Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Það sem Jesús sagði óbeint um samkynhneigð

Mynd af gleðigöngunni

Kristið fólk sem fordæmir ekki samkynhneigð reynir oft að rökstyðja þá skoðun með því að benda á að Jesús hafi ekki sagt neitt um samkynhneigð. Sem dæmi má benda á borða Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar frá Gleðigöngunni í fyrra. Við höfum þegar bent á hvers vegna þessi þagnarrök eru léleg. Það má samt halda því fram að Jesús hafi í raun tjáð sig um samkynhneigð, þó svo að það hafi verið frekar óbeint.

Ummæli Jesú

Í sjálfri fjallræðunni segir Jesús nefnilega þetta:

Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki. (Mt. 5:18-19)

Hérna eru tvo boð sem enginn má brjóta, sem ekki smástafur eða stafkrókur munu falla úr samkvæmt Jesú:

Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð. (3Mós 18:22)

Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim. (3Mós 20:13)

Dæmi úr nútímanum

Ef við heimfærum þetta upp á nútímann, þá gætum við ímyndað okkur einstakling sem tjáir sig aldrei um samkynhneigð, en segir hins vegar:

Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögum Írans, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af ómerkilegustu ákvæðum laga Írans og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.

Löggjöf Írans, eins og lögmálið sem Jesús var að tala um, kveður á um dauðadóm fyrir að “leggjast með karlmanni sem kona væri".

Það væri frekar undarlegt að ætla að þessum einstaklingi væri annt um réttindi samkynhneigðra. Hann ætti sömuleiðis ekkert erindi í Gleðigönguna. Alveg eins og Jesús.

Jesús er léleg fyrirmynd

Það er fínt að frjálslynt kristið fólk, ólíkt flestum trúsystkinum þeirra, sé ekki fordómafullt út í samkynhneigða, en það ætti að hætta að reyna að réttlæta það viðhorf sitt með vísun í þögn Jesú. Bæði er þögnin hans ekki vísbending um að hann hafi ekki verið á móti samkynhneigð, auk þess sem að hann dásamar löggjöf sem kveður á um dauðadóm fyrir samkynhneigð.


Mynd fengin hjá Leikmaður les biblíuna og birt með leyfi.

Hjalti Rúnar Ómarsson 08.08.2015
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Sindri Guðjóns (meðlimur í Vantrú) - 08/08/15 22:13 #

fleira vers þar sem Jesús talar óbeint um samkynhneigð: "45Ætlið eigi að ég muni ákæra yður fyrir föðurnum. Sá sem ákærir yður er Móse og á hann vonið þér. 46Ef þér tryðuð Móse munduð þér líka trúa mér því um mig hefur hann ritað. 47Fyrst þér trúið ekki því sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?“" Jóh 5:45-47; Matteus 23:2-3: „Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. Því skuluð þér gera og halda allt sem þeir segja yður en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara því þeir breyta ekki sem þeir bjóða."; Í Jóhannesi 10:35 segir Jesús um lögmálið: "og ritningin verður ekki felld úr gildi".


Jón Valur Jensson - 21/08/15 00:22 #

Það er miklu meira á að byggja í orðum Jesú, Sindri og Hjalti Rúnar. Hann segir mun meira um þetta mál en þið virðizt vita.

Að hann hafi viljað dauðadóm yfir samkynhneigðum, stenzt ekki skoðun.

Að hann hafi með þögn eða öðru gefið í skyn, að samkynja mök séu ekki alvarleg synd, stenzt heldur ekki.

Kem með rök fyrir þessu öllu síðar (of þreyttur núna).

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?