Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ofsóknarórar ríkiskirkjunnar

Mynd af

Fyrir 100 árum stóðu konur á Austurvelli og fögnuðu kosningarétti til Alþingis. Í dag standa konur á Austurvelli og berjast gegn kynbundu ofbeldi. Hvaða baráttumál skyldi vera á dagskrá á Austurvelli eftir 100 ár. Ef til vill er það rétturinn til að mega iðka trú sína og sýna hana í verki. Afhelgunin sem á sér stað í hinum vestræna heimi á ef til vill eftir að koma okkur í koll. Þegar trúarþekkingunni er haldið frá komandi kynslóðum. Það er eitt af meinum samfélags okkar þessi hræðsla við trú, einkum kristna trú. #

Biskup ríkiskirkjunnar heldur áfram á sömu braut og forverar hennar og reynir eftir fremsta megni að sýna ríkiskirkjuna og kristindóminn sem máttvana öfl sem geta ekki rönd við reist gegn meintum og linnulausum árásum sem kristið fólk þarf að verjast með ráðum og dáðum. Þetta er sama endurtekna þvælan frá upphaf 21. aldar um að kristni og kristið fólk séu grunlaus fórnarlömb hræðsluáróðurs óþekktra aðila. Harmakveinið er alltaf eins: Hvers á kristið fólk að gjalda?

Hvað með okkur hin? Hvað með að hætta þessu væli um að kristið fólk verði sérstaklega fyrir ofsóknum eða fordómum á Íslandi? Þetta eru órar sem minna helst á ofsóknartal bandarískra bókstafstrúarmanna. Hin svokallaða afhelgun sem á sér stað er afnám forréttinda sem kristni og ríkiskirkjan sérstaklega hafa notið. Það er hreinn og klár útúrsnúningur að láta eins og afnám forréttinda sé kúgun.

Um trúboð og fræðslu

Þá er hvimleitt að fylgjast með síendurteknum rangfærslum ríkiskirkjunnar þegar hún heldur því fram að verið sé að afnema fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð. Trúboð er ekki fræðsla og fræðsla er ekki trúboð, þetta eru hreinar andstæður. Að háskólamenntað fólk skuli ítrekað rugla þessu saman, þrátt fyrir margítrekaðar leiðréttingar, táknar að það er vísvitandi verið að segja ósatt í áróðursskyni.

Þegar biskup vísar til þess að trúarþekkingu verði “haldið frá komandi kynslóðum” á hún sjálfsögðu við þær takmarkanir sem settar hafa verið trúboði í opinberum skólum. Trúboðið sem stundað hefur verið í opinberum menntastofnunum landsins er kýrskýrt dæmi um þau forréttindi sem kristnir trúboðar hafa haft á Íslandi. Það er mál að linni. Reynt hefur verið að stemma stigu við þessu ónæði með skýrum reglum sem beinlínis banna trúboð.

Hræðsla við kristna trú

Ef sumt fólk er hrætt við kristna trú þá er það ekki af ástæðulausu. Það eru alveg til söguleg fordæmi fyrir því að hræðast kristna trú og kristið fólk. Kristindómur á sér langa og blóðuga sögu sem kristið fólk vill reyndar ekki kannast við í dag.

En viðhorfsbreyting síðustu ára gagnvart ríkiskirkjunni stafar ekki af hræðslu. Afnám trúboðs og barátta fyrir fullu trúfrelsi á Íslandi er ekki “hræðsla” eða gert á þeim forsendum að trú sé “mein samfélagsins”. Þetta er einfaldlega grundvallaratriði í þjóðfélagi þar sem trúfrelsi ríkir í raun og jafnrétti lífsskoðana er virt.

Það eru ekki trúarofsóknir að setja skýrar reglur um trúboð i opinberum menntastofnunum eða vilja afnema forréttindi ríkiskirkjunnar. Forystu- og stuðningsmenn ríkiskirkjunnar verða að átta sig á því að það er risastór gjá milli trúfélagsskráningar og trúarviðhorfa, fækkunin í kirkjunni er leiðrétting, ekki kúgun.

Þórður Ingvarsson 28.06.2015
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 28/06/15 13:51 #

Ef til vill er það rétturinn til að mega iðka trú sína og sýna hana í verki.

Þetta fer eftir því hvernig fólk kýs að sýna trú í verki? Ef einhverjir vilja t.d. gera það með ofbeldi - þá hefur það ekki "rétt" til þess.

Afhelgunin sem á sér stað í hinum vestræna heimi á ef til vill eftir að koma okkur í koll.

Og kannski ekki. Það er ekki tilviljun að á tímum "afhelgunar" hafa réttindi almennings aukist og fordómar almennt minnkað.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.