Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Umburðarlynda afturhaldið

Mynd af fólki

Um helgina var Gleðigangan gengin í Reykjavík, hápunktur Hinsegin daga. Hún er orðin einn stærsti viðburður ársins á landsvísu og tugþúsundir koma saman á hverju ári til þess að gleðjast og fagna fjölbreytileikanum. Eins og við er að búast má á þessum degi má sjá hina og þessa setja fram stuðningsyfirlýsingar á samfélagsmiðlum. Það er auðvitað ekkert nema frábært að sjá samfélagið sameinast í því að samfagna hópi sem hefur þurft að berjast hart fyrir réttindum sínum í gegnum tíðina.

Eins og fram kom hér á Vantrú um helgina ákvað vefprestur ríkiskirkjunnar að besta framlag sitt væri að sparka svolítið í okkur í litla trúleysingjafélaginu. Efnislega var framlag hans eitthvað á þá leið að af því að kirkjan hans styddist við færustu Biblíuvísindamenn í heimi um að samkynhneigð væri ekkert fordæmd í Biblíunni, en við í Vantrú ekki, þá værum við marklaus, þegar við héldum öðru fram.

Nú er það reyndar staðreynd að það er ákaflega umdeilt á meðal kristinna hverjar réttu túlkanirnar eru. Hinsvegar væri áhugavert að sjá Árna Svan og aðra presta sem álíta sig frjálslynda svara þeirri spurningu hvort að þeir sjálfir myndu boða fordæmingu gegn samkynhneigð ef að þessir sömu fræðimenn teldu það vera rétta túlkun á Biblíunni. Eða væru þá einfaldlega fundnir aðrir fræðimenn með heppilegri skoðanir?

Einhverjir spyrja sig kannski af hverju við erum að mótmæla því þegar frjálslyndir prestar túlka Biblíuna á þann veg að hún fordæmi ekki einstaka hópa. Hvort að við séum á móti því að fólk hafi umburðarlyndar trúarskoðanir. Sú er alls ekki raunin.

Staðreyndin er hinsvegar sú að ríkiskirkjan var á móti öllum réttindabótum til samkynhneigðra. Það er ein af stóru ástæðunum fyrir því að staða hennar í þjóðfélaginu hefur veikst mikið á undanförnum árum, samfélagið er einfaldlega orðið miklu umburðarlyndara en kirkjan hefur nokkurn tíman verið.

Umburðarlyndið ógnar forréttindunum og völdunum sem hún hefur og því hefur hún brugðist við með því að breyta skoðunum sínum í takt við tíðarandann og því að kaupa þjónustu almannatengla til þess að reyna að móta umræðuna.

Með því að sveipa sig nú hulu umburðarlyndis er kirkjan einfaldlega að reyna að halda stöðu sinni sem ríkisreknu og –vernduðu trúfélagi sem hefur aðgang að opinberum skólum og hefur áhrif á lagasetningar á þingi. Og þegar á hefur reynt hefur umburðarlyndið verið meira í orði en á borði.

En það er auðvitað mjög sérstakt að Árni Svanur hafi kosið að nýta þennan dag til þess að pönkast á Vantrú. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skiptið sem hann reynir að spyrða félagið saman við fordóma, en tilefnið gerir þessa tilraun reyndar óvenju ósmekklega.

Kirkjan hans Árna Svans var eins og áður sagði á móti öllum framförum í réttindamálum samkynhneigðra og innan hennar starfa fjölmargir prestar sem ekki geta hugsað sér að gifta slík pör, trúar sinna vegna.

Núverandi biskup vill vernda frelsi þessara opinberu embættismanna til að mismuna fólki vegna kynhneigðar og seinasti biskup taldi að hjónabandi sem stofnun væri kastað á öskuhauga sögunnar með því að leyfa þessu fólki að giftast.

Trúfélagar Árna í öðrum kristnum söfnuðum á Íslandi eru meira og minna allir ósammála honum um boðskap Biblíunnar í garð samkynhneigðra, svo ekki sé minnst á fordómana og viðbjóðinn sem kristnir leyfa sér í garð þessa hóps erlendis.

Daginn sem Gleðigangan var gengin ákvað Árni Svanur hinsvegar ekki að takast á við þá sem játa sömu trú og hann. Hann ákvað heldur ekki að leggja aðaláhersluna á þau sem dagurinn snýst um. Hann ákvað hinsvegar að skjóta á hóp fólks sem hefur alltaf staðið með samkynhneigðum gegn afturhaldi kirkjunnar. Og í leiðinni að stilla kirkjunni upp sem fórnarlambi. Það fannst honum viðeigandi á degi Gleðigöngunnar.

Egill Óskarsson 10.08.2015
Flokkað undir: ( Biblían , Kristindómurinn , Ríkiskirkjan )

Viðbrögð


Arnar - 10/08/15 12:07 #

Það væri einmitt fróðlegt að vita á hverju Árni teldi þetta umrædda samviskufrelsi byggt? Eru þeir prestar sem nýta sér það bara fordómafullir fávitar eða hafa rannskóknir þeirra á biblíuvísindum leitt til þess að þeir telja það andstætt trú sinni að gifta samkynhneigða?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?