningu” sem á að “aðstoða við að hreinsa eitrið úr líkamanum”. Þetta segir nákvæmlega ekki neitt en sýnir okkur þó að hann þykist geta læknað krabbamein.

Mynd af loddara

Hann viðurkenndi að það er illa gert að misnota traust og von fólks með því að ljúga að því en telur ekki að hann sé að gera slíkt.

Mynd af loddara

Auk athugasemda hans komu fjórar eða fimm athugasemdir frá fólki sem sagðist hafa notið góðs af þjónustu seiðskrattans. Einsog gengur og gerist með fólk sem getur ekki staðið við orð sín þá tók hann út þessa athugasemd af facebook-síðu Vantrúar og þar með hvarf lífleg umræða og fljótlega hurfu athugasemdir fylgjenda hans einnig, ásamt umræðum við þær.

Við náðum að taka skjáskot af hluta umræðunnar: mynd 1 | mynd 2

Rætt við loddarann á Kex Hostel

Umræðan á Kex Hostel fór þannig fram að Sölvi Tryggvason stjórnaði, kom með spurningar og ræddi við báða aðila í rúmlega 30-40 mínútur. Eftir það voru spurningar úr sal.

Durek byrjaði á að tala um þau orð sem Vantrú hafði um hann og í kjölfarið fékk Brynjar að svara. Loddarinn var mun rólegri en í viðtalinu hjá Harmageddon vikunni áður og passaði sig á að fara ekkert út í spjall um vísindi, líklega vegna þess að viðmælandi hans var vísindamenntaður.

Þrátt fyrir að Durek talaði alltof lengi í hvert skipti sem hann fékk orðið kom ekki mikið fram. Þetta voru meira og minna langar dæmisögur um hvernig hann hefði hjálpað fólki. Eitt átti þetta fólk sameiginlegt, þau höfðu nánast alltaf farið til 6-7 lækna áður en þau leituðu til Dureks.

Þegar hann fékk spurningar úr sal svaraði hann þeim ekki heldur talaði í kringum þær og kom með fleiri dæmisögur og vitnisburði. Reiddist þegar minnst var á að hann hefði ekki svarað spurningu þrátt fyrir að hafa malað í góðar sex mínútur.

Durek fjallaði ekkert um þær aðferðir hann notar til að lækna eða hjálpa fársjúku fólki. Útfrá myndbandi eftir hann virðist aðferðin felast í að seiðkarlinn ákallar og talar við anda sem berjast við eða reka út illa anda sem eiga að vera orsök sjúkdómanna!

Í spurningu úr sal spurði ungur maður hvað hann ætti að gera við þrálátum bakverk. Durek fór strax að tala við anda og segja spyrjandanum alls konar vitleysu sem hann ætti að gera til að laga bakið. Eftir kvöldið kom ungi maðurinn að Brynjari og sagði að það væri ekkert að bakinu á honum, hann hefði bara verið að athuga hæfileika Dureks. Af hverju sögðu andarnir Durek það ekki strax? Kannski af því að hann er loddari.

Annað dæmi um óheiðarleika Dureks var þegar starfsmaður Tveggja heima, Skúli Pálsson, kom með augljóslega fyrirfram ákveðna spurningu. Hægt er að hlusta á spurninguna á 57:45 mínútu. (upptaka hefur verið fjarlægt af youtube, en hægt er að finna þetta á upptökunni á Vísi)

Eitt að lokum varðandi loddarann

Það var ekki að ástæðulausu sem við kölluðum þennan loddara svikahrapp, enda kom það berlega í ljós, bæði í útvarpsviðtalinu á Harmageddon og í áðurnefndri umræðu, að það eina sem hann gerir er að tala við ímyndaðar andaverur til að “lækna” krabbamein, hvítblæði og aðra kvilla og sjúkdóma. Þetta gerir auðvitað nákvæmlega ekkert gagn en gerir fólk 30-60 þúsund krónum fátækara.

Vantrú ítrekar við fólk að láta ekki plata sig af þeim sem segjast geta galdrað eða framkvæmt önnur kraftaverk. Við mælum með að þeir sem fóru til hans hérna á Íslandi hafi samband við Tvo heima og krefjist endurgreiðslu.

Við stöndum við orð okkar um að seiðskrattinn Durek Verrett sé svikahrappur og skíthæll.

Ritstjórn 18.02.2016
Flokkað undir: ( Efahyggja , Kjaftæðisvaktin , Nýöld )

Viðbrögð


Dassi - 22/02/16 02:46 #

leleg grein, ég er ekki að taka upp hanskan fyrir þennan mann sem þykist vera heilari og rukkar 49000 fyrir tíman... en þessi grein er á virkilega lágu plani. ég velti því fyrir mér hvort höfundur þessarar greinar sé enn mömmubarn á brjósti


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/02/16 10:45 #

Hvað hefur þú eiginlega á móti mömmubörnum sem eru á brjósti?


dassi - 22/02/16 18:56 #

hvað fær þig til að halda að ég sé á móti mömmubörnum sem eru á brjósti?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/02/16 19:02 #

Áttirðu von á alvöru viðbrögðum við athugasemd þinni? Af hverju - fannst þér hún á háu plani, innihaldsrík og málefnaleg?

Það er alveg sjálfsagt að gagnrýna þessa grein en það er ekkert á athugasemd þinni að græða.

Svo ég svari seinni spurningu þinni "alvarlega" (þó það sé auðvitað glórulaust). Ég dreg þá ályktun að þú hafir eitthvað á móti brjótsmylkingum vegna þess að þú veltir því fyrir þér hvort höfundur greinarinnar sé brjóstmylkingur í kjölfar þess að þú segir að greinin sé á virkilega lágu plani.


dassi - 22/02/16 23:32 #

mér finnst hún málefnaleg að því leitinu til að gaurinn er halda því fram að hann geri hluti sem augljóslega myndu setja hann í guðatölu ef sannir væru... mer finnst greinin samt full af hatri í garð þessarar einstaklings i staðinn fyrir málefnalega gagnryni. er ég að meina þá orðalag.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/02/16 10:37 #

mer finnst greinin samt full af hatri í garð þessarar einstaklings

Það hatar enginn hér þennan einstakling.

i staðinn fyrir málefnalega gagnryni. er ég að meina þá orðalag.

Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála, það er málefnaleg gagnrýni í greininni þó orðalagið sé hispurslaust.


dassi - 24/02/16 13:11 #

ok matti =) þu veist allt best og hefur altaf rétt fyrir þér og ert ósnertanlegur =)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/16 13:23 #

Þetta var t.d. mjög ómálefnaleg athugasemd hjá þér þrátt fyrir að ekkert væri að orðfærinu í sjálfu sér. Skítkast getur verið kurteisislega orðað og málefnaleg gagnrýni getur alveg verið hispurslaus.


dassi - 24/02/16 20:36 #

svo sannarlega matti =) your the MAN


G2 (meðlimur í Vantrú) - 24/02/16 21:08 #

you're

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?