Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nei, þú ert ekki sjálfur GuðJón

Mynd af sekkjum

Það hefur óneitanlega verið hjákátlegt að fylgjast með viðbrögðum við grein sem Jón Gnarr skrifaði í Fréttblaðið þar sem hann segist ekki trúa á guð.

Það hefur vart mátt opna dagblað eða detta inn á vefsíðu án þess að rekast á greinar frá prestum og/eða öðrum talsmönnum kirkjunnar sem hafa mikla þörf fyrir að segja Jóni að hann sé nú bara samt trúaður.

Kannski er þetta ný tegund af trúboði, ef ekki er hægt að fá fólk til að trúa, þá er bara að endurskilgreina hvað það er að vera trúaður.

En þetta yfirlæti og virðingarleysi fyrir skoðunum annarra er svo sem ekkert nýtt fyrir okkur sem höfum vogað okkar að lýsa yfir trúleysi. En það er skondið að sjá viðbrögðin dregin saman í einhvers konar „pilluformi“. Það eru nokkrir rauðir þræðir í þessari umræðu.

Þú trúir nú bara samt á GuðJón

Þetta er svona hálf (eða reyndar alveg) galin fullyrðing við mann sem er nýbúinn að segja að hann geri það ekki. Ekki dettur mér í hug að segja við trúaða vini mína að þeir séu nú bara víst trúlausir.

Þú verður bara að finna þinn eigin GuðJón

Þetta er viðkvæði þeirra sem segja að ekki megi túlka trú á guð eins þröngt og trúarbrögðin gera, guðinn sé nú bara eitthvað óáþreifanlegt, óljóst, óskilgreint, þokukennt fyrirbæri sem hver geti haft eins og hann eða hún kýs. Kannski er þetta einhvers konar flótti þeirra sem eru þó nægilega skynsamir til að sjá hversu illa mörg trúarritanna standast nokkra skoðun en geta ómögulega sætt sig við að afgreiða málið einfaldlega þannig. Fyrir mörg okkar sem erum trúlaus þá er auðvitað enginn tilgangur í óskilgreindu og óljósu fyrirbæri. Kannski er þetta ekki bara eins og að kaupa köttinn í sekknum heldur frekar líkt því að kaupa sekk og hafa ekki einu sinni hugmynd um hvað á að vera í honum – eða ætla sér að skilgreina eftir hentugleikum.

Þú ert nú auðvitað fylginn við KristJón

Svo eru þeir sem halda því fram að vegna þess að margir trúlausir reyni nú (eftir bestu getu) að fylgja siðferðilegu viðmiðunum sem kristnir hafa flestir tileinkað sér þá séu þeir þar af leiðandi kristnir. Gallinn við þetta er að flestar þessara kenninga eru miklu eldri en kristnin og það er vel hægt að tileinka sér þær án trúar á yfirnáttúruleg öfl. Það er vissulega rétt að margir kristnir hafa tekið jákvæðan siðferðisboðskap og gert að sínum, en það er ekki sérkenni kristninnar og greinir hana á engan hátt frá mörgum öðrum lífsskoðunum.


Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu

Upprunaleg mynd frá Seema K K og birt með CC-leyfi.

Valgarður Guðjónsson 03.03.2015
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 04/03/15 00:32 #

Það sést vel hvað svona tal er á miklum villigötum ef maður segir, með sömu rökum, að fólk sem segist sjálft vera kristið aðhyllist í raun zóróastrisma eða búddisma eða bahaíisma eða einhver önnur trúarbrögð.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.