Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kirkjan sólgin í ungabörn

Mynd af barnaskírn

Hagstofan greindi frá því nýlega að meðlimir ríkiskirkjunnar séu í fyrsta skipti innan við 75% þjóðarinnar (73,8%). Ríkiskirkjubiskup, Agnes M. Sigurðardóttir, minntist á þennan vanda í ræðu á prestastefnu og lagði til lausn á vandanum:

Meðlimunum fækkar. Við því þarf að bregðast og það gerist ekki nema við virkjum samtakamáttinn. Þar skipta mörg smáatriði máli. Eitt þeirra er að öll börn sem eru borin til skírnar séu jafnframt skráð í þjóðkirkjuna.

Lausn biskups er semsagt að skrá fleiri ómálga börn í ríkiskirkjuna.

Biskup bendir einnig á að "margt ungt fólk kýs að láta ekki skíra börnin sín" og veltir fyrir sér hvort fólkið hafi ekki "nægan aðgang að upplýsingum um þýðingu skírnarinnar".

Við viljum fegin hjálpa til og upplýsa foreldra um hvaða þýðingu skírn barnanna þeirra hefur fyrir ríkiskirkjunna: Með henni getur hún reynt að græða peninga með því að skrá barnið ykkar í kirkjuna.

Þegar börn verða 16 ára fær kirkjan nefnilega ákveðna upphæð frá ríkinu fyrir hvert barn sem er skráð í ríkiskirkjuna. Hér er ekki verið að tala um barnastarf kirkjunnar, sunnudagaskólana eða kristilegu sumarbúðirnar. Það eina sem þetta gengur út á er að tryggja ríkiskirkjunni meira fé síðar í trausti þess að fólk sé of sinnulaust til að skrá sig úr ríkiskirkjunni.

Við hvetjum foreldra til að verja börnin fyrir ágangi kirkjunnar. Leyfum börnum að velja sjálf þegar þau hafa náð aldri og þroska. Kirkjuna hvetjum við til að snúa frá hugmyndum sem þessum og einbeita sér frekar að því að höfða til fullorðinna.


Upprunaleg mynd frá Christopher Michel og birt með CC-leyfi

Ritstjórn 21.04.2015
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Íslenskir biskupar )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/04/15 16:06 #

Ekkert kemur í veg fyrir að kirkjan skrái börn sem eru skírð til ríkiskirkjukristni í eigin félagaskrá. Þetta snýst nefnilega ekki um það, biskup vill að kornabörn séu skráð sem meðlimir hennar hjá ríkinu. Hún vill að í opinberum skrám séu börnin helguð kirkjunni svo peningarnir skili sér alveg örugglega í hirslurnar sextán árum síðar!

Þetta er auðvitað sturlað.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.