Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að atast í íslam

Mynd af Ægisif

„Afhverju mótmæliði ekki múslimum?“
„Mættir gera meira grín að íslam líka...“
„Hvar er gagnrýnin á Kóraninn?“

Þetta heyra grínistar reglulega, og greinahöfundar og talsmenn í deiglunni. Ef gagnrýnt er eitthvað í kristinni menningu eða ritum, eða gert grín að, þá koma oft einhverjir sem vilja láta jafnt yfir trúarbrögð ganga. Og auðvitað er slíkt ekki nema sanngjarnt. Íslam er næst stærsta grein trúarbragða í heiminum, á eftir kristni. Heilu löndin hafa lagatexta og menningu byggða á þessu trúarbragði. Þetta trúarbragð gefur t.d. kristni og gyðingdómi ekkert eftir í vafasömum boðorðum og fornaldarlegum barbarisma. Enda byggt á sama grunni og frá sama heimshluta. Viðbjóðurinn og blóðsúthellingarnar sem réttlættar hafa verið með þessum textum eru mjög svipuð í eðli og engin ástæða til að veita slíku ekki athygli.

Þetta er trúarbragð. Þetta er eins og hannað til að gera grín að og taka í sundur rökfræðilega. Ef maður er einhverntíman í vafa, þá á maður annað hvort að hella sér í typpabrandarana eða trúarbrögðin. Best ef þú getur sameinað það tvennt. Sem ætti ekki að vera erfitt, sérstaklega ekki í karllægum og öfundsjúkum ritum sem Abrahams-trúarbrögðin eru.

Svo þegar ég er búinn að skrifa greinina mína um hvernig boðorð kristninnar eru slæmur siðferðislegur grunnur eða gera grín að helgislepju kirkjunnar og einhver biður mig um að taka líka fyrir íslam, hvað segi ég?

„Nei.

Ekki strax allavega.“

Þegar ég var að byrja sem grínisti var auðvelt að fara út í sjokk-húmorinn og tala um ofbeldi og jafnvel þennan sérflokk ofbeldis sem eru nauðganir. Það er óþægilega auðvelt að smíða þéttan og vel upp settan brandara úr þannig efni. En ég notaði viðkvæm málefni eins og þannig ekki af því að mér finnst þau fyndin í sjálfu sér eða eitthvað til að hafa í flimtingum, þvert á móti, heldur var markmiðið að túlka ógeðið í heiminum í gegnum húmor. Að fá fólk til að finna sjokk-gildið og horfast í augu við hversu hræðilega hluti ég var að tala um. Markmiðið var að hafa sviðspersónuna þennan aumingja sem enginn vildi líta upp til, þar sem fólk hlæi og hugsaði síðan „Hey, afhverju er ég að hlæja? Þetta er hræðilegt. Þetta er ömurlegt.“

Það er einn galli á að fjalla um þetta málefni þannig. Þó vissulega líti örugglega flestir á þetta sem brandara til að ganga fram af fólki, þá gat ég aldrei verið viss um að einhver heyrði ekki í mér og hugsaði „Hey, þetta er sniðugt“ eða „Hey, þetta er svo satt“. Eins með kynþáttafordómahúmor. Ég gat aldrei verið viss um nákvæmlega hvaða hlátur ég var að fá, hvort brandarinn hefði snúist gegn tilgangi sínum og farið að hvetja áfram einhvern annarlegan þankagang.

Þess vegna geri ég ekki grín að íslam eins og kristni eða gagnrýni langyrt. Vegna þess að fólk þarf ekki að heyra gagnrýni á íslam. Það er nú þegar nóg af fölskum áróðri og röngum mýtum um íslam ætlað því að vekja upp ótta og fordóma. Fólk þarf fyrst að fræðast um íslam áður en það getur gagnrýnt það. Og það er svo sannarlega mikið til að gagnrýna, hæðast að og mótmæla í íslam. Það er bara ekki tímabært. Við myndum ekki vita hvort talað væri til þeirra sem þekkja til íslam eða þeirra sem hatast við allt sem ekki er alið á Þingvallavatni. Býst við því að fleiri málglaðir herskáir öfgatrúleysingjar eins og ég skilji hvað við er átt. Að klæja í fingurna að segja eitthvað um hitt og þetta í Kóraninum, en sleppa því því enginn í kringum þig hefur gluggað í ritið.

Ef ég gerði grín að hadith eða slæðunum þá gæti ég ekki vitað hvort hláturinn væri „ah-ah-ah, ójá, þessi hluti ritninganna er nú frekar ruglaður“ eða „ah-ah-ah, þessir helvítis handklæðahausar“. Grein skrifuð um ódæði Múhameðs spámanns væri jafn líkleg til að vera söguleg uppljómun fyrir einn eins og staðfesting á fordómum annars sem héldi alla múslima blóðþyrsta.

Mig langar að gagnrýna íslam. Mig langar að gera grín að þessu trúarbragði. Það væri endalaus uppspretta ódýrra brandara. Geriði ykkur grein fyrir hversu miklar einræður ég gæti spunnið um beikon og ritskoðun? En ég get það ekki fyrr en fleiri hafa kynnt sér þetta trúarbragð af opnum huga og skilja margbreytileika undirflokkanna og alla þá mismunandi menningarkima sem múslimar búa við. Svo ekki sé minnst á hinar ótrúlegu menningar sem íslam hefur skilið eftir sig, menningar sem hafa haft jafn mikil áhrif ef ekki meiri heldur en forn grikkir þegar kemur að vísindum og heimspeki.

Fólk getur ekki skilið gagnrýnina eða húmorinn fyrr en það skilur málefnið.

Þetta er eins og Star Trek. Vissulega finndist mér og einhverjum öðrum kómísk gagnrýni á það fyrirbæri vera fyndin. En það er meiri hætta á að flestir einfaldlega fatti ekki, og að einhverjir aðrir hugsi „Rétt hjá honum, þetta eru bara hundlélegir þættir fyrir fólk sem fær ekki að ríða. Lemjum nörda.“

Halldór Logi Sigurðarson 13.01.2015
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Íslam )

Viðbrögð


Alice - 13/01/15 17:49 #

Eiga allir íslendingar að fræðast um eitthvað áður en það sé rétt að gera grín að það, þrátt fyrir að kúgun miljóna manna orsakast af því?

Myndirðu segja það sama um Israel? Það eru talsverðar ranghugmyndir hér á landi um gyðinga, en það þýðir samt ekki að það sé rangt að gagnrýna það sem er að gerast í Gaza. Það er alveg hægt að gera grín að trúarbrögð eða hugmyndafræði án þess að gagnrýna alla sem aðhyllast það. Við eigum bara að þekkja muninn á milli þess að gagnrýna islam og að gagnrýna múslimar.

Það eru margir múslimar sem gera grín að Islam og fá dauðshótanir vegna þess. Við eigum að standa saman við þá. Og við getum ekki beðið eftir því að allir íslendingar fræðast um islam.


Halldór L. - 14/01/15 16:18 #

Já, því húmorinn skilst ekki ef enginn grunnur er fyrir honum.

Taktu eftir því hvernig uppistandari kannar fyrst þekkingu áhorfenda á fyrirbæri áður en hann notar efni um þann hlut.

Ímyndaðu þér ef þú vissir ekki neitt um trúleysi og það fyrsta sem þú heyrðir af því væru brandarar um barnaát, að tilbiðja Eiþíismó, siðleysi og að vera vondur við trúaða.

Það er ekki góður staður til að byrja fræðslu.

Ég er ekki að tala um háskólakúrs í trúarbragðafræðum. Bara nóg til að greina á milli hatursáróðurs, húmors og staðreynda.


Gunnar Loftsson - 15/01/15 21:00 #

Heldurðu að þú eða flestir Íslendingar þekki eitthvað meira til Biblíunnar en Kóransins? Það munar ekki það miklu að ekki megi grínast harkalega að Islam. Fæstir Íslendingar hafa lesið Biblíuna nema þá samhengislaust eða þekkja hana af afspurn og það sem aðrir hafa sagt þeim. Kóraninn er að mestu fengin að "láni" frá Gyðingum í gegnum G.T. Ég held að þú sért frekar hræddur við afleiðingarnar. ;-)


Samúel Þór Hjaltalín - 16/01/15 20:30 #

Að halda því fram að ekki megi hæðast að tilteknu trúarbragði eða hugmyndafræði sökum þess að almúginn mun ekki koma til með að skilja brandarann á réttann máta er í besta falli saklaus misskilningur og í versta falli stór hættuleg sjálf-ritskoðun. Eitthvað sem mig grunar að fari bara versnandi ef það á að meðhöndla ákveðin trúarbrögð með einhverjum silkihönskum af því að fylgjendur þeirrar hugmyndafræði móðgast, sem auðvitað fólk hefir fullan rétt á, en það hefur hinsvegar engan rétt á því að vera ekki móðgað.

Međ sömu rökum er hægt ađ loka à allt grìn og gagnrýni sem tengist hverju þvì màlefni sem hver sem er heldur fram, svo sem þjóðernishyggju, and-vísindalegum áróðri og svo framvegis. Ég skil vel að menn séu hræddir við að gera gys að Íslam, svona svipað og það má ekki segja brandara um einstaklinga af öðrum húðlit, eða fatlaða, blinda etc. Maður er líka fljótur á fá á sig rasistastimpilinn og mögulega, ef grínið ferðast til nægilega fjarlægra landa, rísa upp öfl sem vilja mann helst dauðann.


Þossi - 26/01/15 21:04 #

Ég sá svosem ekki að hann væri að segja að það mætti ekki hæðast að íslam - ég skildi þessa grein sem útskýringu á því hvers vegna hann gerði ekki grín að því. Hvergi rakst ég á neitt (í lauslegri skimun) sem ég gat skilið sem "Hey, bannað að skopast með íslam!"

Fannst þetta satt best að segja vera mest eins og endursögn (eða kannske frekar nánari útlistun) á því sem ég heyrði Dara O Briain segja einu sinni.

Eins og Alice segir - margir múslimar gera grín að íslam (ég get svosem ekki nefnt neinn), ég ætla bara að trúa því sem hún segir). En fyrir mitt leyti, þá held ég að, væri ég grínisti, þá yrði það afskaplega þunnt að endursegja brandarana þeirra fyrir framan hóp af fólki sem eru hvorki múslimar né hafa alist upp sem múslimar eða í landi þar sem íslam er ríkistrúin.


Þossi - 26/01/15 21:08 #

https://www.youtube.com/watch?v=WACssKcxWLw ... þetta er það sem Dara hafði um málið að segja.


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 28/01/15 12:32 #

Við höfum gagnrýtn Íslam og munum gagnrýna Íslam. Hér er höfundur einfaldlega að lýsa því hvers vegna hann gerir ekki grín að Íslam sem grínisti.


Ásgeir Valur - 24/09/15 12:50 #

´Sýnið viðbrgð, en vinsamlega sleppuð öllum ærumeiðingum því það megum við gera en enginn annar - enginn múslími, enginn kristinn maður, enginn nema hörðustu bókstafstrúarmenn - bara þeir sem eru pólitískt rétthugsandi réttrúnaðarrakkar´. Þannig er ímyndin orðin sem trúleysistrúmenn hafa skaffað af sjálfum sér í dag og þess vegna tekur fólk þá ekki alvarlega og hefur færst í þessa átt á kostnað trúleysingja sem sjálfir hafa gagnrýnt aðra trúleysingja. Vitleysufræðin hjá Bílatrú náði hins vegar hæstum hæðum þegar liðsmenn Vantrúar uppgötvuðu að með afnámi laga um guðlast megi hver sem er gera grín að trúleysistrú hvar sem er hér á landi. Hins vegar er ljóst að Vantrú er ekki lengur hægt að kenna við einhverja ákveðna stjórnmálastefnu, t.d. fasisma eða hægri eða vinstri halla, hvað þá miðju eins og menn reyndu hér oft áður fyrr og ég tel það gott mál en það breytir því ekki að heyrst hafi að Vantrú séu verstu trúarbrögð. En ég er ánægður með að heyra að í islömskum ríkjum færist í vöxt að múslimar þar megi gagnrýna trúna því ég hef ekki heyrt þá skoðun viðraða í fjölmiðlum sem ég hef lesið.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?