Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aðskilnaður er einfalt mál

Mynd af tómri kirkju

Það hefur lifnað vel yfir umræðunni um aðskilnað ríkis og kirkju í kjölfar tveggja kannana sem sýnt hafa að meirihluti er hlynntur aðskilnaði. Þó eru niðurstöður þessarar kannana í sjálfu sér ekki miklar fréttir. Kannanir Capacent hafa sýnt meirihlutastuðning við aðskilnað samfellt í um tvo áratugi. Í raun var niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs, þar sem spurt var hvort það ætti að vera ákvæði um Þjóðkirkju í stjórnarskrá, undantekningin.

Undanfarið hafa einhverjir reyndar haldið því fram að mikill meirihluti hafi kosið gegn aðskilnaði í þjóðaratkvæðagreiðslunni en fyrir utan það hversu loðið orðalag spurningarinnar var þá er staðreyndin sú að 51,1% gildra atkvæða getur aldrei kallast annað en mjög naumur meirihluti.

Eins og við var að búast hefur ríkiskirkjan brugðist við. Hvort sem það er vegna ráðgjafar frá almannatenglafyrirtækinu sem kirkjan kaupir þjónustu af eða einhvers annars virðist nú komin fram ný taktík í umræðunni. Hún er sú að leggja áherslu á að í raun hafi aðskilnaður þegar átt sér stað.

Sjálfur biskup og sr. Davíð Þór Jónsson hafa talað á þessum nótum nú nýlega. Þau vísa í lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og kirkjujarðasamkomulagið frá árinu 1997. Biskup segir ennfremur að það þurfi að skilgreina frekar hvað átt sé við með aðskilnaði ríkis og kirkju.

Ef ríkiskirkjufólk heldur í alvörunni að sérstök lög um stöðu og starfshætti Þjóðkirkjunnar umfram önnur trúfélög og samkomulag án tímaramma þar sem prestum er séð fyrir launum úr ríkissjóði séu sterk rök fyrir því að búið sé að aðskilja ríki og kirkju þá er eitthvað verulega furðulegt í gangi. Það breytir engu þó að í lögunum segi að kirkjan sé sjálfstæð, samskonar ákvæði er í lögum um RÚV sem engum dettur í hug að fullyrða að sé annað en ríkisstofnun.

Málið er alls ekkert flókið, þó að spuninn frá Biskupsstofu sé slíkur þessa dagana. Ríkiskirkjan starfar eftir sérstökum lögum sem um hana eru sett, prestar eru opinberir embættismenn sem fá laun úr ríkissjóði, kirkjan er á skrá yfir ríkisstofnanir hjá Innanríkisráðuneytinu, um hana er sérstakt ákvæði í stjórnarskrá Íslands og í hvert sinn þegar hana vantar pening þá hleypur hún til ríkisins. Á meðan þetta er staðan hefur aðskilnaður ekki átt sér stað.

Þetta er augljóst og þetta hljóta prestar og aðrir sem sett hafa sig inn í málið að vita. Þessar fullyrðingar um aðskilnað, og hvað þá þegar farið er í einhverjar skilgreiningafimleika með þetta einfalda hugtak, eru til þess eins gerðar að reyna að flækja umræðuna og tefja hana. Eins og þeir gera alla jafna sem vita að eru í veikri stöðu í umræðunni.


Upphafleg mynd frá Jack Torcello og birt með cc-leyfi

Egill Óskarsson 02.12.2015
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Benni - 07/12/15 07:19 #

Hvernig væri að fara að ræða aðskilnað ríkis og (ó)lListaháskóla Íslands. Með nýjasta stórvirki sitt, mannapa kúkandi í búri, eins og apinn í Sædýrasafninu forðum daga. Eitthvað segir mér að "þróunarkenningin" sé að ganga til baka. Eða er þetta kannski, eftir allt saman, þróunin sem "trúleysingjar" trúa á. Það er augljósara með hverjum deginum, að trúleysingjar eru ekkert annað en satanistar, samanber hugtakið. "Do what thou wilt". Sem þýðir einfaldlega, gerðu það sem þú kemst upp með.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 07/12/15 18:30 #

Hérna... ha?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 07/12/15 20:39 #

Gvuð hefur væntanlega sagt Benna að segja þetta, enda eru vegir Gvuðs órannsakanlegir, samanber þessi tilteknu ummæli Gvuðs/Benna.


Benni - 08/12/15 03:20 #

Manni er ekki svara vant þegar andagiftin hellist yfir mann.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?