Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Himneski eldfjallafræðingurinn

Mynd af eldgosinu í Holuhrauni

Annar vígslubiskupa ríkiskirkjunnar, Kristján Valur Ingólfsson, setti um daginn inn bæn á vefrit ríkiskirkjunnar. Í bæninni Þegar kraftar eldsins er guð beðinn um að passa upp á að eldgos skaði engan:

Kom í mætti þínum,
bæg frá hættum frá eldsumbrotum
og eiturgufum.
Gjör loftið tært að nýju
og andardráttinn heilbrigðan…

Vill Jesús stöðva eldgos?

Hvað er fólk að hugsa sem semur og fer með svona bæn?

Væntanlega gerir Kristján ráð fyrir því að guðinn hans geti krukkað í framgangi eldgosa og haft áhrif á loftgæði. Einnig hlýtur Kristján að telja það mögulegt að guð gæti tekið upp á því að gera eitthvað í því. Varla færi hann að biðja guðinn sinn um að gera eitthvað ef hann telur það út í hött að guðinn hans gerði það.

Það er auðvitað skiljanlegt að Kristján trúi þessu. Guð kristinn manna á að vera almáttugur og getur því auðvitað krukkað í eldfjöllum og andrúmsloftinu eins og honum lystir. Einnig á hann að vera algóður, þannig að maður myndi ætla að hann væri á móti því að horfa upp á eldgos drepa fólk.

Jesús elskar eldgos

Það er tveir stórir gallar á þessum hugsunarhætti.

Annars vegar sú staðreynd að eldgos eiga það til að drepa fólk. Besta dæmið er líklega Móðuharðindin, sem drápu fjórða hvern Íslending. Af einhverjum ástæðum vildi Jesús ekki "bægja frá hættum frá eiturgufum" og "gjöra loftið tært að nýju" þegar Laki drap þúsundir manna á Íslandi.

Hins vegar sú staðreynd að guð kristinna manna á að hafa búið til eldfjöll. Kristnir menn segja að guðinn þeirra sé "skapari himins og jarðar". Ef guðinum þeirra er illa við hættuleg eldsumbrot, þá hefði hann átt að sleppa því að skapa heim með hættulegum eldsumbrotum.

Eldgosadans

Út frá þessum heimspekulegu punktum þá er klárlega ekkert vit í þessari bæn.

Svo mætti ætla að svona atferli, að ákalla andaveru um að hafa áhrif á veðurfar og jörðina, væri liðið undir lok í upplýstu nútímasamfélagi. Fyrir áratug síðan spurðum við hér á Vantrú hvort að guðfræðideild Háskóla Íslands væri "verndaður vinnustaður”. Er ekki prestsstarfið á sama hátt “verndaður vinnustaður"? Prestar og biskupar geta bullað eins og þeir vilja án þess að eiga það á hættu að fá nokkurn tímann að heyra mótbárur.

Er enginn til staðar innan kirkjunnar sem getur bent biskupnum á að kristnir regndansar eru heimskulegir?


Upprunaleg mynd fengin frá Sparkle Motion

Hjalti Rúnar Ómarsson 21.01.2015
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Vísindi og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/01/15 09:40 #

Munu Kristján Valur og kollegar hans ekki saka Vantrú um bókstafstúlkun og þröngsýni? Þetta hlýtur að vera myndlíking, ljóðrænt, túlkun.

Prestar eru vel launuð ljóðskáld.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.