Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Einhenta mannætan: Láttu ekki spila með þig

Mynd af spilakössum

Spilafíkn er vandamál sem veldur fjölda manns ómældu tjóni á hverju ári. Sumir segja að spilafíkn sé sterkasta fíknin. Það er til fólk sem eyðir aleigunni í spilakassa þótt það sé líka háð vímuefnum. Víða um heim starfa samtökin GA: Gamblers Anonymous. Þau starfa eftir erfðavenjum og 12-spora módeli eins og AA-samtökin og fleiri skyld samtök. Hugmyndin að þessari grein kviknaði við lestur á bæklingi frá GA. Þessi grein er samt ekki um GA heldur um nokkrar blekkingar eða hugsunarvillur sem stuðla að því að ánetja fólk fjárhættuspilum, atriði sem mér finnst gagnleg viðbót við umræðuna. Ég vil taka fram að hver sem er má nota hvað sem er út þessari grein hvar sem er, svo fremi að það sé ekki gert í gróðaskyni.

Rökvilla fjárhættuspilarans

Þessi rökvilla gengur út á að ef eitthvað gerist óvenjulega oft, þá muni það halda áfram að gerast óvenjulega oft. Dæmi: Ef þú kastar teningi nokkrum sinnum og færð 6 fjórum sinnum í röð, hverjar eru þá líkurnar á að þú fáir líka 6 í fimmta skiptið? Rétt svar: Líkurnar eru einn á móti sex. Teningskast ræðst af slembidreifingu, sem er óregluleg. Þess vegna koma fyrir "klasar" tilviljana. En það eru samt tilviljanir, og því stærri sem klasarnir eru, þess sjaldnar koma þeir. Þess vegna fær maður miklu sjaldnar 6 fimm sinnum í röð heldur en fjórum sinnum í röð. Sex sinnum sjaldnar, nánar tiltekið.

Spilavíti er svikamylla

Það er til fólk sem fer í spilavíti og kemur ríkt út. Maður sér það stundum í sjónvarpinu en það er líka til í alvörunni. En það er mjög sjaldgæft. Viðskiptamódel spilavítisins er hannað þannig að spilavítið græði alltaf á heildina litið -- og spilararnir tapi alltaf á heildina litið. Tapið er innbyggt. Einn og einn vinnur -- það er innbyggt í viðskiptamódelið til þess að halda hinum gröðum, og þess vegna heyrum við oft um fólk sem vinnur en sjaldan um fólk sem tapar. Ef vinningur fyrir spilara væri líklegur, í einhverjum skilningi þess orðs, þá væru ekki til spilavíti.

Hæfileikar

Einu spilin þar sem hæfileikar koma við sögu eru þar sem maður spilar við mennska andstæðinga. Það er hægt að vera góður í að spila póker við mennskan andstæðing, góður í að blöffa eða sjá í gegn um blöff, en það er ekkert til sem heitir að vera "góður í spilakassa". Það eru til spilarar sem segjast lesa einhverjar "línur" eða "munstur" úr kassanum. Það eru ranghugmyndir og eiga meira skylt við geðrof heldur en spádómsgáfu. Ef þú hefðir í alvörunni ofurskilning á virkni kassans, þá mundirðu vinna á hverjum degi. Þú veist ekki hvað spilakassinn gerir næst og þú þarft að skilja að þú veist það ekki. Punktur.

Það er reyndar til kerfi sem virkar

Langafi minn reiknaði það einu sinni út, að þar sem hann hlyti að vinna fyrr eða síðar, þá þyrfti hann bara að dobbla í hverri umferð, og rúmlega það, og þegar hann loksins ynni mundi hann vinna til baka tvöfalt það sem hann væri þá búinn að tapa. Hann fór í frægt spilavíti erlendis, þar sem hann fór í rúllettuna og ætlaði að sprengja bankann. Þegar hann var búinn að dobbla nokkrum sinnum, þá átti hann ekki meiri pening. Bankinn sprengdi hann. Kerfið virkar í sjálfu sér, stærðfræðilega séð, en til að geta notað það þarf maður að eiga milljónir og vera tilbúinn til að tapa þeim.


Upprunaleg mynd frá Yamaguchi先生 og birt með cc-leyfi

Vésteinn Valgarðsson 05.02.2016
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?