Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ekki skjóta sendiboðann

Mynd merki póstsins

Nýlega lenti ég á spjalli um rökræðulistina. Þar minntist ég á skrif tiltekinna einstaklinga um Vantrú og tilsvör þeirra í okkar garð þegar háskólamálið stóð sem hæst. Ég talaði um hvernig þetta fólk hefði einatt hatterað okkur háðslega, ekki síst þegar bent var á rangfærslur í skrifum þess. Ætlun mín var að benda á þann annmarka rökræðunnar þegar fókusinn er tekinn af því sem til umræðu er og í staðinn farið að gera lítið úr viðmælandanum með spotti og yfirlætislegum hroka. Ég tók líka fram að ég hefði fylgst með skrifum þessa fólks áður en háskólamálið kom upp og fundist þau oft og tíðum bæði skynsamleg og rökvís.

Viðmælandi minn benti mér á að mörgum þætti það sama eiga við um skrif mín. Ég kom alveg af fjöllum, því ég kannast ekkert við að beita þeim brellum sem þetta fólk gerði sig sekt um, heldur reyni að færa rök fyrir máli mínu, forðast ósanngirni og að gera lítið úr fólki.

Ég hugsaði um þetta í nokkra daga og á endanum skildi ég vandann. Hann er sá að fólk upplifir skrif mín þannig að þau séu harkaleg og óþægileg. En harkaleg, rökföst skrif sem koma óþægilega við fólk þurfa ekki á nokkurn hátt að vera á sama báti og háðsglósur og niðrandi yfirlæti. Hið fyrra er málefnalegt, hið síðara ekki.

Þetta snýst um réttmæti fullyrðinga og gæði röksemdafærslunnar sem liggur fullyrðingum til grundvallar. Spurningin er einfaldlega sú hvort hin harkalegu og óþægilegu skrif séu sönn eða ósönn. Ef skrif mín eru ósönn ætti að vera auðvelt að hrekja þau, tefla fram rökum sem hrekja mín. En séu skrif mín um málefnið sönn er það ekki mitt mál hvort þau virki óþægilega á fólk og því finnist þau harkaleg. Séu þau sönn þarf að bregðast við sannleikanum á einhvern annan hátt en skjóta sendiboðann niður með háðsglósum, yfirlæti og niðrandi athugasemdum.

Skrif sem innihalda sannindi geta auðvitað stuðað fólk og komið óþægilega við það, sér í lagi ef þau vega að heimsmyndinni í huga þess. Sé ekki vilji til að laga heimsmyndina að því sem sannara reynist, en um leið engin rök til sem hægt er að nota sem mótbárur, þá vilja menn oft detta í þessa leiðu gryfju. Þá nota menn ísmeygilega hæðni, gera lítið úr andstæðingnum og upphefja sig á þeim forsendum að viðmælandinn sé bara öfgafull manneskja og ofstækisfull. Þegar skrifin hafa síðan stuðað nægilega marga sem ekki vilja láta ýta við heimsmyndinni verður kórinn sem syngur um öfgar og ofstæki svo sterkur að þetta endar sem almennnt viðhorf. Það helgast helst af því að flestir nenna ekki að setja sig inn í málin, heldur kjósa að stökkva bara á vagninn þegar málsmetandi fólk syngur öfgasönginn.

Nú hefur þessi öfgasöngur um Vantrú og fólkið sem þar skrifar hljómað svo oft og svo lengi að þetta er að verða þjóðsöngur. Afleiðingin er sú að við sem verðum stöðugt fyrir þessu hættum að nenna að taka þátt í umræðunni, jafnvel þótt okkur finnist hún vera alveg úti á túni. Það er synd, því rödd okkar er mikilvæg í samfélagsumræðunni og mörg eru þau sannindin sem við höfum bent á, fengið bágt fyrir, en verða síðan að almennum viðhorfum og jafnvel stefnu. Ég mælist til þess að fólk hætti að draga fram öfgasvipuna öllum stundum, hætti að hengja sendiboða harkalegra tíðinda. Umræðan á það skilið.


Upprunaleg mynd frá Bowen Murphy og birt með CC-leyfi.

Birgir Baldursson 11.03.2015
Flokkað undir: ( Háskólinn , Vantrú )

Viðbrögð


Kjerúlf. - 11/03/15 20:44 #

Margir minnast nú þeirrar skammar sem Vantrú kallaði yfir sig í Bjarna Randvers málinu. Kemur frekar upp i hugann en annað hjá flestum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/03/15 20:53 #

Hvernig nákvæmalega kallaði Vantrú yfir sig skömm í því máli?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/03/15 23:48 #

Þótt Bjarni Randver og Guðni Elísson máli einhliða upp þá mynd að Vantrú hafi gert einhverja skömm, þá er það ekki þar með orðið að einhverri staðreynd. Hefurðu kynnt þér okkar hlið?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?