Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Umboðsmaður Alþingis staðfestir að sóknargjöld séu framlög

Mynd af peningum

Umboðsmaður Alþingis hefur staðfest að ríkið innheimtir ekki nein sóknargjöld í þeim skilningi að dregin sé afmörkuð fjárhæð af hverjum og einum borgara. Trúfélög og lífsskoðunarfélög, þar á meðal ríkiskirkjan, fá einfaldlega tiltekna fjárhæð frá ríkinu, sem meðal annars byggist á fjölda meðlima. Meðlimir trúfélaga og lífsskoðunarfélaga eru ekki rukkaðir sérstaklega umfram aðra sem ekki eru í neinum slíkum félögum. Vera í trúfélagi eða lífsskoðnarfélagi hefur því engin áhrif á skattgreiðslur fólks, og meðlimir slíkra félaga borga engin frekari gjöld en aðrir. Það er því ljóst að sóknargjöld eru ekki félagsgjöld sem ríkið sér um að innheimta, heldur beinlínis framlög frá ríkinu til trúfélaga.

Svar Umboðsmanns Alþingis

Í febrúar 2011 sendi einstaklingur kvörtun til Umboðsmanns Alþingis þar sem hann kvartaði undan því að hann, sem utantrúfélagsmaður, þyrfti að borga hærri skatta en þeir sem væru í skráðum trúfélögum. Því að ef sóknargjöld eru félagsgjöld sem eru innheimt af félagsmönnum í gegnum tekjuskatt, þá er utantrúfélagsfólk að borga hærri skatt.

Svar umboðsmannsins var þetta (með viðbættum feitletrunum):

Eins og kemur fram í 1. gr. laga nr. 91/1987 og í ofantilvitnuðum athugasemdum innheimtir ríkið í reynd engin sóknargjöld í þeim skilningi að dregin sé afmörkum fjárhæð af hverjum og einum borgara heldur er kveðið á um það í lögum að þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög skuli hljóta framlag úr ríkissjóði og í stað þess að fjárhæðin sé ákveðin í fjárlögum hverju sinni er hún ákvörðuð á grundvelli sem koma fram í lögum nr. 91/1987 og henni síðan skipt á milli safnaða og trúfélaga í samræmi við reglur sem einnig koma fram í þeim lögum. …. Með öðrum orðum greiðið þér ekki hærri skatta en ella vegna stöðu yðar utan trúfélaga.

Með öðrum orðum: Ríkið innheimtir ekki sóknargjöld af fólki. Þetta eru framlög úr ríkissjóði og upphæð þeirra er reiknuð út frá trúfélagaskráningu fólks.

Hér er hægt að lesa svar Umboðsmanns Alþingis í heild sinni.

Endurtekin sannindi

Í skriflegu svari fjármálaráðherra frá því í fyrra var einnig bent á þetta:

[E]ngin sérgreind sóknargjöld eru innheimt af ríkinu, hvorki af þeim sem greiða tekjuskatt né þeim sem eru undir skattleysismörkum, heldur eru framlög vegna sóknargjalda greidd úr ríkissjóði af almennu skattfé og öðrum tekjum ríkisins óháð innheimtu tekjuskatts. Þetta kemur m.a. fram í því að framlögin eru greidd úr ríkissjóði þrátt fyrir að um þriðjungur framteljenda greiði engan tekjuskatt til ríkisins.

Það er því nokkuð ljóst að sóknargjöld eru framlög ríkisins. Og ef þetta væru innheimt félagsgjöld, þá er ljóst að með því væri brotið á mannréttindum utantrúfélagsfólks á Íslandi.

Síendurtekinn áróður ríkiskirkjunnar um að sóknargjöldin séu félagsgjöld[1] er því ósannur og aum tilraun til að réttlæta meiri fjáraustur til ríkiskirkjunnar úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.


[1] Sem dæmi er hægt að benda á ályktun kirkjuþings 2013 um fjármál ríkiskirkjunnar:

"Undanfarin ár hefur þjóðkirkjan tekið á sig umtalsverða tekjuskerðingu þar sem greiðslur til kirkjunnar hafa minnkað ár frá ári. Annars vegar er þar um að ræða lögbundin sóknargjöld, félagsgjöld, sem ríkið innheimtir og hins vegar samningsbundnar greiðslur vegna kirkjueigna sem ríkinu voru afhentar með sérstöku samkomulagi frá 1997."

Ritstjórn 07.01.2015
Flokkað undir: ( Klassík , Ríkiskirkjan , Stjórnmál og trú , Sóknargjöld )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/01/15 09:28 #

Innanríkisráðherra sagði

„Já. Ríkið er að innheimta sóknargjöldin fyrir hönd kirkjunnar. Sóknargjöldin eru líka hluti af tekjum ríkisins og það er eitt af því sem Sigurður Þórðarson og við hér í ráðuneytinu í vetur munum skoða, hvernig best er að haga því og koma því fyrir.“ #

Eins og fram kemur í áliti Umboðsmanns Alþingis hefur ráðherra kolrangt fyrir sér hvað þetta varðar, ríkið "innheimtir" ekki neitt fyrir hönd kirkjunnar.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 07/01/15 15:58 #

Starfsmenn ríkiskirkjunnar eru alltaf að dásama "samtal" og hvetja fólk til þess að vera duglegt að verja málstað kirkjunnar á opinberum vettvangi.

Hér er opið fyrir athugasemdir. Vill þetta fólk ekki ræða um sóknargjöld?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 07/01/15 16:15 #

Mér skilst á innanbúðarmönnum mínum að Vantrú sé sko ekkert brúkað þar á bæ!


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 09/01/15 23:51 #

Hérna eru einu viðbrögðin frá starfsmönnum ríkiskirkjunnar sem ég hef séð:

Væntanlega vita fjármálaráðuneytið og Umboðsmaður Alþingis heldur ekkert um málið að mati Bolla.


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 10/01/15 10:35 #

Bolli talar hér um ósýnileg sóknargjöld og félagsgjöld. Hann trúir á ósýnilega guði, og ósýnileg gjöld. "The invisible and non existent look very much alike"


Sindri G - 10/01/15 13:29 #

Þessi athugasemd er farin held ég


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 18/01/18 15:16 #

Bara svo að því sé haldið til haga, þá staðfesti Umbinn þetta svo í öðru máli (8118/2014):

A kvartaði yfir því að á hann væri lagður skattur sem næmi upphæð sóknargjalds, 9.000 kr. á ári, umfram þá sem væru skráðir í lífsskoðunar- og trúfélög.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. ágúst 2014. Þar benti hann á að samkvæmt 2. mgr. 64. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 væri öllum frjálst að standa utan trúfélaga og enginn væri skyldur til að inna af hendi persónulega gjöld til trúfélags sem hann ætti ekki aðild að. Í 3. mgr. sama ákvæðis kæmi fram að væri maður utan trúfélaga þá greiddi hann Háskóla Íslands þau gjöld sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Þessu mætti breyta með lögum. Þá benti umboðsmaður á að um gjöld til lífsskoðunar- og trúfélaga væri fjallað í lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl. Af ákvæðum þeirra laga leiddi að í reynd innheimti ríkið engin sóknargjöld heldur væru um að ræða að framlagið væri reiknað samkvæmt lögum á grundvelli tiltekinna viðmiða, þ.e. „hlutdeild í tekjuskatti“. Eftir breytingu sem hefði verið gerð á lögunum fengi Háskólasjóður Háskóla Íslands ekki lengur hlutdeild í tekjuskatti vegna einstaklinga sem væru ekki skráðir í trúfélög.

Samkvæmt framangreindu taldi umboðsmaður að fyrir lægi sú afstaða löggjafans að fjármögnun lífsskoðunar- og trúfélaga af hálfu ríkisins skyldi þannig háttað að þeim væri ætluð ákveðin hlutdeild í álögðum tekjuskatti en sérstakur skattur væri ekki lagður á í þeim tilgangi. Í þessu sambandi minnti umboðsmaður á að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Almennt væri það því ekki í verkahring umboðsmanns að láta í ljós álit sitt á því hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?