Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guð er ekki til

Mynd af Jóni Gnarr

Hugmyndin um Guð hefur verið mér hugleikin frá því ég var barn. Foreldrar mínir voru ekkert sérstaklega trúaðir. Fyrir mömmu var trú félagsleg siðvenja. Skírn, ferming, gifting osfrv. hafði fyrst og fremst veraldlegan og félagslegan tilgang. Hún lagði til dæmis mikla áherslu á að ég fermdist en ræddi aldrei trúmál við mig og aldrei heyrði ég hana ræða þau við aðra.

Pabbi var trúleysingi og hafði gaman af að gera góðlátlegt grín af trúmálum. Fátt fannst honum skemmtilegra en að bulla og þræta í prestum. En amma mín var guðhrædd. Hún kenndi mér að biðja Faðirvor og signa mig á morgnana. Hún fullvissaði mig líka um að Jesú væri alltaf að fylgjast með mér, passa mig og pæla í mér. Allt sem gerðist í heiminum væri ákveðið af Guði. Mér fannst þetta notalegt en ég held það hafi haft meira með ömmu að gera en þá himnafeðga. En mér fannst gott að vita til þess að Jesú væri vinur minn.

Eftir að amma dó missti ég þetta samband við Guð og Jesú, hætti að biðja og hugsaði ekki mikið um þetta. Svo þegar ég gerðist pönkari og byrjaði að lesa mér til um anarkisma og fleira þá komst ég á þá skoðun að trúarbrögðin væru einungis frumstæð hjátrú sett fram í þeim tilgangi að reyna að svara hinstu spurningum lífsins með uppspuna og fullyrðingum frekar en rökum.

Trúarbrögð gátu líka verið öflugt stjórntæki til að stjórna fólki, jafnvel heilu þjóðunum. Trúarbrögðin voru íhaldssöm og ströng og andsnúin sköpunargleði, húmor, kynlífi og allflestu sem mér fannst gefa lífinu gildi. Og þau kúguðu jafnvel. Þau gerðu lítið úr konum sem einhvers konar annars flokks manneskjum. Og þau útskúfuðu samkynhneigðum. Það gat ég ekki fallist á. Ég snérist því til trúleysis eða lífs án trúar. Ég hélt samt alltaf í hugmyndafræði mömmu um skírnir og fermingar, giftingar og svoleiðis, ekki síst til að halda friðinn við hana og fleira fólk í kringum mig.

Fólk má trúa á stokka og steina fyrir mér

Það var svo á fullorðinsárum þegar ég var kominn að ákveðnum krossgötum í lífinu; félagslega, andlega, fjárhagslega og líkamlega uppgefinn og áttavilltur að ég ákvað að leita hjálpar. Ég fór í 12 spora samtök. Það voru þung skref. Þar viðurkenndi ég að ég hefði misst stjórn á lífi mínu og væri til í að gera allt sem til þyrfti til að öðlast heilbrigt líf. Lykillinn að því var Guð. Ég ákvað því að taka Guð inní líf mitt og fá hann í lið með mér, ekki síst til að mylja úr mér hroka, ótta og reiði.

Þetta gagnaðist mér ágætlega að mörgu leiti. Ég gerði einlæga og heiðarlega tilraun til að verða trúaður. Ég sökkti mér í lestur trúarrita og bænalesturs, sótti messur að minnsta kosti einu sinni á dag og las Biblíuna frá upphafi til enda. Það var þung og leiðinleg lesning. Ég fór meira að segja og dvaldist í klaustri á Englandi um tíma til að uppfræðast af munkunum. En eins mikið og ég þráði að trúa þá gat ég það ekki. Mér var það fyrirmunað. Hugmyndin um persónulegan guð gengur gegn minni heilbrigðu skynsemi og upplifun og skilningi á heiminum.

Ég er að verða fimmtíu ára. Og eftir að hafa verið beggja vegna borðs, í þessum málum, þá sýnist mér ekkert benda til þess að guð sé til. Ég hef leitað en ekkert fundið. Ef hann er til þá er hann ekki að standa undir nafni og ekki sá guð sem við höldum að hann sé. Ég get ekki fallist á það að hann sé eitthvað sérstaklega kærleiksríkur. Eiginlega þvert á móti. En ég viðurkenni fúslega að það eru til öfl í alheimi sem við höfum ekki náð að skilja. Enginn veit með vissu hvað gerist eftir dauðann til dæmis. Ég virði rétt fólks til að hafa hverjar þær skoðanir sem því sýnist í trúmálum. Fólk má trúa á guð í alheimi eða stokka og steina fyrir mér. Svo framarlega sem það heldur því fyrir sig.

Mér finnst allt í lagi að þiggja góð ráð og heilræði frá andaverum en um leið og þær fara að setja mér einhverjar reglur um daglegt líf mitt þá kýs ég að hlusta ekki og hef fullan rétt á því.

Engar risaeðlur í Biblíunni

Flestar framfarir í heiminum eru tilkomnar vegna mannvits, samvinnu og vísinda og oftar en ekki í andstöðu við trúarbrögðin. Vísindin hafa útskýrt alheiminn, leiðrétt rangfærslur trúarbragðanna og jafnvel opnað okkur heim sem guð hefði aldrei órað fyrir að væri til. Það er til dæmis ekkert minnst á risaeðlur í Biblíunni. Vísindi og trúarbrögð eru því oft andstæður þar sem vísindin eru sannleikur en trúarbrögðin ágiskun. Vísindin hafa velt trúarbrögðunum af þeim stalli sem þau voru á. Ein helsta fyrirstaða læknavísindanna til að bæta heilsu og bjarga mannslífum er og hefur verið trúarkreddur ýmiskonar. Þetta á því miður líka við um mannréttindi.

En það hefur líka margt gott verið gert í nafni trúarbragða og margt gott fólk sem starfar innan þeirra að góðum málum. Trú getur verið ágæt til persónulegra nota. Soldið eins og typpi. Það er gott að vera ánægður með það og finnast það flottasta og besta typpi í heimi. Það má bæði hafa gagn og gaman af því. En ekki tala mikið um það við ókunnuga eða troða því uppá fólk. Ekki skrifa lög með því. Og mikilvægast af öllu: ekki hugsa með því. Góðar stundir!


Birtist upphaflega í Fréttablaðinu og er birt hér á Vantrú með góðfúslegu leyfi höfundar.

Upprunaleg mynd frá Helga Halldórssyni og birt með CC-leyfi.

Jón Gnarr 02.03.2015
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð


Guðjón Eyjólfsson - 02/03/15 21:02 #

Ég tel að trúarafstaða byggi á matsatriðum sem hver og einn verði sjálfur að taka afstöðu til á eigin forsendum og samkvæm eigin samvisku. Það er að mínu mati mikil misskilningur að vísindin geti svarað trúarlegum spurningum vegna þess að þau fjalla einungis um þann hluta sannleikans sem hægt er að mæla eða skilja jarðneskum skilningi. Hvernig geta menn fullyrt með vissu að hægt sé að ná utan um sannleikan allan með mannlegum skilningi Sannleikurinn skýrir alla hluti og fyrirbæri alheimsins og mannlífsins, en skilningi manna eru takmörk sett. Þetta þýðir vitaskuld ekki að vísindi skipti ekki máli eða við eigum að vera andsnúin vísindum. Þvert á móti, því við eigum vísindum og tækni svo sannarlega mikið að þakka því nútíma líf væri óhugsandi án þeirra.
Við getum að mínu mati notið þess góða sem vísindi, skynsemi og heimspeki hafa uppá að bjóða án þess að hafna trú. Hlutverk trúar er fyrst og fremst að gera okkur að betri mönnum og gefa okkur svör um tilgang og merkingu. Mjög miklu máli skiptir að við séum umburðalynd i trúmálum og leitist við að lifa í sátt og samlyndi við alla menn hvað trúarskoðanir sem þeir hafa og þar undanskil ég ekki trúleysi. Ég hef leitast við að kynna mér heimspeki og vísindi, einkum eðlisfræði og hugmyndir vísindamanna um hina vísindalegu heimsmynd. Ég fæ ekki betur séð en öll vísindaleg þekking sé óvissu háð þar sem sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að vísindamenn verði að endurskoða í grundvallar atriðum vísindi sín, ef niðurstöður tilraunum sýn endurtekið að þær stangast á við ríkjandi kenningar. Það sem setur mannlegri skynsemi takmörk er meðal annars að við höfum takmarkaða möguleika á að skilja það sem er utan reynslusvið okkar. Miklihvellur er dæmi um slík atriði enda er ástæða þess að hugmyndin um hann er almennt viðurkennd ekki sú að almenningur skilji það fyrirbæri, heldur mikið fremur sú að vísindamenn hafa í krafti þess að þeir hafa náð ótrúlegum árangri er treyst og tekið mark á því sem þeir segja.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 06/03/15 23:01 #

Auðvitað er þetta fyrir hvern og einn.. og í ljósi þess skondið að fylgjast með hversu margir þurftu að reyna að sannfæra Jón um að hann hefði allt aðra skoðun en hann hefur.

En það er kannski enginn að fullyrða að hægt sé að ná utan um allan sannleikann.. heldur erum við mörg á þeirri skoðun að aðferðir vísindanna séu þær bestu sem við eigum kost á til að afla þekkingar. Hversu langt það nær vitum við einfaldlega ekki enn. En að sama skapi þykir okkur lítill fengur í vangaveltum um yfirnáttúrlegar verur, hvers eðlis sem þær eiga að vera. Ef eitthvað er verður það til trafala eins og dæmin sanna, þar sem til að mynda mörg trúarbragðanna standa gegn þekkingarleit.

Þá er heldur ekki mikill akkur í yfirnáttúru til að reyna að verða betri eða gefa lífinu tilgang eða merkingu..


Guðjón Eyjólfsson - 07/03/15 10:55 #

Sæll Valgarður Ég er sammála þér um að auðvita hefur engin rétt til að eigna Jón skoðun sem hann kærir sig ekki um. Það er líka rétt hjá þér að vísindamenn er flestir á því að besta leiðin til þess að afla þekkingar sé hin vísindalega aðferð, en deilan stendur frá mínum bæjardyrum séð um hvers eðlis sú þekking er. Ég held því fram að niðurstöður vísinda séu ekki allur sannleikurinn og að sá möguleiki sé fyrir hendi að það verði að endurskoða túlkunina á niðurstöðunum vegna annarra rannsókna framtíðinni. Þú sækir rök til vísindanna og þinnar túlkunar á þeim og hafnar trú. Til þess hefur þú fullt frelsi. Ég túlka eðli vísindalegar þekkingar með öðrum hætti en þú gerir og tel að trúariðkun sé gagnleg fyrir mig. Þessi ágreiningur okkar byggir á ólíkri heimsmynd og ólíkum forsendum. Um slík mál má deila í hið óendanlega án niðurstöðu.
Megin atriði er að í frjálsu þjóðfélagi er ekki til nein hæstiréttur um réttmæti persónulegra skoðana. Þess vegna geta menn haft hvaða skoðun sem er og þeim ber engin skylda til þess að rökstyðja skoðanir sýnar frekar en þeir vilja. Á þessum grunni starfa trúfélög


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 07/03/15 18:38 #

já, ég held að við getum að miklu leyti verið sammála.. mér er slétt sama um hvort fólk hefur önnur viðhorf til lífsins en ég - það sem ég kann ekki að meta er þegar fólk vill þröngva þeim viðhorfum upp á mig [td. í formi trúboðs], láta mig standa straum af kostnaði við þessi viðhorf [eins og við þurfum að gera fyrir ríkiskirkjuna] eða réttlætir voðaverk með tilvísun í trú.

og það sem ég var kannski að benda á er að þó vísindin hafi ekki svör við öllu þá erum við nokkuð mörg sem finnum litla viðbót í nálgun trúarbragðanna.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?