Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Góðir Íslendingar

Mynd af korti af Íslandi og íslenskum fánum

Frá fæðingu og undanfarin 30 ár hef ég búið á Íslandi, en ég er ekki Íslendingur. Foreldrar mínir eru bæði fædd og uppalin á Íslandi, en ég er ekki Íslendingur. Ég er virkur neytandi íslenskrar menningar, en ég er ekki Íslendingur. Ég er unnandi íslenskrar tungu og bókmennta, en ég er ekki Íslendingur. Ég hef unnið árum saman við sjávarútveg, en ég er ekki Íslendingur. Ég hef meira að segja átt og ræktað hina íslensku sauðkind, en þrátt fyrir allt er ég ekki Íslendingur.

Hingað til hef ég þó lifað í góðri trú og vissu um að ég sé Íslendingur, enda benti flest til þess að svo væri. Ég hafði í raun enga ástæðu til að halda neitt annað. Þar til núna rétt fyrir jól, en þá sendi biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, mér og fjórðungi þjóðarinnar, ansi kaldar jólakveðjur. Maður er víst ekki Íslendingur nema maður fari í kirkju! Hluti af því að vera Íslendingur er samkvæmt biskupi að fara í kirkju og því get ég ekki skilið hana öðruvísi en svo að hún líti þannig á að ég sé ekki Íslendingur.

Undanfarin ár hefur fækkað hratt og örugglega í Þjóðkirkjunni, og Íslendingum hefur því væntanlega fækkað samhliða. Rúmlega 38 þúsund íbúar landsins standa utan skráðra trúfélaga og um 43 þúsund tilheyra öðrum trúfélögum en Þjóðkirkjunni. Rúmlega 80 þúsund íbúar Íslands eru því ekki Íslendingar samkvæmt skilgreiningu biskups, og þá gefum við okkur að hvert einasta sóknarbarn Þjóðkirkjunnar sæki kirkju reglulega.

Að þessu sögðu þykja mér orð biskups bæði rætin og dónaleg, og til þess eins fallin að ala á sundrungu og úlfúð í samfélaginu, og má biskup hafa skömm fyrir. Það er ekki beinlínis fyrir miklum jólakærleik að fara í þessum skilaboðum. En ég á auðvitað ekkert með að vera að halda jól, hundheiðinn maðurinn, eða hvað?

Siggeir F. Ævarsson 05.01.2015
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Hanna Lára Gunnarsdóttir - 05/01/15 17:45 #

Að mínu viti ert þú margfalt meiri (og betri) Íslendingur en allir prestar landsins samanlagt, Siggeir. Ég tek undir það sem þú skrifar og get bætt við að ég er orðin meira en lítið pirruð á því hvernig prestar tala til okkar sem ekki erum trúuð og voga sér síðan að barma sér yfir því að við, þessi ´hundheiðnu´ tökum því ekki þegjandi lengur. Sbr http://www.sillybeliefs.com/images/atheist-respect.jpg

Höldum áfram að láta í okkur heyra og til okkar sjást. Með rósemi og kurteisi -en af staðfestu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.