Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sóknargjöld eru ekki félagsgjöld

Mynd af peningum

Þann 17. janúar birtist greinin „Sóknargjöld eru félagsgjöld“ eftir Magnús E. Kristjánsson, forseta kirkjuþings, í Morgunblaðinu. Magnús heldur því fram að sóknargjöld séu félagsgjöld sem ríkið innheimtir og afhendir trúfélögum. Svo er ekki.

Ríkið innheimtir ekki sóknargjöld heldur eru þau aðeins til sem framlög frá ríkinu. Það er engin sérstök upphæð tekin af hverjum og einum merkt sem „sóknargjöld“ heldur er kveðið á um í lögum að trúfélög fái framlög úr ríkissjóði sem miðast við fjölda meðlima. Þetta hafa bæði Umboðsmaður Alþingis og fjármálaráðherra staðfest (sjá svar UA í máli 6322/2011 og svar fjármálaráðherra í þingskjali 793 í 243. máli 143. löggjafarþings).

Ef ríkið ákveddi að styrkja golfklúbba landsins um tíuþúsund krónur árlega fyrir hvern skráðan meðlim þá væri það kerfi eins og sóknargjaldakerfið. Þeir styrkir væru ekki heldur félagsgjöld.

Jafnvel þó svo að við gefum okkur það Magnús hafi rétt fyrir sér varðandi innheimtu sóknargjalda, en ekki Umboðsmaður Alþingis og fjármálaráðuneytið, þá eru sóknargjöld samt ekki félagsgjöld. Ástæðan er sú að félagsgjöld eru þess eðlis að aðeins félagar borga þau. Ég er til dæmis ekki félagi í golfklúbbi og þarf því ekki að borga nein félagsgjöld til golfklúbbs.

Samkvæmt Magnúsi eru sóknargjöld innheimt í gegnum tekjuskatt. Sá skattur er jafn hár hvort sem fólk er í trúfélagi eða ekki, þannig að allir væru í raun að borga sóknargjöld. Sóknargjöld eru samkvæmt því þá bara skattur sem er lagður á alla landsmenn, ekki félagsgjöld.

Til samanburðar má benda á útvarpsgjaldið. Það er sérmerkt ákveðnu félagi en samt dettur engum í hug að kalla það félagsgjald því fólk kemst ekki hjá því að borga gjaldið með því að ganga úr Ríkisútvarpinu.

Sóknargjöld eru því ekki félagsgjöld og í raun hefur Þjóðkirkjan barist gegn því að sóknargjöldum verði breytt þannig að þau líkist félagsgjöldum meir, því þá myndi fólk spara um tíuþúsund krónur á ári með því að skrá sig utan trúfélaga og eflaust myndi fækka enn hraðar í Þjóðkirkjunni.


birtist upphaflega í Morgunblaðinu 31. janúar 2015

Hjalti Rúnar Ómarsson 19.02.2015
Flokkað undir: ( Sóknargjöld )

Viðbrögð


Oddur Einarsson - 11/07/16 11:23 #

Ef ríkið innheimtir ekki sóknargjöld hvers vegna segir þá í 8. gr. laga um sóknargjöld o.fl.: Héraðsfundi er heimilt að ákveða að allt að 5% af innheimtum sóknargjöldum skv. I. kafla laga þessara renni í sérstakan sjóð, héraðssjóð, í vörslu prófasts.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 11/07/16 18:01 #

Sæll, ég held að þetta orðalag hafi bara verið erft frá eldri lögum (líka 8. grein), þegar sóknargjöld voru sannarlega innheimt af fólki.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?