Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Auðvitað eru ekki allir í Vantrú

Mynd af nýfæddum börnum

Tilkynning um að allir landsmenn yrðu skráðir í Vantrú var ádeila. Enginn er skráður í Vantrú án þess að hafa sótt sérstaklega eftir því og hafa náð 18 ára aldri. Tilgangurinn með gríninu var að gagnrýna það að enn í dag skuli vera brotið á samskonar hátt gegn nýfæddum börnum með sjálfkrafa skráningu í trúfélag foreldra.

Sjálfkrafa skráningar í fréttum

Við vonum að fólkið sem taldi á sér brotið með því að vera skráð í félagsskap að því forspurðu hafi ekki tekið því of illa þegar það uppgötvaði að þetta var grín. Öllum persónuupplýsingum (skilríkjum og kennitölum) sem fólk hefur sent félaginu hefur verið eytt.

En á sama tíma og sumir fáruðust og býsnuðust útaf þessu sprelli kom önnur frétt sem vakti því miður ekki jafn mikla athygli: 60% barna eru enn skráð sjálfkrafa í ríkiskirkjuna.

Það hlýtur að teljast mjög vafasamt að ríkið sé að skrá nýfædd börn sjálfkrafa í trúfélög, án nokkurs samþykkis foreldra eða forráðamanna. Og erfitt er að sjá hvernig svona skráning samræmist hinum nýlögfesta Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna sem talar um að aðildarríkin eigi að virða rétt barnsins til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar.

Réttmæt reiði

Þeir sem að reiddust okkur fyrir að hafa skráð þá í Vantrú mættu hafa það í huga að svona er brotið á flestum börnum og foreldrum landsins. Við í Vantrú höfum flest þurft að skrá okkur úr félagi sem við skráðum okkur aldrei í. Réttmæt reiði þeirra ætti að beinast að sjálfkrafa skráning ómálga barna í trúfélög.

Þessi sjálfkrafa skráning nýbura er einungis til vegna hagsmuna trúfélaga, og þá sérstaklega ríkiskirkjunnar, því að um leið og börnin ná 16 ára aldri borgar ríkið trúfélögum árlega peningaupphæð fyrir hvern skráðan einstakling. Fjárhagslegir hagsmunir trúfélaga eru því settir ofar réttindum barna og foreldra.

Við vonum að þetta grín okkar verði til þess að fleiri átti sig á því hversu óeðlilegar þessar sjálfkrafa skráningar eru og ef einhverjir hafa verið skráðir í trúfélag að þeim forspurðum þá laga þeir það vonandi.


Upprunaleg mynd frá Sörmlands Museum og birt með CC-leyfi

Ritstjórn 24.02.2015
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Jón Valur Jensson - 24/02/15 22:22 #

Ég ætla ekkert að reiðast ykkur, þótt sumir geri það skiljanlega – bara benda á staðreynd: Þið skrökvuðuð, luguð að fólki opinberlega, um þetta mál að til stæði að skrá alla þjóðina í Vantrú. Tilgangurinn kannski að vekja á ykkur athygli og nota þetta sem einhvern ávinning gagnvart Þjóðkirkjunni – tilgangurinn jafnvel jákvæður og góður í ykkar huga, en það breytir því ekki, að meðalið var SKRÖK, ósannindi, lygi.

Þetta gengur einmitt beint gegn kristnu siðferði. Kristnir menn mega ekki láta jafnvel góðan tilgang helga ill meðul (Róm.3.8) – og lygin er slíkt meðal.

En náðuð þið kannski athygli? Hugsanlega. En hverju náðuð þið ekki? Tiltrúnaði fjölmiðlamanna á það, að ykkar orðum megi treysta í framtíðinni. Svo að þegar Guð leyfði ykkur að drýgja þessa "litlu" synd, þá var það þó kannski vegna þess, að þrátt fyrir allt gat eitthvað gott af henni leitt: 1) að ýmsir snerust gegn ykkur móðgaðir og 2) að þeir, sem þurfið að láta trúa ykkur í framtíðinni, verða ekki eins tilbúnir til þess í næsta sinn. Því að vitaskuld er það ekki gott, að menn taki mark á félagi, sem árum saman níðir kristinn sið og jafnvel hina beztu kristnu menn eins og sjálfa Móður Teresu. En einnig með því framferði mun trúverðugleiki ykkar fara ört minnkandi, og það er nú gott.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 25/02/15 00:06 #

Æji, Jón Valur, farðu nú að naglhaldakjafti.


Snæbjörn - 25/02/15 00:23 #

Þetta gengur einmitt beint gegn kristnu siðferði. Kristnir menn mega ekki láta jafnvel góðan tilgang helga ill meðul (Róm.3.8) – og lygin er slíkt meðal.
Svo að þegar Guð leyfði ykkur að drýgja þessa "litlu" synd,

youtube.com/watch?v=B359hCC3HQU


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/02/15 00:25 #

Við lugum engu. Greinin var rækilega merkt sem grín.

Jón Valur, hefurðu aldrei heyrt minnst á internetið?Á hinu svokallaða interneti þrífast ýmsar grínsíður sem segja sannleikann með háði. Það er ekki lygi, það er matreiðsla sem vekur til umhugsunar. Ég get nefnt dæmi á borð við The Onion, Landover Babtist Church og íslenskar síður á borð við Sannleikann og Baggalút.

Þetta eru grínsíður. Vantrú stundar líka grín í bland við alvöru til að vekja athygli á því sem aflaga hefur farið í samfélaginu, að okkar hógværa mati.


Reputo (meðlimur í Vantrú) - 25/02/15 00:27 #

En Jón Valur, þú lýgur og lýgur..... hvað ætlar þú að gera í því? Þú lýgur reglulega á blogginu og þú lýgur í færslunni hér að ofan. Hvert fara menn eins og þú skv. bókinni "góðu"?


KFS - 25/02/15 06:40 #

Nei, Jón Valur. Þeir lugu ekki. Þetta var sett í flokkinn "grín". Það geta jafnvel manneskjur með lágmarks lesskilning séð.


Jón Valur Jensson - 25/02/15 12:57 #

Eruð þið alveg að fara af hjörunum, herrar mínir?

Til hvers voruð þið að leiðrétta gervifréttina, ef þetta var "vandlega" (eða kannski bara á lítt áberandi hátt) merkt sem "grín"? Og getið þið þrætt fyrir, að ýmsir tóku mark á ykkur? Sem betur fer gera þeir það ekki næsta sinn.

Svo læt ég ykkur um allan æsinginn. Aðrir hafi bara gaman af.

PS. Ég anza ekki nafnleysingja, sem lýgur í þokkabót.


Stefán - 25/02/15 13:27 #

Ef JVJ væri ekki svona stjörnuruglaður - þá væri hann nú oggulítið krútt.

Það er eitthvað vinalegt við sjá menn standa naglfasta við óbifanlega trú sína á ósýnilega vini sínum - andspænis allri rökhugsun.

...sorglegt, ég meina sorglegt - ekki vinalegt, sorrý mæbad.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 25/02/15 14:28 #

dæs Jón Valur, þú hefur síst efni á því að væna fólk um að vera í einhverju tilfinningalegu uppnámi þegar þú ert beðinn um að þegja eða sjálfur vændur um lygi. Því þú lýgur og ýkir og skrumskælir og uppnefnir í sífellu. Þetta eru viðbrögð við þessu ótrúlega væli sem þú ert búinn að sýna hér á vefnum undanfarnar vikur.

Allt sem við segjum er ófögnuður,en það sem vinur þinn hefur að segja, er ljómandi. Svo topparðu þetta með þessari endalausri frekju um afsökunarbeiðni og tafarlausri iðrun fyrir að gagnrýna eitthvað sem þér þykir heilagt.

Æji, greyið. Gráttu mér Gullfoss á. Þú talar fyrir 15 manna öfgahóp kaþólskra#. Við eigum töluvert meiri hljómgrunn í samfélaginu en þú, litli kall.

Svo ég fari nú á þitt plan: Vertu ekki með þessa öfundsýki, og reiði, og frekju, og leiðindi, og biturð, Jón, naglhaltukjafti í smástund og slakaðu á.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/02/15 15:44 #

Til hvers voruð þið að leiðrétta gervifréttina, ef þetta var "vandlega" (eða kannski bara á lítt áberandi hátt) merkt sem "grín"?

Þú svarar þessu sjálfur strax á eftir:

Og getið þið þrætt fyrir, að ýmsir tóku mark á ykkur?

Já, samfélagið fór næstum á hliðina við þetta og þá er okkur ljúft og skylt að taka af allan vafa.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/02/15 15:48 #

En það er óneitanlega nokkuð fyndið að þú, Jón Valur, skulir fordæma "skrök" okkar með vísun í kennivald kristninnar:

Kristnir menn mega ekki láta jafnvel góðan tilgang helga ill meðul (Róm.3.8)

Vantrúarfólk er ekki kristið. Guðinn þinn hefur ekkert átorítet hér.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 25/02/15 16:33 #

Á maður ekki sem ritstjóri þessa vefrits að heimta að Jón Valur biðji mig afsökunar á að ásaka mig um að ljúga að fólki opinberlega með því að hafa sett in ádeilugrein (sem var sérstaklega merkt sem grín)?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 25/02/15 19:08 #

Auk þess er meinlaust grín ekki "illt meðal".


Jón Valur Jensson - 26/02/15 21:06 #

Vésteinn, þið kusuð kannski grín, er meðalið til að gera grínið var SKRÖK, "óhrekjandi lygi" eins og þjóðskáldið kallaði það. En það er ekki leyfilegt (rétt há þér, Birgir) í kristnum sið að ljúga til að vera fyndinn. Ykkur tókst líka að blekkja suma. Þið sitjið uppi með afleiðingarnar. En vitaskuld er ykkar siðferði ekki kristið siðferði. Það má því fyrir fram ekki treysta orðum ykkar.

"Undanfarnar vikur", Þórður Ingvarsson, hef ég staðið í því með öðrum að afhjúpa hér ótrúlega grófan rógburð ykkar Vantrúarmanna um Móður Teresu, og sú afhjúpun hefur gengið býsna vel ! –––> http://www.vantru.is/2015/02/04/12.00/


Sigurjón - 26/02/15 22:45 #

Óttaleg þvæla er þetta í þér, Jón Valur. Grín er grín. Ef einhver segir eitthvað sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum, og lætur um leið vita að hann sé að grínast, er hann ekki að "skrökva". Hann er að grínast. Þetta hefur verið viðurkennt form á gríni í fjölmarga mannsaldra, og hefur sem slíkt aldrei flokkast sem skrök eða lygi.

Fyrir nokkru birtist þessi frétt á Baggalút: http://baggalutur.is/frettir.php?id=5942

Eru Baggalútsmenn að "skrökva"?

Voru Spaugstofumenn að "skrökva" þegar þeir fluttu sínar fjölmörgu grínfréttir?

Þessi grein sem um ræðir var mjög skýrt og greinilega merkt sem grín.

GRÍN, andskotinn hafi það.


Jón Valur Jensson - 27/02/15 00:09 #

Er Vantrúarvefurinn kannski eitt samfellt "grín"? Nei, svo er ekki. Ég er alveg sammála því, að þegar maður segir eitthvað, sem ekki stenzt, í gamni, sem allir áheyrendur vita, að er EKKI meint raunhæft, þá er maður ekki að skrökva, enda er þá ekki verið að blekkja neinn viljandi. En þetta á ekki við um tilkynningu ykkar. Þar var alls ekki búizt við því, að allir færu að hlæja, enda var þetta í raun enginn brandari.

Þórður Ingvarsson, þú ritar hér af þeirri vanþekkingu sem þér er lagin – og ávarpar mig í þessum orðum: "Þú talar fyrir 15 manna öfgahóp kaþólskra" (og átt við Kristin stjórnmálasamtök). En kaþólskir þar eru bara lítill minnihluti; hvítasunnufólk er t.d. fjölmennara þar en við þeir kaþólsku. Þú veizt greinilega ekkert hvað þú ert að tala um, og meðfylgjandi fordæming þín (að skella á hóp, sem þú veizt ekki einu sini hvernig er samsettur, stimplinum "öfgahópur") er bara eins og hver önnur ábyrgðarlaus og gersamlega ómarktæk ummæli sem renna hér upp úr Vantrúarmönnum í löngum bunum, ekki sízt á vefþræðinum um Móður Teresu. Þið iðkið þar í raun vindmylluslag eins og Don Quicote í verki Cervantes: sláizt við ykkar eigin tilbúning og gervimynd af Móður Teresu. Öðruvísi gátuð þið nefnilega ekki fordæmt hana!


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 27/02/15 06:39 #

Þar sem þú ert kaþólskur, Jón, þá á ég mjög bágt með að trúa því sem þú segir.


Sigurjón - 27/02/15 09:03 #

Nei, Vantrúarvefurinn er ekki ekki eitt samfellt grín. Hins vegar birtast slíkar færslur inn á milli, og þær eru skýrt og greinilega settar í slíkan flokk.

Er það í alvörunni svo erfitt að skilja?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/02/15 09:11 #

Ég er alveg sammála því, að þegar maður segir eitthvað, sem ekki stenzt, í gamni, sem allir áheyrendur vita, að er EKKI meint raunhæft, þá er maður ekki að skrökva, enda er þá ekki verið að blekkja neinn viljandi. En þetta á ekki við um tilkynningu ykkar.

Og þú heldur því fram hér að ég hafi verið að blekkja fólk viljandi? Með færslu sem ég hélt að enginn myndi taka alvarlega (enda þótti mér þetta svo fjarstæðukennt) og svo var hún líka sérstaklega merkt sem grín.

Jón Valur, þú átt enn eftir að biða mig afsökunar á því að hafa ásakað mig um lygar.


Sindri Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 27/02/15 17:43 #

Það kemur einmitt fram í þremur fjölmiðlaviðtölum við mig að við bjuggumst alls ekki við því að fólk myndi ekki fatta að þetta væri grín.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 27/02/15 19:33 #

En vitaskuld er ykkar siðferði ekki kristið siðferði. Það má því fyrir fram ekki treysta orðum ykkar.

Þetta er undarleg rimma. Í fyrsta lagi er færslan sett fram sem grín, merkt sem grín og innihald hennar er svo fjarstæðukennt að furðulegt er að einhver hafi tekið mark á þessu. Ásakanir um lygar eru afar hjákátlegar í þessu samhengi.

Ef við viljum ræða kaþólskt kristið siðferði þá er hér mjög gott nýlegt dæmi.

Vísir - Kaþólska kirkjan sveik 875 milljónir út úr norska ríkinu


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/15 01:51 #

Svo getur verið fyndið þegar þú virðist krefjast meiri nákvæmni þegar verið er að ræða um þinn agnarsmáa stuðningshóp.

Alltíkei Jón, fyrst þú endilega vilt: þú talar fyrir hönd heila fimmtán kristilegra bókstafstrúaðra brjálæðinga. Flott hjá þér, þú litli, reiði, öfgafulli og ómarktæki bullustampur.


Jón Valur Jensson - 28/02/15 02:56 #

Þið talið um það hér, að greinin hafi verið "skýrt og greinilega merkt sem grín" –– en það þarf að lesa alveg í gegnum hana án þess að sjá það –– loksins undir henni stendur í sviga um vefflogga, með öðru orði: Grín. Það sést líka á festum fyrstu innleggjum þarna, að seint dettur mönnum í hug, að þetta sér grín, og eru margir þar (og víðasr) þá bálreið'ir út í ykkur. Hér eru lögg fyrstu innleggin:

"Viðbrögð

Pálmi Björn Jakobsson - 23/02/15 11:02 #

Ég neita alfarið að vera skráður í "Vantrú". Mér finnst þetta ókurteisi og vil ekki vera orðaður við svona samtök.

Svanborg Eyþórsdóttir - 23/02/15 11:02 #

Ég vil ráða því sjálf hvar ég er skráð og óska eftir því að verða ekki skráð í Vantrú.

Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/02/15 11:11 #

Þó við viljum gjarnan að það sé einfalt að skrá sig úr félaginu er nauðsynlegt að fólk fari eftir formlegum leiðum. Við viljum ekki að fólk sé að skrá einhverja aðra úr félaginu. Eins og fram kemur í greininni:

Ef svo ólíklega vill til að þú vilt ekki gerast meðlimur í Vantrú, þá er lítið mál að skrá sig úr Vantrú. Ef þú ert orðinn 18 ára þarft þú einungis að senda tölvupóst með tilkynningu um úrsögn ásamt skönnuðu persónuskilríki á tölvupóstfangið ursognurvantru(at)vantru.is

Vinsamlegast passið að myndin af ökuskírteininu sé vönduð og að ökuskírteinið sé þokkalega nýlegt.

Jesús Kristur Jósefsson - 23/02/15 11:12 #

Ég segi bara eins og sagt var fyrir stuttu: "Ekki í mínu nafni". Og þið eruð á rangri braut, strákar mínir :)

Kv. Jesús.

PS. En Lúsifer frændi er alltaf að safna nöfnum, hann vill örugglega vera með í þessu hjá ykkur. Hann er með símann 666-6666, email:lusifer@hell.org En passið ykkur á honum, hann er doldið trikkí, sá gamli.

Elvar - 23/02/15 11:22 #

Ég hef aldrei skilið hvers vegna þessi félagsskapur virðist hafa það að meginmarkmiði að annað fólk sé ekki kristið. Hvers vegna getið þið ekki einbeitt ykkur að ykkar vantrú. Vil alls ekki vera skráður í þessi trúarsamtök og tel mig í raun ekki vera það né verði og vil ekki að þið séuð að leika ykkur með nafn mitt á ykkar blöðum.

Birgir Hrafn - 23/02/15 11:31 #

Þetta er frábært :)

Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 23/02/15 11:40 #

Einnig er gott að taka fram að eins lengi og kristið fólk er skráð í Vantrú þá kemst það ekki til himna. Sorry.

snjolaug Oskarsdottir - 23/02/15 11:53 #

Ég vil ALLS EKKI VERA SKRÁÐ HJÁ YKKUR. Ég banna mína skráningu í þessa vitleysu.

Gústaf Þór - 23/02/15 11:58 #

Þetta er semsagt grín? Kemur hvergi fram í grein á mbl.is að þetta sé grín, kannski bæta úr því.

Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/02/15 12:03 #

"Kemur hvergi fram í grein á mbl.is að þetta sé grín,"

Við skrifum reyndar ekki fyrir mbl, en þar stendur í annarri málsgrein.

Til­kynn­ing­in birt­ist á vefsíðu Van­trú­ar og er lítt dul­in ádeila á þjóðkirkju­fyr­ir­komu­lagið og sjálf­virka skrán­ingu barna í trú­fé­lög. # "

Jæja, var grínið svona augljóst, Hjalti minn?


Jón Valur Jensson - 28/02/15 02:59 #

Gleymdi að lesa yfir þetta sem ég skrifaði ég þreyttur! –––Inngangsorðin eiga að vera svona:

"Þið talið um það hér, að greinin hafi verið "skýrt og greinilega merkt sem grín" –– en það þarf að lesa alveg í gegnum hana án þess að sjá það –– loksins undir henni stendur í sviga um vefflokka, með öðru orði: Grín. Það sést líka á flestum fyrstu innleggjum þarna, að seint dettur mönnum í hug, að þetta sé grín, og eru margir þar (og víðar) þá bálreiðir út í ykkur. Hér eru öll fyrstu innleggin:"


Þórður Invarsson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/15 08:39 #

Ert þú að grínast Jón? Vegna þess að þetta er frekar hlægilegt.


Sindri Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/15 09:04 #

Tvö m.a. viðtöl við mig sem tekin voru löngu áður en Jón Valur fór að halda því fram að við værum að skrökva af ásetningi sýna að það var ekki það sem vakti fyrir okkur:

„Við reiknuðum ekki með því að eitthvað fólk myndi ekki halda að þetta væri grín, það kom okkur svolítið á óvart,“ segir Sindri Guðjónsson, formaður Vantrúar," http://www.visir.is/vantru-barst-tilkynning-um-logsokn-vegna-grins/article/2015150229619

„Þetta var grín. Sjálf­ur hefði ég haldið að þetta væri svo aug­ljós­lega ádeila. Auðvitað er það út í hött að biðja fólk um að senda okk­ur af­rit af öku­skír­tein­um og annað slíkt. Það var auðvitað bara fyrst og fremst hugsað sem grín og er í sér­dálki á síðunni okk­ar sem heit­ir grín,“ seg­ir Sindri. http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/02/23/hotanirogokuskirteinitilvantruar/

Efni greinarinnar er þó enn skýrari sönnun en þessi viðtöl - það að einhverjum hafi dottið í hug að þetta væri í raun ætlun okkar er hreint út sagt með algjörum ólíkindum. Hvers lags völd heldur fólk að Vantrú hafi?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/15 09:38 #

... og Orson Welles var sko víst að lýsa raunverulegri innrás frá mars! (það voru svo margir sem föttuðu ekki að hann væri að flytja leikrit)


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/15 09:44 #

Og ef sömu rökum er beitt á biblíuna - sem JVJ heldur væntanlega fram að sé trúarritum, jafnvel orð guðs - þá nægir að benda á nokkra einstaklinga sem skilja hana ekki þannig - sem endanlega sönnun þess að hún sé það ekki!


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 28/02/15 11:31 #

Já, Jón, þetta var skýrt merkt sem grín. Það að fólk hafi ekki fattað það í athugasemdum segir nú ekki mikið, enda ekki víst að þetta fólk hafi lesið greinina, það gæti t.d. bara hafa lesið frétt Moggans og svo komið hingað til að setja inn athugasemd.

En þú átt enn eftir að biðja mig afsökunar á því að hafa ásakað mig um að ljúga opinberlega.


Guðmundur Guðmundsson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/15 13:19 #

Jæja, Jón Valur - skoðum skrökið ögn nánar. Vantrú skrökvaði að alþjóð, en þú skrökvaðir frami fyrir augliti Guðs þegar þú kvæntist og skildir svo við konuna. Ert þú þá ekki á hraðleið til helvítis? Eða er þinn háheilagur páfi búinn að fyrirgefa þér í guðs nafni, amen?

ps. ég skrifa undir fullu nafni til að þú virðir mig auman trúleysingjann svars.


Jón Valur Jensson - 01/03/15 13:58 #

Skýrt var það nú ekki, að birta þar eitt lítið orð alveg neðst (eftir að menn voru búnir að lesa greinina): „Grín“. Ef „Gríngrein“ hefði staðið sæmilega stórum stöfum yfir greininni, mætti segja, að ekki væri verið að fá fólk til að trúa henni.

Nei, Valgarður, Orson Welles var að ljúga –– einmitt þess vegna voru margir brjálaðir út í hann og útvarpsstöðina! Hann notaði skrökið til að vera fyndinn, þið sömuleiðis eða til að vekja á ykkur athygli. Það tókst, en um árangurinn má deila.

G.G., ég skrökvaði ekki þegar ég kvæntist. Nærðu þessu? Annars er augljóst hvað sumir eru hörundssárir hér –– og ekki yfir engu!


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 01/03/15 17:33 #

Þannig að öll leikrit, skáldverk, kvikmyndir, sjónvarpsþættir (sem ekki eru beinlínis sagnfræðilega rétt) eru að þínu mati lygar - og höfundar ættu að skammast sín fyrir að vera að skrökva svona?


Sigurimi Stefánsson - 01/03/15 23:29 #

Það er auðvitað mjög alvarlegt mál og illa gert að spila svona með auðtrúa fólk en hér er um virkilega óábyrgt framtak að ræða sem hefði getað haft mjög alvarlegar afleyðingar í för með sér.

Það er sannarlega umhugsunarefni hvort grín af þessu tagi sé að nokkru leyti æskilegt, sérstaklega á þessum viðsjárverðu tímum sem við nú lifum. Mögulegur ófyrirséður fórnarkostnaður getur orðið meiri og alvarlegri en nokkurn hefði órað fyrir. Engin ádeila, sama hversu réttmæt, og enginn hlátur sama hve sætur getur réttlætt að örlögunum sé storkað með slíkum hætti


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 02/03/15 10:55 #

Það er broslegt að fylgjast með þessum viðbrögðum. Ég álykta að Sigurimi sé að sprella.

Að fólk hafi fallið fyrir gríni, er ekki þeim sem grínast að kenna. Það að fólk hafi ekki fattað að þetta hafi verið grín og það hafi þurft að stafa þetta ofaní þau á endanum, er þeim sjálfum að kenna. Það að fólk svo rembist og rembist við að vera voða sjokkerað gagnvart okkur í Vantrú útaf því eigum það til að hæðast að rugli, gerum einstaka ádeilugrein til að vekja athygli á steypu, grínumst og sprellumst þegar það á við... æji, þið eruð aumkunarverð. Sérstaklega Jón Valur, hann er sá allra aumkunarverðasti. En hann getur lítið í því gert, kallinn, verandi kaþólikki.


Jón Valur Jensson - 03/03/15 00:33 #

Valgarður skrifar: „Þannig að öll leikrit, skáldverk, kvikmyndir, sjónvarpsþættir (sem ekki eru beinlínis sagnfræðilega rétt) eru að þínu mati lygar - og höfundar ættu að skammast sín fyrir að vera að skrökva svona?“

RANGT, það er ekki fullyrðing mín. Vitaskuld er leyfilegt að segja nánast það sem manni sýnist í skáldskap, búa til hvaða sýndarveruleik eða ævintýri sem er, enda er það tekið þannig af áhreyrendum/lesendum. En pistillinn ykkar eða TILKYNNINGIN var EKKI meint sem skáldverk, hvað þá prósaljóð og heldur ekki sem leikrit. Þið spiluðuð á að láta menn trúa þessu, a.m.k. þangað til sumir komu loksins neðst að orðinu „Grín“.

Annars hef ég sagt nóg hér. Þið getið haldið áfram að þræta og masa endalaust, en í reynd virkar það bara desperate og paþetískt.

Og ég sem hélt að þið væruð hvort sem er ekkert að binda ykkur við kristið siðferði! en allt í einu þykizt þið jafn-sannsöglir og strangtrúuðustu kristnir menn! Hvers vegna?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/03/15 09:30 #

En pistillinn ykkar eða TILKYNNINGIN var EKKI meint sem skáldverk, hvað þá prósaljóð og heldur ekki sem leikrit.

Víst.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 03/03/15 09:44 #

Auðvitað var það meint þannig. Punktur.

Orðið "grín" var áberandi áður en greinin var opnuð.

Fyrir utan það að lesandi þarf að vera ævintýralega tregur til að halda að svona geti mögulega verið í fullri alvöru.

Fyrir alla muni reyndu einu sinni að viðurkenna að þú hafir einfaldlega rangt fyrir þér. Ef þú sérð ekki sóma þinn í því í þetta skipti í ljósi jafn æpandi staðreynda - þá ertu eiginlega búinn að staðfesta að þú sért ekki viðræðuhæfur, þú getir ekki bakkað hversu augljóslega sem þú hefur verið leiðréttur.

PS. Þú nefndir að Orson Welles hefði verið að ljúga - þrátt fyrir að hafa kynnt vel og vandlega að um leikrit væri að ræða, fyrir, eftir og inn á milli - samkvæmt því hljóta öll listaverk að vera lygi samkvæmt þínum kokkabókum.


Sigurimi Stefánsson - 03/03/15 11:28 #

"...jafn-sannsöglir og strangtrúuðustu kristnir[sic] menn!" Svona eins og hvítasunnumaðurinn Gísli Freyr Valdórsson?


Jón Valur Jensson - 03/03/15 13:14 #

Auðvitað haldið þið áfram að reyna að þæfa málin og búa til á þessu nýja anga til að menn gleymi hér aðalatriðum, enda eruð þið að reyna að verja heiður eigin félags á eigin vettvangi og því margir til að svara mér.

„Orðið "grín" var áberandi áður en greinin var opnuð,“ ritar Valgarður, en lítið orð, sem stendur undir greininni, neðst í henni, er ekki „áberandi“!

Ekki minntist ég þess, „að Orson Welles hefði ... kynnt vel og vandlega að um leikrit væri að ræða, fyrir, eftir og inn á milli,“ ég hélt nú, að mestur æsingurinn vegna þess hefði stafað af því, að það hefði vart eða illa verið tilkynnt, að um leikrit væri að ræða. En augljóst er, að ekki tilkynntuð þið svona vel, að þetta væri bara „grín“, eins og Valgarður segir að Wells hafi gert það.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 03/03/15 14:09 #

Það, að einhver æsingur hafi verið í kringum frumflutning "War of the Worlds" er seinni tíma tilbúningur sem á sér engan stað í raunveruleikanum (sjá t.d. hér. Sæmilega gefið fólk áttar sig nefnilega á því þegar það hlustar á, eða les, skáldskap eða ádeilu. Nema kannski þegar það er gersamlega blindað af fordómum í garð höfundar.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 03/03/15 14:19 #

Þetta er einfaldlega rangt hjá þér Jón, greinin var merkt "grín" skýrt og greinilega áður en hún var opnuð, jafn áberandi og "Rökin gegn guði" eru á efstu grein á forsíðunni núna.

Þetta er svo endurtekið neðst svo ekkert fari á milli máli. Ég skil reyndar ekki hvað það kemur málinu við hvar merkingin er, hún var skýr og greinileg fyrir alla sem höfðu fyrir því að lesa greinina.

Orson Welles kynnti vel og vandlega að um leikrit var að ræða.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 03/03/15 14:24 #

Ég velti fyrir mér hvort það sé samhengi á milli þess að trúa tröllasögunum í biblíunni eins og þar sé allt satt og rétt - og geta ekki áttað sig hjálparlaust á því að svona færslur eru grín [jafnvel þó hún hefði ekki verið merkt þá var nú ekki flókið að átta sig á að um grín væri að ræða].

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?