Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Öfgatrú og trú

Mynd af biblíunni

Menn segja oft að trú sé góð en öfgatrú eða bókstafstrú sé slæm. Hógvær kristni er þannig góð, og einnig hógværar útfærslur af íslam og gyðingdómi.

En á sama tíma og hógvær trú er talin góð eru svonefndir öfgamenn taldir slæmir. Þetta eru þeir sem eru til að mynda andvígir samkynhneigðum, mismuna konum, hóta þeim sem ekki eru réttrar trúar helvíti, eru andvígir þróunarkenningunni, vilja banna fóstureyðingar, smokka, og fordæma kynlíf utan hjónabands, og í versta falli hernema jafnvel lönd til að eignast heilög landssvæði sem trúarbækur þeirra hafa lofað þeim. Eitt sem einkennir slæmu öfgamenninga er að þeir lesa trúarbækur sínar bókstaflega og taka mark á því sem stendur berum orðum í Biblíunni eða Kóraninum.

Það vill gleymast að hógværa trúin, sem menn telja góða, er jarðvegurinn fyrir öfgatrú og bókstafstrú. Það á að minnsta kosti við um þá tegund trúar sem byggir með einhverjum hætti á gömlum trúarritum, þó að þeim sé ekki endilega alltaf tekið sem bókstaflegum og óskeikulum sannleika. Hógvær kristni verður til dæmis alltaf í einhverjum skilningi að byggjast á Biblíunni, því hún er eina heimildin um líf og upprisu Jesú Krists. Án hans er engin kristni. Hvorki hógvær né öfgafull. Svipað má segja um Íslam. Íslam verður alltaf með einhverjum hætti að byggjast á Kóraninum.

Ef engin væri Biblían eða Kóraninn, þá væri engin bókstafstrú. Hógvær trú, þar sem Biblíunni eða Kóraninum er veittur einhver jákvæður sess, er rótin. Frá rótinni sprettur svo upp bókstafstrú og öfgatrú í einhverjum mæli. Ef við losum okkur við öfgatrú og bókstafstrú, en höldum enn í rótina, þá sprettur öfgatrúin eða bókstafstrúin alltaf upp á ný. Við ættum að beina sjónum okkar að rót vandans. Almenn hefðbundin trúarbrögð eru gróðrarstía og rót trúaröfga.

Sindri G. 19.01.2015
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Guðjón Eyjólfsson - 19/01/15 23:40 #

Rót vandans er óréttlæti,mannréttindabrot og hatur. Í réttlátu þjóðfélagi sem fer vel með þegna sína og tryggir þeim tækifæri til þess að lifa góðu lifi, hlusta einugis örfáir á ofstækismenn hvort sem þeir eru veraldlegir eða trúarlegir. Óttinn, örvæntingin og hatrið knýi fólk til óhæfuverka. Það er ábyrðarhluti að segja að öll trú sé rót vandans. Það eru þekkt viðbrögð að trúarhópar sem hneigjast til ofstækis,að verða en ofstækisfyllri þegar þeim er ógnað.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 20/01/15 10:07 #

Guðjón, ég held ekki að "almenn hefðbundin trúarbrögð" séu eina rótin, auðvitað spila þættirnir sem þú nefnir þátt.

En "almenn hefðbundin trúarbrögð" eru hluti vandans að mínu mati. Svo ég komi með frægt dæmi, þá er páfinn "ofstækismaður" þegar kemur að hlutum eins og getnaðarvörnum, samkynhneigð og kynlíf utan hjónabands. Ég efast um að þær skoðanir hans sé hægt að útskýra með tilvísun til "óréttlætis, mannréttindabrota og haturs".


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 20/01/15 10:21 #

Guðjón, ég var ekki fyrst og fremst að tala um óhæfuverk eins og árásirnar á Hebdo. Ég var að tala um hluti á borð við bókabrennur Snorra í Betel, fordæmingar á hommum o.þ.h. Bann í hvítasunnusöfnuðum við kynlífi fyrir hjónaband og predikanir um helvíti svo eitthvað sé nefnt. Er rót þess vanda óréttlátt þjóðfélag sem fer illa með þegna sína og tryggir þeim ekki tækifæri til þess að lifa góðu lífi?


Guðjón Eyjólfsson - 20/01/15 17:28 #

Sindri ég misskildi þig greinilega, en það breytir því ekki að þú talar um hófsama trú sem jarðveg fyrir öfgatrú. Má ekki alveg eins lita á að hér sé um samkeppnisaðila að ræða og ef ekkert framboð á hófsamri trú sé að ræða að þá leiti fleiri í öfgatrú. Fólk sem tekur um þessar mundir þátt í trúarlegri starfsemi hér á landi það sem trúaðir eru gjarna litnir hornauga og duttlungar tíðaranans er andsnúnir trú. Menn taka því ekki þátt í trúarlegu starfi nema að það sé eitthvað við það starf sem þeim finnst aðlaðandi. Ég veit það svo sem ekki - en þetta ætti að vera mál sem hægt er að skoða kerfisbundið með vísindalegum aðferðum. Ætli það hafi ekki verið gert? Það ætti því ekki vera ástæða til þess að deila um þessi efni svo alveg út í bláinn.


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 20/01/15 18:55 #

Guðjón, þessu er ekki deilt út í bláinn. Í greininni er rökstuðningur. Ég segi að þegar t.d. Biblíunni er veittur jákvæður sess í gegnum hógværa trú, þegar Biblían er sett á sérstakan stall og sögð helgirit kristinna manna, þá leiðir það til þess að einhverjir taka boðskapnum eftir orðanna hljóðan og gerast bókstafstrúmenn eða einhverskonar ofsa trúmenn. Ef engin væri Biblían eða Kóraninn, þá væri ekki bókstafstrú eða öfgatrú á þær bækur. Það styður við bókstafstrú að ritin sem trúað er á njóta almennrar virðingar í samfélaginu (í gegnum "hógværu" trúarbrögðin). Þú ættir að reyna að svara rökunum sem koma fram í greininni. Þú hefur ekki ennþá sagt mikið til þess að takast á við efnið sjálft í henni. Í framhjáhlaupi þá held ég að það sé rangt hjá þér að trúaðir séu litnir sérstaklega hornhauga, fremur en trúlausir. En um það fjallar ekki greinin.


Guðjón Eyjólfsson - 20/01/15 23:29 #

Við eru ósammála um svarið við emperískri spurningu þ.e.spurningu sem er þannig að hægt er að svara henni með rannsóknum- Það sem er út í bláin er að rökræða um þá spurningu án þess að skoða rannsóknir sem gætu varpað ljósi á svörinn. Næst á dagskrá mér er að gera það.


Jónína Sólborg Þórisdóttir - 27/01/15 02:05 #

Sammála þessari grein að mörgu leyti - held samt að þörfinni fyrir trú á eitthvað æðra vald verði seint útrýmt úr mannlegu eðli. Skipulögð trúarbrögð sem slík... veit ekki. Þörfin fyrir að tilheyra einhverjum hóp er líka hluti af mannlegu eðli hugsa ég. En samt, góð byrjun væri að forsvarsmenn skipulagðra trúarbragða á Íslandi færu í alvöru siðbót á sínum trúarritum þar sem hatursfullri orðræðu er hreinlega eytt út. Það væri hægt að henda því í ruslatunnu sögunnar (þ.e.a.s. hafa það eingöngu sem sögulega heimild). Gæti reyndar orðið ansi erfitt með þann hluta Kóransins sem er skrifaður í Medina (mikið ofbeldi þar, meira að segja verra en í gamla testamenntinu). En í öllu falli - allt neikvætt tal um konur, samkynhneigða og aðra hópa, ofbeldi o.s.frv. þarf að stroka út til þess að einhver sátt geti ríkt um þetta. Þangað til þurfa fylgismenn áðurnefndra trúarbragða að sætta sig við gagnrýni á hugmyndafræðina sem þeir aðhyllast.


Jón Valur Jensson - 30/01/15 02:08 #

Fráfall þitt frá kristinni trú, Sindri, er sorglegt. Að þú finnir þig hér á meðal Vantrúarmanna er enn sorglegra. Og sorglegt er þetta fyrir trúsystkini þín, vini og fjölskyldu. Og ertu nú líka orðinn fósturdrápssinni til að kóróna óhæfuna?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/01/15 09:15 #

Að þú finnir þig hér á meðal Vantrúarmanna er enn sorglegra.

Óskaplega er þetta ljótt og fordómafullt.

Er hugsanlegt að það sé þú sem er sorglegur Jón Valur?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.