Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aðeins um „sögu bólusetninga“

Mynd af bóluefni við bólusótt

Í Bókatíðindum 2015 er að finna bók sem kallast “Saga bólusetninga”. Við fyrstu sýn virðist bókin einfaldlega fjalla um sögu bólusetninga frá upphafi þeirra. Minnst er á að aðalhöfundur bókarinnar sé læknir, sem ætti að vera traustvekjandi titill hjá höfundi bókar um jafn viðamikið málefni. Við nánari skoðun kemur hins vegar í ljós að höfundurinn, Dr. Suzanne Humphries, er þekktur andstæðingur bólusetninga.

Titill bókarinnar er einnig misvísandi og allsendis ólíkur upphaflega enska titlinum, sem er „Dissolving Illusions“. Meðhöfundurinn Roman Bystrianyk er líka ötull við að gagnrýna bólusetningar. Þetta er því síður en svo hlutlaus bók um „sögu” bólusetninga, heldur virðist hún frekar halla í átt að gervivísindum, þar sem bólusetningum er fundið allt til foráttu og í stað þeirra er mælt með „náttúrulegum leiðum“ til að verjast sjúkdómum á borð við mislinga og kíghósta.

Höfundurinn Dr. Suzanne Humphries.

Suzanne Humphries er starfandi nýrnalæknir í Bandaríkjunum. Hins vegar hefur hún líka stundað nám í smáskammtalækningum og er virkur þátttakandi í samtökunum „The International Medical Council on Vaccination“, sem eru samtök sem berjast gegn bólusetningum. Hún hikar ekki við að breiða út falskar upplýsingar um bólusetningar. Árið 2013 reynd húni að vara Ísraela við að gefa börnum sínum bóluefni gegn lömunarveiki. Einnig notar hún markvissan hræðsluáróður eins og með því að kalla bóluefni „ónáttúruleg“ og „sjúkdómsefni“ (disease matter).

Læknar eru ekki óskeikulir

Það er algeng aðferð hjá andstæðingum bólusetninga að nýta sér fólk með fína titla til að færa rök fyrir málstað sínum. Þessi rökvilla kallast „vísun í yfirvald“ þar sem menntun eða staða á að teljast næg sönnun fyrir því að hægt sé að treysta þeim sem vitnað er í. Langt nám gerir fólk hins vegar ekki ónæmt fyrir vitleysu. Suzanne Humphries er gott dæmi um vel menntaða manneskju sem hefur kolrangt fyrir sér hvað bólusetningar varðar. Hún telur kíghósta vera „ekkert til að óttast“ og að hann megi meðhöndla með stórum skömmtum af C-vítamíni eða smáskammtalækningum. Hún efast um að mislingar séu svo hættulegir vegna þess að dánartíðni af völdum þeirra er svo lág. Báðir þessir sjúkdómar eru nú á uppleið í mörgum löndum, með tilheyrandi óþarfa þjáningum fyrir fjölmörg börn, einmitt vegna boðskaps af þessi tagi frá læknum sem eru á villigötum hvað bólusetningar varðar.

Dr. Humphries heldur fyrirlestur í sal HÍ.

Suzanne Humphries er á leið til landsins og mun halda hér fyrirlestur í þessari viku, í tilefni útgáfu bókar sinnar á Íslandi. Það er vonandi að hún eigi sér fáa stuðningsmenn hér á landi, enda eru bólusetningar ein mesta heilsubót fyrir mannkynið frá upphafi lækninga. Skaðinn af boðskap bólusetningaandstæðinga á borð við Dr. Humphries er þegar orðinn mikill, með lækkandi hlutfalli bólusettra barna og aukinni tíðni mislinga og kíghósta í fjölmörgum löndum beggja vegna Atlantshafsins. Hér á landi eru bólusetningahlutfallið enn viðunandi, en það er nauðsynlegt að vera á varðbergi gegn þeim sem vilja breyta því.

Rebekka Búadóttir 24.11.2015
Flokkað undir: ( Bólusetningar )

Viðbrögð


Halldór - 24/11/15 10:22 #

Hver ætli þýði bókina og gefi hana út og hver stendur fyrir heimsókn hennar?


Snævar - 24/11/15 10:57 #

Það eru samtökin "heilsufrelsi" sem standa fyrir þessu. http://allevents.in/events/saga-b%C3%B3lusetninga/1709618275924282


Stefán - 25/11/15 16:02 #

Vel valið vantrú. Vantrú með trú á lyfjarisunum :)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/11/15 16:09 #

Stefán, aðhyllist þú samsæriskenningar fram yfir vísindi og rök?


G Ragnar - 26/11/15 12:52 #

Ég er ekki að fatta Vantrúar dæmið.

Mér virðist vera djúp, nánast trúarleg sannfæring í þessari umfjöllun.

Ef fólk skortir vantrú má ég þá mæla með "The Structure of Scientific Revolutions" eftir Thomas Kuhn. Það er fæstum nóg að hraðlesa umfjöllun um hans viðhorf á Wikipediu.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 26/11/15 13:56 #

Mér virðist vera djúp, nánast trúarleg sannfæring í þessari umfjöllun.

Ragnar, auðvitað erum við sannfærð um gagnsemi bólusetninga. Við erum líka sannfærð um þróunarkenninguna, sýklakenninguna og margt fleira. Hefur ekkert með "trú" að gera.


G Ragnar - 26/11/15 14:22 #

Hjalti Rúnar,

Minn punktur .. með vísan í Kuhn, er að það sé í raun ekki "vísindalegt" að hafa svona afgerandi sannfæringu.

Furðuleg og óvænt viðhorf vekja frekar hjá mér forvitni en fordæmingu.

Að nota orð eins og "auðvitað" t.d. í samhenginu "auðvitað erum við sannfærð" virkar á mig eins og skortur á vantrú.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/11/15 15:37 #

Semsagt, samkvæmt þér, þá eigum við alltaf að efast um allt, alltaf og ávallt og ævinlega? Lifa í stöðugri óvissu? Aldrei að sannfærast um eitt né neitt því það er hin "sanna" vantrú? Eða um hvað ertu að tala? Hvaða punkt ertu að reyna koma á framfæri? Að allt er ekki einsog það sýnist?

Það er ekkert að því að vera sannfærður um eitthvað ákveðið málefni ef rannsóknir, gögn og vísindaleg vinnubrögð benda sterklega til þess að málefnið sé rétt og satt. T.d. að þyngdarlögmálið hefur töluverða vigt, þróun er einfaldlega staðreynd, alheimurinn er alveg gríðarlega, rosalega, ótrúlega stór og að bólusetningar svínvirka.


Hinrik - 17/12/15 12:40 #

Sammála G Ragnar, það er ákveðinn kreddubragur yfir þessarri grein hjá þér. Sérstaklega þegar þú segir:

"Það er vonandi að hún eigi sér fáa stuðningsmenn hér á landi, enda eru bólusetningar ein mesta heilsubót fyrir mannkynið frá upphafi lækninga."

Mér virðist að þú sért að reyna að koma í veg fyrir að hún fái að tala eða fái að heyja málefnalega umræðu hér á landi og hvaða rök hefur þú fyrir því að bólusetningar séu MESTA heilsubót ?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/12/15 14:10 #

enda eru bólusetningar ein mesta heilsubót fyrir mannkynið

...

hvaða rök hefur þú fyrir því að bólusetningar séu MESTA heilsubót

Það vantar orð hjá þér Hinrik. Orðið ein hefur merkingu þarna.

Og rökin felast t.d. í þessu.


Svanur Sigurbjörnsson - 21/12/15 02:18 #

Í viðtali segir Suzanne Humpries að hún telji að bólusetningar stuðli ekki að heilbrigði af því "að þær hafi ekki næringarfræðilegt gildi". Blákalt, bara rétt eins og bólusetningar væru næringarefni en ekki vörn gegn smitsjúkdómum. Manneskja sem talar svona, eitthvað út og suður um málefni sem hún er að gagnrýna er ekki í lagi. Það er eitthvað mikið að hugsuninni. Fleira sem hún sagði var í þessum dúr en þetta var e.t.v. það bilaðasta.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?