Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Viðbragðsáætlun við skólatrúboði

Mynd af börnum

Starfi trúfélaga og skóla á ekki að blanda saman og nemendum má heldur ekki mismuna vegna trúar- og lífskoðana. Skólinn á heldur ekki að innræta börnum ákveðna trú eða láta þau taka þátt í trúarlegum athöfnum, svo sem helgileik, sálmasöng, bænalestri, móttöku helgirita, litun trúarlegra mynda og kirkjuferða svo fátt eitt sé nefnt.

Óboðleg þáttaka

Ef „boðið er upp á“ þátttöku í trúarathöfn eða hún boðuð á þann hátt að foreldrar eða forráðamenn verða að biðjast sérstaklega undan því, brýtur það í bága við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga því afstaða foreldra til slíks má túlka sem upplýsingar um trúarskoðanir.

Til viðkvæmra persónuupplýsinga telst uppruni, litarháttur, kynþáttur, stjórnmálaskoðanir, svo og trúar- eða aðrar lífsskoðanir. Í lögunum er líka fjallað ítarlega um skráningu, vörslu, vinnslu og miðlun slíkra upplýsinga. í 9. grein kemur fram að vinnslan er óheimil nema hinn skráði samþykki vinnsluna.

Reglur í Reykjavíkurborg

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur skipaði starfshóp til að gera tillögur um stefnu í tengslum við lífsskoðunar- og trúfélaga við skóla. Í tillögum starfshópsins í febrúar 2007 var undirstrikuð sú nauðsyn að að setja tálmanir á allskyns trúboði og trúarstarfi innan opinbera leik- og grunnskóla til að sporna við að börnum eða foreldra þeirra yrði mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar þeirra:

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir að allir eigi rétt til að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins og að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. (s. 7, Skýrsla starfshóps um samstarf við trúar- og lífsskoðunarhópa.pdf)

Reglurnar voru samþykktar árið 2011. Þetta eiga skólastjórar og forsvarsmenn helstu trúboðsstofnana að vita.

Níu punktar til að athuga

Ef ykkur finnst að vegið sé að uppeldi og lífsskoðun barna ykkar í opinberum grunnskólum vegna kirkjuferða, prestaheimsókna, bænahalds og annarra trúarlega athafna prófið þá að fara eftir þessum níu punktum:

  1. Kvarta til skólastjóra
  2. Kvarta til fræðslusviðs eða skóladeildar viðkomandi sveitarfélags
  3. Krefja trúboðann/prestinn um svör
  4. Kæra til úrskurðarnefndar Þjóðkirkjunnar
  5. Kæra til siðanefndar presta
  6. Kæra til menntamálaráðuneytis
  7. Kæra til lögreglu
  8. Skrifa grein í blað
  9. Skrifa grein á Vantrú

Pantið fund hjá umsjónarkennara og skýrið frá áhyggjum ykkar. Fáið fund hjá skólastjóra og aðstoðarskólastjóra og útlistið ykkar áhyggjur eins skýrt og þið getið. Í öllum skólum eiga vera starfandi trúnaðarmenn.

Hægt er að hringja í skrifstofu umboðsmanna barna í síma 552-8999 eða gjaldfrjáls númer í síma 800-5999. Netfangið er ub@barn.is. Einnig er hægt gera tilraun til að ná sambandi við þingmann. Athugið heimasíðu Alþingis, þar er hægt að nálgast allar upplýsingar um viðkomandi þingmann, þar á meðal netföng.

Sumt af þessu er tilgangslítið í sjálfu sér en pakkinn í heild getur sent skýr skilaboð. Sá sem vegur að frelsi annarra er skaðabótaskyldur samkvæmt lögum.

Staðlað bréf vegna trúboðs

Hér er staðlað bréf fyrir foreldra og forráðamenn barna, sem verða fyrir trúarlegri mismunun, til umsjónarkennara og skólastjórnenda:

Ég krefst þess að skólinn virði alþjóðasamninga, lög og reglur og blandi ekki saman starfi trúfélaga og skólans eða innræti börnum trú (svo sem með kirkjuferðum, þátttöku í helgileikjum, sálmasöng, bænalestri, móttöku helgirita, litun trúarlegra mynda o.s.frv (sbr. úrskurð Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna)). Ég krefst þess að skólinn tryggi að fræðsla í skólanum sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir foreldranna og virði frelsi foreldra til þess að tryggja trúarlegt og siðferðislegt uppeldi barna sinna í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.

Ég vil alls ekki að barni mínu sé mismunað vegna trúarskoðana með því að taka það út úr hópnum á nokkurn hátt og ég vil ekki að skólinn skrái, varðveiti eða vinni með nokkrar upplýsingar um trúarskoðanir mínar.

Með kveðju,
[Þitt nafn]
[Stað- og dagsetning]

Lög, reglugerðir og ítarefni

Ef þörf krefur, er hægt að vísa á eftirfarandi:

Í Aðalnámsskrá grunnskóla(pdf-skjal) segir:

Mikilvægt er að skólinn sýni nærgætni og skilning þegar fjallað er um málefni sem tengjast heimilum, t.d. neyslu- og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir. (Bls. 80)

Í siðareglum kennara segir:

Kennurum ber að hafa jafnrétti allra nemenda að leiðarljósi í skólastarfi. Kennarar eiga að vinna gegn fordómum og mega ekki mismuna nemendum t.d. vegna kyns, þjóðernis eða trúarbragða.

Þriðja málsgrein 24. greinar grunnskólalaga (nr. 91/2008) hljóðar svo:

Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar.

Mismunun vegna trúarbragða stangast á við 2. grein samningsviðauka númer eitt við lög um mannréttindasáttmála Evrópu (nr. 62/1994):

Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.

Það stangast jafnframt á við á 5. grein í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (nr. 18/1992):

[...] aðildarríki skuli virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra eða forsjáraðila barns til að veita því tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu í samræmi við vaxandi þroska þess er það beitir réttindum þeim sem viðurkennd eru í samningnum.

Það brýtur einnig gegn 17. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (nr. 10/1979) en samkvæmt honum „skal enginn þurfa að þola geðþótta- eða ólögmæta röskun á einkalífi, fjölskyldu eða heimili.“

Jafnframt brýtur það gegn 4. ákvæði í 18. grein sömu laga:

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, eftir því sem við á, lögráðamanna til þess að tryggja trúarlegt og siðferðislegt uppeldi barna sinna í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.

Ákvæði í lögum um mannréttindasáttmála Evrópu varðandi bann við mismunun er nokkuð skýr:

Réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningi þessum, skulu tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarrar stöðu.

Og sömuleiðis Samningur SÞ um réttindi barnsins í fyrsta ákvæði í annarri grein:

Aðildarríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum, án mismununar af nokkru tagi, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar, ætternis eða annarra aðstæðna þess eða foreldris þess eða lögráðamanns.

Og 14. grein:

Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar. 2. Aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra, og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess. 3. Frelsi til að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í lögum og eru nauðsynlegar til að gæta öryggis almennings, allsherjarreglu, heilsu almennings eða siðgæðis, eða grundvallarréttinda og frelsis annarra.


Sjá nánar:

Ritstjórn 25.08.2015
Flokkað undir: ( Gídeon , Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?