Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fornritasafn kirkjunnar

Mynd af fólki

Hvatinn að þessum skrifum er grein Sigurvins Lárusonar, prests í Neskirkju, sem bar titilinn „Hinsegi bareflið Biblían“. Í þeirri grein er meðal annars réttilega bent á að það sé fjarri því rétt að samkynhneigð sé eitthvað meginumfjöllunarefni í Biblíunni, eins og halda mætti miðað við hve mikið vísað hefur verið til Biblíunnar til að berja á hinsegin fólki, og það sé ekki eins ljóst og ætla mætti að samkynhneigð sé fordæmd sem slík þar, þó að viðurkennt sé að „á tveimur stöðum sé samkynja kynlíf“ fordæmt í Þriðju Mósebók.

Það er ekki tilgangurinn hér að ræða efnislega hvort það sé til dæmis rétt að Páll postuli fordæmi ekki samkynhneigð sem slíka - það væru þó einkennileg örlög að rit innblásið af Guði sjálfum hefði misskilist í svona miklum mæli svona lengi, ásamt allri þeirri þjáningu sem það hefur valdið hinseginfólki – heldur hitt, hvers vegna við ættum að láta okkur það nokkru máli skipta þegar metið er hvort eitthvað sé athugavert við að elska og laðast að fólk af sama kyni.

Þegar ungliðasveit ríkiskirkjunnar tók þátt í gleðigöngunni 2014 þá hélt hún því sérstaklega á lofti að Jesús hafi ekkert sagt um samkynhneigð. Einnig var sérstaklega haft fyrir því að benda á hvers vegna ýmis ritningarvers, úr hinum og þessum bókum Biblíunnar, færi stoðir undir það að ekki skuli mismuna samkynhneigðum og meðal annars sagt að þau „fáu ritningarvers í Biblíunni sem fordæma að einhverju leyti samkynhneigð“ ættu ekki að ráða úrslitum, þegar unga fólkið í kirkjunni ályktaði nýlega um samviskufrelsi presta. Það má líka benda á ályktanir kenninganefnda kirkjunnar um staðfesta samvist og fleira í þeim dúr.

Það sem mér þykir merkilegast við þetta allt saman er að menn þurfi í nútímanum, þegar menn taka afstöðu til siðferðislegs málefnis, að athuga gaumgæfilega hvað segir í safni fornrita um málið, og vega það og meta. Í rökstuðningi unga fólksins í kirkjunni kemur til að mynda fram að fyrst ekki sé tekið mark á tilteknu Biblíuversi (um að ekki megi gefa saman fólk sem hefur skilið), þurfi ekki heldur að taka mark á versum sem fordæma samkynhneigð. Fólk fer í gleðigöngu og bendir sérstaklega á að fornritasafnið þeirra banni þeim það ekki.

Hvers vegna skiptir það máli hvort fornritasafn kirkjunnar bannar samkynhneigð eða ekki? Hvers vegna er okkur ekki sama? Er það ekki næg ástæða fyrir þátttöku í göngunni að hún er í þágu góðs málefnis? Að berjast gegn fordómum. Hvað ef Jesús hefði sagt að það mætti ekki ganga að eiga fólk af sama kyni? Myndi fólk þá ekki taka þátt í göngunni?

Hvað svo sem Biblían kann að segja í raun um samkynhneigð, þá er ljóst að mörg vers hennar virðast í það minnsta á yfirborðinu fordæma samkynhneigð. Á meðan Biblíunni er veittur sérstakur sess í samfélaginu sem eitthvað merkilegra fornritasafn en önnur forn rit, hvað kennivald hennar varðar, er hægt að nota hana til að lumbra á samkynhneigðum ásamt öðru.

Ef við myndum horfast í augu við það að við Biblíuna er ekkert guðlegt eða guðlega innblásið - ef hún væri tekin af stalli - þá væri ekki lengur hægt að nota hana sem barefli. Þá myndi innihald hennar vera jafn gangslaust til að lumbra á samkynhneigðum og innihald annarra bókmennta frá járnöld eða upphafi okkar tímatals. Þá gætum við tekið sjálfstæða afstöðu til málefna út frá verðleikum þeirra án þess að nokkrar kreddur í fornritasöfnum séu hindrun í vegi okkur.

Sindri G. 16.06.2015
Flokkað undir: ( Biblían , Efahyggja )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.