Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er Jón Gnarr hestur?

Mynd af hesti

Ein undarlegustu viðbrögðin við ágætri grein Jóns Gnarrs um tilvistarleysi guðs var grein Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins. Samkvæmt honum "mætti gjarnan" flokka Jón Gnarr sem kristinn, þrátt fyrir að Jón Gnarr trúi augljóslega ekki á tilvist guða og að Jón Gnarr vilji sjálfur sennilega "ekki láta kalla sig kristinn mann".

Skilgreining framsóknarmannsins

Jón Sigurðsson vill flokka Jón Gnarr sem kristinn einstakling af því að Jón Gnarr “samþykkir kærleiksboðið" sem Jesú á að hafa boðað.

Er maður kristinn ef maður trúir ekki á tilvist guðs en vill almennt vera góður við fólk?

Orð eru algerlega sköpunarverk mannanna, þannig að það er alveg hægt að skilgreina orðið "kristinn” þannig að það merki bara eitthvað í líkingu við "maður sem vill vera góður við annað fólk".

Á sama hátt væri alveg hægt að skilgreina orðið "hestur" sem "spendýr". Jón Gnarr væri hestur samkvæmt þeirri skilgreiningu.

Gallinn við skilgreiningu Jóns Sigurðssonar og hestaskilgreininguna er sá að hingað til hafa orðin sem um ræðir alls ekki verið notuð á þennan hátt og þegar flestir nota þessi orð þá er þessi merking ekki notuð. Fólk mun því ekki skilja þig ef þú notar orðin svona.

Sem dæmi, þá væru allir góðviljaðir hindúar, múslímar og ásatrúarmenn í raun "kristnir", ef við notumst við skilgreininguna hans Jóns Sigurðssonar, en það talar enginn um þá sem kristna. Hvenær heyrðir þú til dæmis síðast talað um "kristna múslíma"?

Oftast virðist fólk vera að ræða um trú fólks þegar það kallar einhvern "kristinn". Sama gildir um "múslíma". Þess vegna heyrum við ekki talað um "kristna múslíma".

Þess vegna er maður sem hafnar grundvallaratriðum kristinnar trúar ekki kristinn.

Erum við öll framsóknarmenn?

Það hljómar líka afskaplega áróðurslegt að nota orð sem tengist heiti trúarbragðanna hans á alla þá sem aðhyllast einhverja jákvæða skoðun. Eins og þessi skoðun, sem einskorðast ekki við trúarbrögðin hans, sé á einhvern hátt sérstaklega tengd þeim eða frá þeim komin.

Fátækrahjálp er ein af fimm stoðum íslam. Jón Sigurðsson er væntanlega fylgjandi því að hjálpa fátækum. Mætti því ekki gjarnan flokka hann sem múslíma?

Í grunnstefnu Framsóknarflokksins er sagt að flokkurinn vilji "byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar". Ef þú ert sammála þessu, mætti þá ekki gjarnan flokka þig sem framsóknarmann?

Ég held að flest okkar séu sammála þessu atriði úr stefnu Framsóknarflokksins, en myndum samt ekki vilja fallast á það að við séum framsóknarmenn. Því orði fylgir nefnilega vanalega meira en bara samþykki við þetta eina atriði.

Á sama hátt fylgir kristni almennt meira en bara góðmennska eða náungakærleikur. Kristni fylgja alls konar vandræðaleg hindurvitni.

Fólk sem trúir ekki á þessi hindurvitni kristinnar trúar er ekki kristið í venjulegum skilningi þess orðs.


Upprunaleg mynd frá Christine Zenino og birt með CC-leyfi.

Hjalti Rúnar Ómarsson 16.03.2015
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


sigmundur - 17/03/15 05:18 #

Ef veggur eru dyr og ad fljúga ad labba þá flyg ég í gegnum veggi wiiiiiiiiii

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.