Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bragfræði Heilræðavísna Hallgríms Péturssonar

Mynd af Hallgrímskirkju

Hallgrímur Pétursson er eitt ofmetnasta skáld íslenskrar bókmenntasögu. Hann má eiga það að hafa ort snjallar tækifærisvísur, og þá helst um tóbak og brennivín, en hér verður ekki farið út í þá sálma. Hallgríms er helst minnst fyrir Heilræðavísur og fyrir Passíusálma. Hér verður fjallað um fyrrnefnda verkið. Látum liggja milli hluta að boðskapur hans sé jafnan stranglútherskur – hann á þær málsbætur að vera barn síns tíma og fulltrúi sinnar stéttar og kirkju.

Þetta er bragfræðileg úttekt. Ég get fyrirgefið margt, en bragfræðilegur sóðaskapur er óafsakanlegur. Þar er engin afsökun að þetta hafi verið í gamla daga og þá hafi kröfurnar verið aðrar. Nei, ef kröfurnar voru aðrar og menn sættu sig við lakari kveðskap, þá breytir það því ekki að hann hafi verið lakur. Ef hægt er að segja að eitthvað eitt einkenni okkar bestu skáld, þá hlýtur það að vera að yrkja góð kvæði.

Vera má að einhverjum finnist ég ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Það verður þá bara að hafa það. Tilgangur þessarar greinar er ekki að brjóta blað í sögu íslenskrar bókmenntagagnrýni, heldur að afbyggja hluta af þeirri helgislepjumynd sem hefur óverðskuldað verið dregin upp af Hallgrími.

1. erindi:
Ungum er það allra best
að óttast Guð, sinn herra,
þeim mun viskan veitast mest
og virðing aldrei þverra.

Þetta erindi er í góðu lagi bragfræðilega og orðalag eðlilegt. Hún nær því máli.

2. erindi:
Hafðu hvorki háð né spott,
hugsa um ræðu mína,
elska Guð og gerðu gott,
geym vel æru þína.

Hér ofstuðlar Hallgrímur bæði í fyrstu og þriðju línu. Deila má um hvort ‚hv‘ stuðli við ‚ha‘ og ‚há‘ – flestir Íslendingar bera ‚hv‘ jú fram sem ‚kv‘ – en vegna framburðarmunar fer illa á því að hafa ‚hv‘ í áhersluatkvæði í línu með ‚h‘-stuðlum og það ætti ekki að sjást í kveðskap. Þriðja línan inniheldur grófa ofstuðlun og er mikið lýti.

3. erindi:
Foreldrum þínum þéna af dyggð,
það má gæfu veita,
varast þeim að veita styggð,
viljirðu gott barn heita.

Þetta erindi er nánast í lagi bragfræðilega, en dálítið hnoð vegna óreglu í hrynjandi: fyrsta lína byrjar á hnígandi þrílið en þriðja á hnígandi tvílið. Það er ljótt en dugir ekki til að fella vísuna.

4. erindi:
Hugsa um það helst og fremst,
sem heiðurinn má næra;
aldrei sá til æru kemst.
sem ekkert gott vill læra.

Fjórða erindi er í góðu lagi bragfræðilega og má kalla það nokkuð snjallt.

Draghenda eða óstýfð ferskeytla?

Næstu fjögur erindi vefjast fyrir sumum, vegna hrynjandinnar. Við erum vön því að síðasta kveða í oddalínu í ferskeytlu sé stýfð, eins og í fyrstu fjórum vísunum. Hún er það ekki í fimmtu til áttundu vísu. Á mælikvarða nútímabragfræði mundi maður segja að þær væru þess vegna ekki ferskeyttar heldur draghentar. En viti menn, þannig var það ekki á tíma Hallgríms. Frá því seint á miðöldum og fram til um 1800 notuðu menn svokallað stoðhljóð, áherslulaust aukaatkvæði sem heyrist varla. Þannig að það sem lætur illa í brageyra nútímamanna þótti leyfilegt þegar Hallgrímur orti. Ég hef þennan fyrirvara fyrir sanngirnis sakir. Ég tel það samt sem áður lýti að hrynjandin sé ekki sú sama. Hvar liggja mörkin milli draghendu og óstýfðrar ferskeytlu? Er hægt að kalla það einrím (karlrím) þegar tvö tveggja atkvæða orð ríma en seinna atkvæðið heyrist ekki? Svarið við því fer eftir smekk, þegar öllu er á botninn hvolft. Ég hef hugboð um að þarna komi fyrst minni kröfur til skálda, og réttlætingin sé til komin eftir á. Ég get fallist á að bragfræðilega sé þetta álitamál og geti kannski verið réttlætanlegt, en smekkur minn segir samt að þetta hljómi ekki vel.

Það mætti kalla það málsbætur, ef Hallgrímur lagði upp með að hafa fyrst fjórar ferskeytlur, þá fjórar draghendur og loks eina ferskeytlu. En hitt er algengt, að fólk passi sig bara ekki á þessu, yrki bara af hjartans lyst og hirði ekki um svona misræmi. Kannski af því að það er smitað af því að hafa heyrt svona misræmi í vísum eins og Heilræðavísum? Ég get meira að segja játað að hafa staðið sjálfan mig að sömu mistökum þegar ég var aðeins yngri. En það var heldur ekki hægt að kalla þau bernskubrek neinn gullaldarkveðskap.

5. erindi:
Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum,
hinn er ei nema hálfur maður,
sem hafnar siðum góðum.

Fimmta erindi er í góðu lagi bragfræðilega, eins og það fjórða, ef álitamálið um misræmi í hrynjandi er ekki tekið í reikninginn. Hún stendur fullkomlegar undir sér ein og sér sem draghenda.

6. erindi:
Oft er sá í orðum nýtur,
sem iðkar menntun kæra,
en þursinn heimskur þegja hlýtur,
sem þrjóskast við að læra.

Þetta erindi er í góðu lagi bragfræðilega og ef erindin væru sjálfstæðar vísur næðu mundi það auðvitað ekki skipta máli þótt hrynjandin væri ekki sú sama. Boðskapurinn missir hins vegar marks. Eru ekki heimskir þursar einmitt háværir og ákafir í að útbreiða heimsku sína?

7. erindi:
Vertu dyggur, trúr og tryggur,
tungu geymdu þína,
við engan styggur né í orðum hryggur,
athuga ræðu mína.

Hér er frumstiklað innrím, sem prýðir vísuna. Einhver mundi segja að sama rím ætti að vera í öllum vísum sama kvæðis, en það er óþarfa krafa og á sér ekki stoð í hefð, þó hún sé að vísu smekksatriði og vel fari á að yrkja þannig. Það er þvert á móti góður siður að hafa dýrar kveðnar vísur seinna í kvæðinu - og þetta kvæði endar á þrem stiklum, sem er mjög vel við hæfi. Hrynjandi er hins vegar knosuð; of mörg áherslulaus aukaatkvæði.

8. erindi:
Lítillátur, ljúfur og kátur,
leik þér ei úr máta;
varast spjátur, hæðni, hlátur,
heimskir menn sig státa.

„Lítillátur“ er fjögurra atkvæða orð og myndar því tvær kveður sem báðar geta borið stuðla. Fyrsta línan er því ofstuðluð, með þrem áhersluatkvæðum sem byrja á ‚l‘. Þessi vísa er stikluð eins og 7. vísa auk þess sem er einstafað samrím í enda allra línanna. Þannig að ofstuðlun er eina verulega lýtið á vísunni sjálfri.

9. erindi:
Víst ávallt þeim vana halt:
Vinna, lesa, iðja;
umfram allt þó ætíð skalt
elska Guð og biðja.

Þetta erindi er jafnljótt og 2. erindið, eða ljótara vegna þess að ofstuðluninni verður ekki afneitað með því að bera fyrir sig framburð heldur er hún óumdeilanleg:. ‚v‘-ið í ‚ávallt‘ er þriðji stuðull í fyrstu línu, sem er ofaukið, og þrír sérhljóðar stuðla í þriðju línu og einum þeirra líka ofaukið. Frumstiklurím er að vísu prýði, en bætir ekki fyrir ofstuðlunina.

Niðurstaða: Heilræðavísur eiga snjalla spretti en eru plagaðar af ljóðlýtum og innra misræmi í hrynjandi. Það er ekki í lagi, alla vega ekki frá hendi manns sem er talinn til höfuðskálda. Það mætti laga þær til að slípa af þeim lýtin, en ég mun ekki gera tilraun til þess hér. Einkunn: 7.

Passíusálmarnir eru á köflum líka óttalegur leirburður, bölvað hnoð, þótt eiginleg braglýti séu ekki alveg eins tíð og í Heilræðavísum. Vera má að ég geri þeim skil síðar.


Upprunaleg mynd frá Helga Halldórssyni og birt með CC-leyfi.

Vésteinn Valgarðsson 03.04.2015
Flokkað undir: ( Hallgrímur Pétursson )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?