Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

1934: Kaþólskur stjórnmálamaður bannar trúleysingjafélög

Mynd af mönnum í félagi kristinna nasista

Það er vinsælt hjá klerkum landsins að reyna að sverta trúleysi með því að fullyrða þvert á allar heimildir að Adolf Hitler hafi verið trúlaus og að nasisminn hafi verið trúleysishreyfing. Áður fyrr var annar hljómur í kristnum mönnum, eins og má sjá í greininni Örlagaríkir tímar.

Greinin er eftir guðfræðinginn “V. Skagfjörð" og birtist árið 1934 í tímaritinu Kristniboðanum sem var gefið út af “Kristniboðsfélögunum í Reykjavík". Greinin er væntanlega þýdd úr dönsku eða norsku.

Á þessum tíma hafði Mussolini ríkt á Ítalíu í rúman áratug en Hitler hafði einungis sitið við völd í eitt ár og kristni höfundur greinarinnar gæti ekki verið ánægðari með þá:

Í þessu sambandi má geta þess, að evangeliskur kristindómur hefur unnið mikið á í kaþólskum löndum síðari árin, þrátt fyrir afarmikla erfiðleika. Það hefir einnig vakið mikla eftirtekt, að ýmsir kaþólskir stjórnmálamenn hafa sýnt evangeliskum kristindómi vinarhug, eins og t.d. bæði Hitler og Mussolini.

Svo er rætt um hvað annar "kaþólsku stjórnmálamannanna" hafði komið til leiðar:

Þessi guðleysishreyfing hefir að vísu fengið mikinn hnekki í Evrópu á s.l. ári, þar sem þýzka guðleysingjasambandið, sem var talið lang-öflugasta og bezt skipulagða deild alþjóðasambandsins, var leyst upp skömmu eftir valdatöku Adolfs Hitlers. Og skömmu síðar samþykkti austuríska þingið lög, sem bönnuðu félagskap guðleysingja þar í landi. Geta má þess einnig, að norks Stórþingið samþykti á s.l. vetri lög þess efnis, að herða á þeim fyrirmælum stjórnarskrárinnar, sem leggja refsingu við guðlasti.

Væntanlega hefur fáum dottið í hug á þessum tíma að nasistaflokknum hafi verið hlýtt til trúleysis og trúleysingja.


Upphafleg mynd er frá þjóðskjalasafni Þýskalands og er birt með CC-leyfi

Ritstjórn 28.02.2015
Flokkað undir: ( Baksýnisspegillinn )

Viðbrögð


Jón Valur Jensson - 02/03/15 04:54 #

Illa upplýstur var Valgeir Skagfjörð um Hitler árið 1934, það er augljóst.

Margar heimildir eru fyrir því, að viðhorf Adolfs Hitlers í trúarefnum voru allt annað en kaþólsk -- hann var tiltölulega snemma búinn að hafna kaþólsku trúarviðhorfi. Tökum hérna tvær heimildir frá hans nánustu:

Paula hét systir Hitlers. Í langri grein, 'Paula Hitler segir frá bróður sínum', sem birt var í íslenzkri þýðingu Margrétar Jónsdóttur í Lesbók Mbl. 16. maí 1965, bls. 1 og 12, segir hún m.a. (s.12, 1. dálki):

  • "Bróðir minn [Adolf] og ég vorum alin upp í kaþólskri trú, en hann var alltaf mjög fjandsamlegur kenningum kirkjunnar, sem hann sagði, að væri aðeins fyrir þræla."

Ekki ber þetta vitni um, að kristin, kaþólsk trú hafi mótað viðhorf þessa grimma einræðisseggs né að hann hafi viljað veg hennar sem mestan eða kosið að fylgja henni eftir í "siðferði" sínu

Traudl Junge hét ritari 'foringjans' frá 1942 allt til stríðsloka. Minningar hennar, Til hinstu stundar. Einkaritari Hitlers segir frá, om út í íslenzkri þýðingu Arthúrs Björgvins Bollasonar árið 2004. Þegar hún snæddi með Hitler, segir hún (bls. 144, leturbr. JVJ), að stundum hafi spunnizt

  • "...forvitnilegar samræður um kirkjuna og þróun mannkyns. Samræður er kannski ekki rétta orðið, því þegar einhver okkar varpaði fram spurningu eða kom með athugasemd, þá hóf hann að útlista hugmyndir sínar og við hlustuðum. Hann hafði engin tengsl við kirkjuna, heldur leit hann svo á að kristindómur væri úrelt fyrirbæri sem byggðist á hræsni og viðleitni til að drottna yfir fólki. Hans eigin trúarbrögð voru náttúrulögmálin. Það var auðveldara fyrir hann að samræma þau að ofbeldisfullum kreddum sínum en kristilegan boðskap um náungakærleik. "Vísindin hafa enn ekki getað svarað því til fulls, hver sé uppruni mannkynsins. Við erum að öllum líkindum æðsta þróunarstig einhvers spendýrs, hugsanlega frá apa til manns. Við erum hluti af sköpunarverkinu og börn náttúrunnar og sömu lögmál gilda fyrir okkur og aðrar lífverur. Og í náttúrunni hefur baráttulögmálið alltaf verið ríkjandi. Öllu því sem er veikt og vanhæft til að lifa, er eytt." Það er fyrst með tilkomu mannsins og umfram allt kirkjunnar sem menn setja sér það markmið að halda lífinu í því sem er veikt, vanhæft til að lifa og minni máttar."
  • "Það er leitt að ég skuli einungis muna brot úr þessum kenningum og að ég skuli ekki geta sett þær fram með jafn miklum sannfæringarkrafti og Hitler hafði þær yfir okkur," segir Traudl Junge í beinu framhaldi.

Þarna sjá menn nú eitthvað annað en kristna trú hjá þessum skaðræðismanni, einum þriggja mestu fjöldamorðingja 20. aldar.

Q.e.d.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 02/03/15 10:55 #

Jón Valur, var hann ekki skírður og fermdur? Var nokkuð búið að reka hann úr kaþólsku kirkjunni árið 1934?

Þarna sjá menn nú eitthvað annað en kristna trú hjá þessum skaðræðismanni,...

Jafnvel þó svo að þessar athugasemdir einkararitarans um skoðanri Hitlers árið 1942 séu réttar, þá þýðir þetta alls ekki að Hitler hafi hafnað kristinni trú.


Jón Valur Jensson - 02/03/15 13:45 #

Þú ert fyndinn, Hjalti minn –– hengir þig í það, að líklega hafi Hitler verið skírður og fermdur!!!

Hvernig er það með þig ... og hann Matta og Tómas Daða, Birgi og Þórð Ingvarsson o.fl. –– eruð þið ekki allir skírðir og fermdir?!


Tómas Daði Halldórsson - 02/03/15 14:06 #

Ég er reyndar ekki fermdur.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 02/03/15 14:08 #

Jón Valur: Þegar þú talar um fjölda kristinna einstaklinga á Íslandi eða fjölda kaþólikka á Íslandi, dugar það þá þér ekki vanalega að viðkomandi sé skírður, fermdur og meðlimur í kirkju?

Gildir kannski einn mælikvarði hjá þér þegar þú vilt gera sem flesta kristna, og annar þegar þú ræðir um Hitler?


oddur - 02/03/15 14:52 #

http://en.wikipedia.org/wiki/No_true_Scotsman

og með sömu rökum og JVJ má auðvitað sjá að viðkomandi var ekki trúlaus. Enda eru þetta heimskuleg rök.

###

það sem er engu að síður merkilegast við þetta allt er að fylgismenn Hitlers voru allir meira og minna Kristnir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/03/15 14:55 #

Ég er reyndar ekki Hitler.

Fjallar þessi grein ekki annars um hann?

Nógu oft vilja krossmenn halda því fram að nær allt í umhverfi mínu og menningu sé kristið eða kristni að þakka.


Jón Valur Jensson - 02/03/15 15:56 #

Ég þakka þér aftur kærlega skemmtunina, Hjalti. En svo spyrðu mig: "Þegar þú talar um fjölda kristinna einstaklinga á Íslandi eða fjölda kaþólikka á Íslandi, dugar það þá þér ekki vanalega að viðkomandi sé skírður, fermdur og meðlimur í kirkju?"

Svar nr. 1: Á ég þá að telja ykkur Vantrúarmenn með?! (fyrir utan Tómas Daða og ugglaust fáa aðra).

Svar nr. 2: Nei, það dugar mér ekki.

Svo mættuð þið nú hugleiða það í alvöru, hvort þið hafi ekki enn einu sinni ýtt úr hlaði vitlausu bloggi, sem gerði ekkert til að auka orðspor ykkar sem "upplýstra" manna (sbr. árásargreinina svæsnu á Móður Teresu, sem hefur verið marghrakin og er ykkur til háborinnar skammar).

Eða teljið þið ykkur vita betur um trúarafstöðu Hitlers heldur en systur hans og ritara hans?!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/03/15 15:59 #

Svar nr. 1: Á ég þá að telja ykkur Vantrúarmenn með?!

Ertu ekki vanur að gera það þegar þú réttlætir forréttindi kristninna trúfélaga á Íslandi? Finnst þér ekki alveg nóg að fólk sé skráð í kristin trúfélög. Það á reyndar ekki við um flesta í Vantrú, en fjölmargir á Íslandi eru skráðir í kristin trúfélög án þess að geta talist kristnir - eða hvað?

Eða teljið þið ykkur vita betur um trúarafstöðu Hitlers heldur en systur hans og ritara hans?!

Hvað kemur fram um skoðanir okkar á trúarafstöðu Hitlers í þessari grein? Ertu ekki örugglega vel læs Jón Valur?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 02/03/15 16:04 #

Svar nr. 1: Á ég þá að telja ykkur Vantrúarmenn með?! (fyrir utan Tómas Daða og ugglaust fáa aðra).

Það er nú ljóst að meðlimir í trúleysisfélagi eru ekki kristnir. Hitler var hins vegar leiðtogi stjórnmálalfokks sem skilgreindi sig með kristinn.

Og var Hitler ekki skráður meðlimur í kaþólsku kirkjunni?

Svar nr. 2: Nei, það dugar mér ekki.

Allt í lagi. Þannig að þegar við metum fjölda kristinna Íslendinga, þá er talan væntanlega eitthvað í kringum 50%, er það ekki?

Eða teljið þið ykkur vita betur um trúarafstöðu Hitlers heldur en systur hans og ritara hans?!

Það að kalla Hitler "kaþólskan" kemur nú frá guðfræðingnum sem ritaði greinina sem við fjöllum um hérna. Ég er alveg opinn fyrir því að Hitler hafi ekki verið kaþólskur, það fer auðvitað eftir því hvernig við viljum skilgreina það orð.


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 02/03/15 16:22 #

Jón Valur, um daginn sagðir þú þig vera kaþólikka eins og 1,2 milljarða manna. Hvað varstu þá að miða við?


Jón Valur Jensson - 03/03/15 00:19 #

Matti, greinilega hefurðu ekki lesið innlegg mitt kl.15:56 til enda. Það eitt dugar mér ekki, að menn séu skírðir og fermdir, til að telja þá (t.d. áratugum seinna) til kristinna manna. Kristnir eru þeir, sem hafa t.d. þetta tvennt og hafa ekki hafnað trú sinni, en halda sér við hana af meiri eða minni áhuga og segja sig ekki úr kristnu trúfélagi, hvort sem þeir mæta oft eða stundum eða sjaldan eða nær aldrei í kirkju, en leita þó gjarnan til hennar í viðlögum, leita t.d. skriftasakramentis eða síðustu smurningar, einnig um hjónavígslu sína og jarðarför og ekki sízt um skírn barna sinna.

Það er rétt hjá þér, Hjalti, að binda þig ekki við takmarkaðan skilning guðfræðingsins, sem vitnað var til í greininni (og V.Sk. var nú að fullyrða þetta 1934 og vissi ekki það sem við vitum nú, t.d. ekki um vitnisburð Paulu Hitler og Traudl Junge, ritara Hitlers), og rétt er hjá af að vera „alveg opinn fyrir því að Hitler hafi ekki verið kaþólskur,“ en hitt er rangt hjá þér að það „f[ari] auðvitað eftir því hvernig við viljum skilgreina það orð ['kaþólskur'],“ því að alveg er ljóst, að ekki var trú hans kaþólsk (hann fyrirleit kaþólska trú –– sennilega arfur frá Nietzsche), og enn síður var siðferði hans kaþólskt, það var ekki skárra en siðferði Leníns og Stalíns og annarra bolsévika!

Tómas, ég hef sama sem svarað þér með orðum mínum hér ofar í þessu innleggi.


Jón Valur Jensson - 03/03/15 00:22 #

Hér átti að standa: ... rétt er hjá þér að vera „alveg opinn ...


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 03/03/15 15:16 #

Kristnir eru þeir, sem hafa t.d. þetta tvennt [skírðir og fermdir] og hafa ekki hafnað trú sinni, en halda sér við hana af meiri eða minni áhuga og segja sig ekki úr kristnu trúfélagi,....

Samkvæmt þessu þá má léttilega flokka Hitler sem kristinn mann árið 1934. Hann var skírður og fermdur, hafði ekki sagt sig úr kristnu trúfélagi og hafði ekki hafnað kristinni trú sinni (sem dæmi þá var hann leiðtogi kristilegs stjórnmálaflokks).

...að alveg er ljóst, að ekki var trú hans kaþólsk...

Ef þú vilt bara flokka "sanntrúaða" kaþólikka sem kaþólikka þá er alveg ljóst að það eru ekki 1,2 milljarður manna kaþólskir í heiminum. Þú getur ekki bæði sleppt og haldið.


Jón Valur Jensson - 04/03/15 04:32 #

Langt gengur hann barningurinn hjá þér, Hjalti ! Við skulum nú sleppa þessu með fjölda sannra kaþólikka, það er Guð sem þekkir hjörtun, en hvorugur okkar. Málið með þennan vefþráð er hins vegar vitaskuld efni greinarinnar og það hvernig þið finnið einhverja sefasjúka ánægju í því að bera það upp á kaþólskuna, að Adolf Hitler hafi (jafnvel eftir valdaránið) verið „kaþólskur stjórnmálamaður“!!!!!

Og nú bætirðu gráu ofan á svart með því að halda fram þeirri firru, að Hitler hafi verið „leiðtogi kristilegs stjórnmálaflokks“ !!!!!!!!!!!!!!!!!

Kristilegur var nazistaflokkurinn jafnvel enn síður en þið Vantrúarmenn.

Er ekki kominn tími á það, að þið hættið að birta hér ruglgreinar og að anza mönnum út í hött, eins og þú gerðir hér, og jafnvel með ófyrirleitnum skætingi, eins og á vefslóðinni blöskranlegu um Móður Teresu?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 04/03/15 11:02 #

Jón Valur, eins og ég hef sagt hérna áður, þá er ég alveg opinn fyrir því að Hitler hafi ekki verið kaþólskur. Og eins og ég sagði þá fer það eftir því hvernig við skilgreinum "kaþólskur". Fullyrðingin í fyrirsögninni kemur frá guðfræðingnum sem skrifaði greinina, svona eins og í baksýnisspegilnum "1931: Júðinn kúgar Aría" erum við ekki að halda því fram að "Júðinn" sé í alvöru að kúga "Aría", heldur var það fullyrðing Sigurbjörns Einarssonar.

Og nú bætirðu gráu ofan á svart með því að halda fram þeirri firru, að Hitler hafi verið „leiðtogi kristilegs stjórnmálaflokks“ !!!!!!!!!!!!!!!!!

Í stefnuskrá nasistaflokksins var tekið fram að flokkurinn studdi "jákvæðan kristindóm" og væri gegn "gyðinglegri efnishyggju" (atriði 24).


Jón Valur Jensson - 08/03/15 02:36 #

Ég get bara mælt með því við þig, Hjalti, að þú reynir að kynna þér (rétt eins og ég þarf sjálfur að gera í meira mæli en ég hef gert) árásir national-sósíalista á Biblíuna,* sem og, hvernig Hitler og þessir sömu nazistar hans lokuðu öllum kaþólskum skólum í Austurríki eftir innlimun þess lands í Stór-Þýzkaland í apríl 1938 og þögguðu niður alla kaþólska andstöðu. Í lokaaðgerð sinni í þessu skyni réðust þeir jafnvel á erkibiskupsbústað Innitzers kardínála, sem þó hafði í fólsku eða flónsku sinni upphaflega tekið þátt í að fagna því, að löndin væru sameinuð, en gekk þó, er hann hafði betur áttað sig, fremstur í mótmælagöngu gegn nazistum.

* Sbr. t.d. Pierre Ayçoberry (franskur sagnfræðiprófessor í nútímasögu í Strassborg), The Social History of the Third Reich, 1933–1945 (ensk þýð. úr upphafl. frönsku útgáfunni 1998), N.Y. 1999, s. 124.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 08/03/15 18:38 #

Það að hinn svokallaði "jákvæði kristindómur" hafi "ráðist á" biblíuna (væntanlega ertu að tala um að þeir vildu hreinsa hana af því sem þeir töldu gyðinglegt), segir okkur nú ekki mikið. Kristnir menn deila um hvað nákvæmlega ætti að flokkast sem helgirit þeirra.

Og ég veit ekki hvað síðari hlutinn hjá þér kemur málinu við. Auðvitað þögguðu þeir niður alla kaþólska andstöðu, nasistarnir kúguðu alla þá sem mótmæltu þeim.


Jón Valur Jensson - 09/03/15 01:28 #

Andstaða við nazismann var miklu meiri meðal kaþólskra en meðal mótmælendatrúarmanna í Þýzkalandi.

En Hitler reyndi í upphafi að friða kristna menn með fölsku skjalli og loforðum upp í ermina, hann lofaði t.d. hinum þekkta Martin Niemöller [1] árið 1932, að nazistar myndu ekki ráðast gegn kirkjunum og að þeir myndu hvorki setja Gyðinga í lokuð hverfi (ghettó) né hefja útrýmingarherferð (pogrom) gegn þeim. [2] Hitler og nazistar hans voru náttúrlega lygarar, þið megið aldrei gleyma því.

En það er líka mjög fróðlegt fyrir ykkur Vantrúarmenn sem aðra að lesa alla Wikipediu-greinina um Niemöller [1] til að öðlast betri innsýn í stöðu mála í 3. ríkinu, veika aðstöðu og slappa frammistöðu margra kristinna manna, um raunverulegt virðingarleysi nazismans fyrir kristinni trú, en um leið ástæður ímyndana sumra kristinna manna, þ.á m. Niemöllers, að nazistum væri betur treystandi en vinstri flokkunum, meðal annars vegna þeirrar trúleysingja- (atheistísku) hreyfingar sem naut stuðnings margra í Sósíaldemókrataflokknum þýzka og Kommúnistaflokknum.

Niemöller, sem var lútherskur, var nokkuð seinn að átta sig, en fordæmdi svo aría-greinina í stefnuskrá nazista sem gangandi gegn kærleiksboði kristindómsins, varði einnig Gyðinga, sem tekið höfðu kristni, og hann hafði þegar haustið 1934 verið meðal stofnenda Játningarkirkjunnar prótestantísku, eins og hinn frægari Karl Barth og samvizkuhetjan Dietrich Bonhoeffer (sem átti hlut að tilræðinu við Hitler og var því tekinn af lífi). Sjálfur var Niemöller tekinn fastur og stungið í Sachsenhausen- og Dachau-fangabúðirnar allan tímann frá 1937 þar til Bandaríkjamenn frelsuðu hann og aðra 5. maí 1945.

Eftir á sá Niemöller, að þrátt fyrir það, sem hann þó gerði, hafði hann tekið of lint á móti anti-semítisma nazistanna, og ásakaði sig fyrir það og tók þátt í Stuttgart-yfirlýsingu evangelísku kirkjunnar 19. okt. 1945 [3] um (sam)sekt hennar með því að hafa á ónógan hátt staðið gegn nazismanum. Hafa ber þó í huga, að massíf útrýming Gyðinga hófst ekki fyrr en 1941, þegar Niemöller hafði dúsað fjögur ár í fangabúðum.

Niemöller er frægur fyrir orð sín (frjálslega þýdd hér; raunar hafði hann sjálfur allmargar útgáfur af þessu [3]: "Fyrst eltu þeir uppi kommúnista og sósíalista, og ég varði þá ekki í orðum, af því að ég var ekki sósíalisti. Svo náðu þeir í verkalýðshreyfingarmenn, og ég sagði ekki orð um það, af því að ég var ekki í verkalýðshreyfingunni. Þá sendu þeir eftir Gyðingunum, en ég úttalaði mig ekki um það, af því að ég var ekki Gyðingur. Og þá náðu þeir loks í mig, en þá var enginn eftir til þess að verja mig."

Niemöller átti svo, að stríðinu loknu, eftir að verða meðal áhrifamestu kennimanna mótmælendakirkjunnar þýzku og forseti Alkirkjuráðsins árið 1961 og var þá raunar orðinn allfjarri sínum íhaldssömu þjóðernisáherzlum frá fyrri tímum. Merkilegur ferill manns, sem var háttsettur foringi á þýzkum kafbátum, loks yfirmaður þar, í fyrri heimsstyrjöld, og sökkti miklum fjölda skipa bandamanna og fyrir það sæmdur Járnkrossinum af 1. klassa, en endar sem mikill friðarsinni og jafnvel sæmdur Lenínorðunni 1966 (d. 1984, 92 ára).

Um Játningarkirkjuna evangelísku, andstætt "jákvæða kristindómnum", þar sem menn í hinni undirgefnu "þjóðlegu" kirkju evangelískra þókknuðust allmjög nazismanum, geta menn lesið mikið í riti Sigurbjarnar Einarssonar, síðar biskups: Kirkja Krists í ríki Hitlers (Rv. 1940, 176 bls.).

[1] http://en.wikipedia.org/wiki/Martin_Niemöller

[2] Sjá sérstaklega hér í inndregna textanum frá Niemöller sjálfum: http://en.wikipedia.org/wiki/MartinNiemöller#Arrestand_imprisonment ––þar segir hann m.a. (í enskri þýð.): "I had an audience with him, as a representative of the Protestant Church, shortly before he became Chancellor, in 1932. Hitler promised me on his word of honor, to protect the Church, and not to issue any anti-Church laws. He also agreed not to allow pogroms against the Jews, assuring me as follows: "There will be restrictions against the Jews, but there will be no ghettos, no pogroms, in Germany."

[3] http://en.wikipedia.org/wiki/Firsttheycame_...


Jón Valur Jensson - 09/03/15 01:38 #

Hér átti heimild merkt (síðast) nr. [3] að vera nr. [4], en rétt heimild nr. [3], um Stuttgart-yfirlýsinguna í okt. 1945, að vera þessi: http://en.wikipedia.org/wiki/StuttgartDeclarationof_Guilt


Jóhann Hallgrímsson - 09/02/16 10:07 #

Aðalatriðið hér er ekki hvort hitler hafið ahylst þetta eða hitt, aðalatriðið er að kaþólska kirkjan studdi hitler meða ráðum og dáðum allt frá upphafi til enda, þeir jafnvel hjálpuðu nasistum að flýja í lok stríðsins.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.