Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kærleiksboðskapur Krists

Mynd af Jesú og börnum

„Kærleiksboðskapur Krists getur engan veginn verið hættulegur grunnskólabörnum“ skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir í grein í Morgunblaðinu nýverið í tengslum við umræðuna um samskipti kirkju og skóla og trúboð í opinberum skólum. Rökin gegn því að ríkið boði börnum kærleiksboðskap Krists (trúboð) snúast alls ekki um skaðsemi þess boðskapar, heldur um hvert sé eðlilegt hlutverk ríkisvaldsins þegar kemur að trúmálum og trúaruppeldi. Fæstir sem eru á móti trúboði í opinberum skólum telja að boðskapur Krists sé í raun beinlínis skaðlegur börnum. Ég er hins vegar ósammála þeim sem telja meintan kærleiksboðskap Krists skaðlausan. Þó að það komi málinu sem slíku ekki við, þá er boðskapur Krists skaðlegur og er ekki sannur kærleiksboðskapur þegar betur er að gáð. Hér eru fjögur stutt dæmi:

  1. Samkvæmt „kærleiksboðskap“ Krists mega börnin ekki elska foreldra sína meira en þau elska Jesú. Það getur ekki verið þeim auðvelt eða eðlislægt.

    „Sá sem ann föður eða móður meir en mér er mín ekki verður og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér er mín ekki verður.“ – Jesús (Matt 10: 37-39)

  2. Samkvæmt „kærleiksboðskap“ Krists ber okkar að hræðast Guð sem getur tortímt okkur í helvíti. Slíkur boðskapur er ekki hollur fyrir börn.

    „Hræðist ekki þá sem líkamann deyða en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti.“ – Jesús (Matt 10:28)

  3. Sérhver borg sem tekur ekki við lærisveinum Jesú og boðskap hans verður eytt eins og Sódómu og Gómorru. Slík grimmd á ekki erindi við börn.

    „Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar. Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg.“ - Jesús (Matt 10:14-15)

  4. Þeir sem trúa ekki munu dæmdir fyrir það. Dómur fyrir ranga skoðun getur ekki verið kærleiksríkur og réttlátur.

    „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða en sá sem trúir ekki mun dæmdur verða.“ – Jesús (Mark 16:16)

Kolbrún, meintur boðskapur Krists er víst skaðlegur grunnskólabörnum, sem og fólki almennt.


Mynd fengin hjá James Shephard.

Sindri G. 20.12.2014
Flokkað undir: ( Skólinn , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Reynir - 20/12/14 11:34 #

Lúkas 14:26 Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 20/12/14 11:41 #

Ég ákvað einmitt að nota Matt 10:37-39 frekar en Lúk 14:26 vegna þess að fjölmagir trúmenn þræta stöðugt fyrir það að það sé réttur skilningur að það eigi beinlínis að hata föður og móður eins og segir í Lúk 14:26. Ég tók þann pól í hæðina að nenna ekki þeirri rökræðu (þ.e. ef hún kæmi upp - um það hvað Lúkas 14:26 þýddi í alvöru - og með meðfylgjandi ásökunum um að maður væri bara ekki að skilja á réttan veg, og meðfylgjandi höggstað á málflutninginn), því það er nógu slæmt að þurfa að elska Jesú meira en mömmu sína og pabba til að vera hans verður, og notaði því dæmið úr Matteusi frekar en Lúkasi.


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 20/12/14 11:46 #

Enda er einmitt búið að grænsápuþvo þetta vers í nýjustu Biblíuþýðingunni, og það er nú þýtt svo: „Enginn getur komið til mín og orðið lærisveinn minn nema hann taki mig fram yfir föður og móður, maka og börn, bræður og systur og enda fram yfir eigið líf."

Enda þetta er einmitt frábært dæmi um eitthvað sem á ekkert erindi við börn. Jesús væri að kenna þeim að taka hann fram yfir allt og alla, annars ættu þau ekkert erindi til hans.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 20/12/14 13:15 #

Góð áminning í þessari grein því Jesú og lærisveinarnir yfirgáfu fjölskyldur sínar til að lifa eins og engisprettur, sprellaði svo með töfrabrögð og orðaleiki. Bað gyðinga að elska Rómarveldi (óvininn) og greiða keisaranum það sem honum bar. Lofaði heimsenda (sem aldrei kom) og frankenstein upprisu á kristnu holdi. Boðaði norður kóreskt feðgaeinveldi og hótaði þeim öllu illu sem uppskáru ekki ríkulega af ökrum einveldisins. Dásamaði svo hungursneið og vesæld sem dyggð. Það er ekkert barnvænlegt við þessa heimsmynd.


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 21/12/14 19:25 #

Hér er annað gott

„Sá sem trúir á soninn hefur eilíft líf en sá sem óhlýðnast syninum mun ekki öðlast líf heldur varir reiði Guðs yfir honum.“ - Jóh. 4:36.


Þorsteinn Sigurðsson - 11/03/15 20:03 #

HEI! Gleymum nú ekki :
"Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð." (Matt 30:34).
Það er erfitt að finna augljósari ívitnun um að boðskapur Krists hefur EKKERT með frið að gera. 8-

Hér er talað um mikið fjöldamorð innan hjónabanda, vinnustaða og kirkja:
"Sá sem vill sjá lífi sínu borgið, mun týna því, en sá sem týnir því, mun öðlast líf. Ég segi yður: Á þeirri nóttu verða tveir í einni hvílu, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. Tvær munu mala á sömu kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. Tveir verða á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn." (Lúk 16:33-37)
Þeir spurðu hann þá: "Hvar, herra?" En hann sagði við þá: "Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er."

Og allir auðvitað grillaðir í "eldi" :(
"Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða." (Mat 10:20)

Gleymum svo ekki opinberunarbókinni þar sem yfirgnæfandi meirihluti mannkyns er útrýmt.

Kærleikur? NOT... 8-

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.