Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Frá Sjónarhóli Vantrúar

Mynd af gleraugum

Gleraugnaverslunin Sjónarhóll hættir starfssemi í sumar eftir 19 ára starf. Það er ekki oft sem við fjöllum um gleraugnaverslanir en tilefnið er yfirlýsing sem aðstandendur verslunarinnar sendu frá sér þar sem talað er um að „hópur vantrúaðra Íslendinga“ hafi gert aðför að starfseminni.

Sjónarhóll seldi fleira en gleraugnagjarðir og sjóngler. Aðstandendur búðarinnar tóku þátt í baráttunni fyrir meintu "heilsufrelsi" sem gekk út á að láta skattgreiðendur greiða fyrir ýmsar óhefðbundnar lækningaaðferðir. Meðal þess sem Sjónarhóll seldi var svokallaður Zappkit-búnaður sem byggir „á þeirri grunnhugmynd að flest veikindi stafi af aðskotahlutum í líkamanum“ og er þar átt við vírusa og bakteríur, en „að með réttri tíðni sé hægt að hrista þau í sundur“.

Við verðum að játa að við vitum ekki meira enda höfum við ekki kynnt okkur sérstaklega tækið. Af lýsingunni að dæma virðist þetta vera óttalegt kjaftæði.

Ranghugmyndir um Vantrú

Lesendur Vantrúar þekkja viðhorf okkar til hindurvitna og því mætti gera ráð fyrir að Vantrú hafi fjallað ítarlega um Sjónarhól en reyndar hefur Vantrú aldrei gert það. Hugmyndin um að Vantrú beri einhverja ábyrgð á endalokum fyrirtækisins er ágætt dæmi um ranghugmyndir sem margir hafa um Vantrú. Það vantar þó ekki kunnuglegar samsæriskenningarnar í minningargreinina og sum stefin höfum við séð áður:

Við vitum nú að það var ekki bara óvart sem umfjallanir fjölmiðla um okkur á sér stað, þar sem Gv. Sjónarhóll hefur oftar en ekki verið dreginn inn í umfjöllunina.
Til er hópur vantrúaðra Íslendinga sem hefur það að markmiði að „útrýma hindurvitnum“ eins og þeir kalla það. Af þeim upplýsingum sem sem finna má í orðræðu þeirra sjálfra þá eru hindurvitnin skilgreind sem: trúarbrögð, og lækningarleiðir sem ekki styðjast við vestræn læknavísindi.
Um er að ræða til þess að gera fámennan hóp „aðgerðarsinna“ sem vinnur eftir ótrúlega „dökkri“ hugmyndfræði í þeim tilgangi að vinna sínum málum brautargengi.
Stefna þessa hóps er að toga almenningsálit í þá átt, sem þeirra heimssýn liggur í. Þeir tala um að stýra „Overton“ glugganum … sjá „google“ leit um „Overton window„. Samkvæmt okkar heimildum styðst hópurinn við hinar 12 Aðgerðarreglur Saul Alinsky’s.

Hér er vísað til Vantrúar og orðræðan kemur beint frá Bjarna Randver Sigurvinssyni sem margir lesendur Vantrúar kannast við. Þarna eru endurteknar ranghugmyndir um Overton gluggann sem byggja ekki á neinu vitrænu. Það er þó rétt að félagið vill toga almenningsálit í átt að heimssýn þess, það á Vantrú sameiginlegt með öllum félögum.

Einnig er vísað til Saul Alinsky sem félagsmenn í Vantrú vissu ekkert um fyrr en Bjarni Randver skrifaði greinargerð í siðanefndarmálinu og bendlaði félagið við aðgerðarreglur kenndar við manninn. Það er fjarstæða að félagið styðjist við einhverjar reglur frá Saul, við höfðum aldrei séð þær áður en Bjarni Randver tók þær til umfjöllunar og sjáum þó ágætlega.

Þetta sýnir hvernig rakalausar vangaveltur svokallaðra fræðimanna geta alið á ranghugmyndum og fordómum gegn hópi fólks.

Ítök í fjölmiðlum

Eitthvað virðist Sjónarhólsfólk stórlega ofmeta ítök Vantrúar, en það er einnig kunnuglegt stef:

Þessi hópur, samkvæmt okkar upplýsingum, virðist eiga ítök í einhverjum frétta/blaða-mönnum hjá flestum stærri fjölmiðlum landsins, þar með talið RÚV.

Það væri óskandi að Vantrú hefði slík ítök. Vissulega hafa fjölmiðlar stundum tekið eftir umfjöllunum okkar og birt fréttir um félagið. Eins hefur Vantrú gagnrýnt umfjöllun fjölmiðla um hin ýmsu efni og komið hefur fyrir að okkur hefur þótt fjölmiðlar afbaka málstað félagsins og félagsmanna verulega.

Forsvarsmenn Sjónarhóls þurfa augljóslega að líta í eigin barm, þau voru sennilega blind á ruglið og sáu ekki lausnir á rekstrarvandamálum. Það er ekki Vantrú að kenna og auk þess er barnalegt að fókusa á okkur. Jafnvel þó félagið berjist gegn boðun hindurvitna og sé alfarið á móti því að aðilar prangi kjaftæði upp á fólk og hafi af því fé þá er sannleikurinn sá að við höfum aldrei haft sérstakan augastað á gleraugnaversluninni Sjónarhóli.

Eða hvað

Þó Vantrú hafi ekki fjallað um Sjónarhól og hafi engin ítök í fjölmiðlum sýnir þetta hugsanlega þau áhrif sem Vantrú hefur haft og þær breytingar sem hafa orðið á umræðunni síðan félagið var stofnað. Vantrú þarf ekki að gagnrýna allt kjaftæði lengur því aðrir sjá um það. Við þurftum bara að opna gluggann og hleypa ferska loftinu inn.

Ritstjórn 04.06.2015
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin , Vantrú )

Viðbrögð


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 09/06/15 08:26 #

"Forsvarsmenn Sjónarhóls þurfa augljóslegalíta í eigin barm, þau voru sennilega blind á ruglið og sáu ekki lausnir á rekstrarvandamálum."

Alveg yndislega vel orðað! ;)

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?