Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúin ein

Mynd af innsigli Lúthers

Ég gekk yfir Skólavörðuholtið um daginn og spjallaði á meðan við konu sem sagðist vera kristin -- þjóðkirkjukristin -- og hún nefndi meðal annars að hún tryði því að við kæmumst til himnaríkis vegna góðra verka. Þess vegna reyndi hún að láta gott af sér leiða. Án þess að ég ætlaði neitt að draga úr vilja hennar til að láta gott af sér leiða, varð ég samt að benda henni á að Ágsborgarjátningin, guðfræðileg skilmerki lúthersku kirkjunnar, tæki reyndar fram að fólk yrði ekki hólpið fyrir góð verk heldur aðeins fyrir rétta trú, samkvæmt skilgreiningu þeirra sjálfra. Sú umræða leiddi að vísu ekki lengra þar og þá, en sola fide er kenning sem rétt er að gera skil, enda margir skráðir í ríkiskirkjuna sem hafa ekki hugmynd um hvað hún er.

Sola fide er ein helgisetningin sem í grófum dráttum greinir mótmælendakirkjur frá kaþólskum kirkjum. Samkvæmt henni réttlætast trúaðir af trúnni en ekki af verkunum. Með öðrum orðum: Ef amma þín var alltaf góð við alla, en trúði ekki að Ésús hefði risið upp frá dauðum í alvörunni, þá fer hún til helvítis. Ég er ekki að spinna þetta upp, þetta er kenning kirkjunnar. Mannkynið er fallið í synd og fyrirfram fordæmt og ekkert getur bjargað því frá reiði guðs nema trúin. Ekkert nema trúin. Ekkert. Réttlætingin kemur ofan frá en fólk ávinnur sér hana hvorki með hlýðni né öðlast það hana í gegn um fórnardauða Ésú -- nema það trúi. Bara þannig.

Meikar þetta sens? Skiptir þetta máli? Er þetta það sem íslenska ríkiskirkjan kennir? Ég skal ekki segja hvort hún kennir það -- það læðist að manni grunur um að fáir aðrir en innvígðir kannist við þetta, og ef sá grunur reynist réttur er hún varla dugleg við að kenna það -- en ungur maður spurði reyndar, vorið 2005, hvað væri nauðsynlegt til himnaríkisvistar. Karl Sigurbjörnsson svaraði á vefnum Trú.is:

Þjóðkirkjan kennir með Páli postula að við réttlætumst af trú en ekki verkum. Það er trúi á Krist sem gildir. Og Jesús vísar til barnanna: Nema þér verðið eins og börnin komist þér alls ekki inn í Guðs ríki.

Þar hafið þið það. Ef þið efist enn, þá eru hér ritningarstaðir sem styðja mál Karls:

Hvers vegna? Af því að þeir ætluðu sér að réttlætast með verkum, ekki af trú. Þeir hnutu um ásteytingarsteininn, (Rómverjabréfið 9:32)

En vér vitum, að maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum, heldur fyrir trú á Jesú Krist. Og vér tókum trú á Krist Jesú, til þess að vér réttlættumst af trú á Krist, en ekki af lögmálsverkum. Enda réttlætist enginn lifandi maður af lögmálsverkum. (Galatabréfið 2:16)

En nú segir einhver: Einn hefur trú, annar verk. Sýn mér þá trú þína án verkanna, og ég skal sýna þér trúna af verkum mínum. (Jakobsbréfið 2:18)

Sýndu mér trúna af verkunum -- þessi síðustu orð segja mikið. Því að Lúther og fleiri kenndu að ef fólk aðhylltist rétta trú, þá væri rétt breytni vissulega rökrétt afleiðing af henni. Samt væri það trúin en ekki breytnin sem gerði fólk hólpið. Þá þarf ekki annað en að lesa til dæmis boðorðin tíu og bera þau saman við breytni -- tja, það gæti verið breytni íslenskra presta eða kannski ömmu gömlu -- og sjá hvort fólk fer til helvítis. Leggur fólk nafn guðs við hégóma? Drýgir fólk hór? Girnist fólk asna náunga síns? Til helvítis með það! -- gæti kirkjan sagt ef hún væri samkvæm sjálfri sér.

En hún gerir það ekki. Því í hvert skipti sem hún missir eitthvað umdeilanlegt út úr sér, nennir einhver þessu ekki lengur og skráir sig úr henni og hún verður af sóknargjöldum viðkomandi um aldur og ævi. Það er kannski þess vegna sem vinkona mín trúir því að góðu verkin hennar séu nóg til að verða sáluhólpin.


Upprunaleg mynd eftir Daniel Csörföly og birt með cc-leyfi.

Vésteinn Valgarðsson 25.01.2016
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Elín Sigurðardóttir - 25/01/16 09:26 #

Verður trúin ekki að bera ávöxt? Hvað hefir þú gjört? spurði Drottinn.


Hörður Þormar - 25/01/16 16:11 #

https://www.youtube.com/watch?v=Wh0M0EG2jKY


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/01/16 16:52 #

Hörður, hvernig tengist þetta myndband greininni?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?