Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Frekja biskups gagnvart forsetanum

Mynd af fána forsetans

Stuttu eftir síðustu forsetakosningar sagði þá nýkjörinn biskup ríkiskirkjunnar, Agnes Sigurðardóttir, að henni þætti óeðlilegt ef forsetinn væri “utankirkjumaður eða -kona". Hún er enn sömu skoðunar. Hversu óeðileg þessi skoðun er í upplýstu samfélagi sést glögglega með sambærilegum dæmum og sýnir auk þess að tal Agnesar um að ríki og kirkja hafi þegar verið aðskilin er þvæla.

Forseti ríkis, kirkju og guðs

Rökstuðningur biskups er á þá leið að ríkið eigi samkvæmt stjórnarskránni að “vernda og styðja” ríkiskirkjuna og því er forsetinn “verndari” ríkiskirkjunnar. Nýleg ummæli Agnesar um að ríki og kirkja séu þegar aðskilin eru því klárlega kolröng. Ef stjórnarskráin felur í sér að það sé “óeðlilegt" að forseti Íslands sé utankirkjumaður þá hafa ríki og kirkja augljóslega ekki verið aðskilin.

Almenningi þætti það ekki eðlilegt ef núverandi forsætisráðherra mundi telja það vera frumforsenda hvers forseta að vera meðlimur í Framsóknarflokknum, enda væri litið á forsetann sem verndara Framsóknarflokksins. Viðbrögðin yrðu ívið verri ef einhver háttsettur valdsmaður mundi segja að forsetinn þyrfti ekki aðeins að vera 35 ára gamall og kristinn, heldur hvítur líka.

„Forseti Íslands hefur alltaf verið hvítur og mér finnst mikilvæg að hann verði áfram hvítur. Íslendingar eru upp til hópa hvítir.” er málflutningur sem er afar líklegt til óvinsælda. Svo yrði hlegið að þeim sem mundi bæta um betur og segja að forsetinn megi, ofaná allt hitt, aðeins vera gagnkynhneigður og karlkyns.

Forsetinn er ekki eini hátt setti starfsmaður ríkisins sem þarf að vasast í kirkjumálum. Innanríkisráðherra sér um kirkjumál innan ríkisstjórnarinnar og Alþingismenn setja lög um kirkjuna. Það væri væntanlega “óeðlilegt” í huga Agnesar að þessir ríkisstarfsmenn væri utankirkjufólk líka.

Verndara-rökin

Tal hennar um að litið sé á forsetann sem “verndara" ríkiskirkjunnar er vafasamt. Á heimasíðu embættisins má finna lista yfir þau samtök sem forsetinn telur sig vernda. Ríkiskirkjan er ekki á þeim lista.

Jafnvel þó ríkiskirkjan væri á þessum lista þá er varla gerð sú krafa um það að forsetinn sé meðlimur í öllum þessum samtökum. Það væri ekkert óeðlilegt ef næsti forseti væri ekki skráður meðlimur í Bandalagi íslenskra skáta eða Kvenfélagssambandi Íslands.

Þarf að laga stjórnarskrána

Ef eitthvað annað félag en ríkiskirkjan myndi koma með svona fáránlega kröfu yrði viðkomandi félag flokkað sem öfgafélag.

Þessi ótrúlegi málflutningur Agnesar bendir líka á nauðsyn þess að afnema ríkiskirkjuákvæðið í stjórnarskránni, því það gefur svona rugl-málflutningi aukið vægi.

Ritstjórn 10.01.2016
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Viktor Kristinn Atlason - 10/01/16 14:32 #

Kirkjan á ekkert erindi í stjórnarskránna!


Svanur Sigurbjörnsson - 15/01/16 16:06 #

Takk fyrir góða grein. Ég skrifaði einnig um þetta mál og fékk birta greinina í Kjarnanum: http://kjarninn.is/skodun/2016-01-11-er-island-truraedisriki/

Þessi orð biskups kristalla það hvers vegna þjóðrkirkjuskipan er andlýðræðisleg tímaskekkja.


Jón Valur Jensson - 18/01/16 19:56 #

Það verður áfram um allar aldir mjög æskilegt að forseti Íslands tilheyri kristnum trúarsöfnuði. Sízt af öllu myndi það auka víðsýnið á Bessastöðum ef þangað veldist foseti sem lokaður væri fyrir gildi kristinnar trúar fyrir bæði einstaklinga og þjóðina alla.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/01/16 20:48 #

Það verður áfram um allar aldir mjög æskilegt að forseti Íslands tilheyri kristnum trúarsöfnuði.

Nei.

sem lokaður væri fyrir gildi kristinnar trúar

Þetta þýðir ekkert. Ekki segja eitthvað sem hefur enga merkingu.


Jón Valur Jensson - 19/01/16 00:53 #

Gildi kristinnar trúar verða seint upp talin í einu svari, en koma inn á mörg ólík svið: upplýsingar, menntunar, persónumótunar, andlegrar ræktar, siðferðis, hjálparstarfs, sjúkraþjónustu, raunvísinda, myndlistar, tónlistar, bókmennta, heimspeki og menningarsögu, svo að eitthvað sé nefnt. Ólík kristin trúfélög neð sína mismunandi arfleifð hafa reyndar haft mismikið að gefa á þessum sviðum.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?