Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er eitthvað að marka ályktanir kirkjuþings?

Mynd af málverki

Kirkjuþing, eins konar Alþingi ríkiskirkjunnar, hefur undanfarin fjögur ár sent frá sér ályktun þar sem fullyrt er að sóknargjöld séu “félagsgjöld". Sóknargjöld eru í raun og veru ekki félagsgjöld en gefum okkur að kirkjuþing hafi rétt fyrir sér.

Ef sóknargjöld eru félagsgjöld, sem ríkið innheimtir fyrir trúfélög, þá er augljóst að þeir sem eru ekki í þessum félögum ættu ekki að borga sóknargjöld. Þannig virka félagsgjöld, ef þú ert ekki í félaginu þá borgar þú ekki félagsgjöld.

Það sem meira er, að rukka utantrúfélagsfólk um “félagsgjöld", er afskaplega vafasamt út frá lagalegu sjónarhorni því í raun væri um að ræða sérstakan skatt á utantrúfélagsfólk. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna benti á óréttlætið árið 2012 og Kirkjuþing veit af þessu, enda var rætt um þessa ábendingu mannréttindanefndarinnar á Kirkjuþingi.

Hugsanlega trúa kirkjuþingsmenn því ekki í alvörunni að sóknargjöld séu félagsgjöld. Fullyrðingar þeirra væru þá bara hreinir áróðurspunktar. Hugsanlega eru þeir sáttir við það óréttlæti að skattleggja utantrúfélagsfólk aukalega, af því að þeir græða á því.

En ef þau trúa því að sóknargjöld séu félagsgjöld og að það sé rangt að brjóta á mannréttindu utantrúfélagsfólks, þá ættu þau að vera á móti núverandi fyrirkomulagi sóknargjalda.

Og ríkiskirkjan getur ekki þvegið hendur sínar af fyrirkomulaginu. Alþingi ber vissulega endanlega ábyrgð á lögum landsins, en ríki og kirkja sömdu núverandi lög um sóknargjöld saman, og ríkiskirkjan hefur barist gegn því að þessu yrði breytt.

Kirkjuþing verður sett um helgina og þegar þau álykta um sóknargjöld, þá skulda þau utantrúfélagsfólki það að segja að hætta eigi að rukka utantrúfélagsfólk um sóknargjöld. Ef þau gera það ekki, þá er ekkert að marka ályktanir þeirra um sóknargjöld.

Ritstjórn 25.10.2014
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan , Sóknargjöld )

Viðbrögð


Sindri Geir - 31/10/14 00:44 #

Í þessari umfjöllun Orðsins um kirkjuþing er komið inná sóknargjöldin sem félagsgjöld á nokkrum stöðum.

https://ordid.hi.is/?p=1095


Jón Valur Jensson - 03/01/15 19:53 #

Þið skrökvið opinberlega nú í kvöld á Moggabloggs-vefsíðu ykkar: http://vantru.blog.is/blog/vantru/entry/1567149/ þar sem þið reynið að sanna það, að sóknargjöld séu ekki félagsgjöld, heldur "framlög frá ríkinu". Þar látið þið sem sóknargjöldin komi frá fólki, sem er EKKI í kirkjunni, og fólki i kirkjunni og fari (um hendur ríkisskattstjóra) til "ríkiskirkjunnar".

Hér er engin ríkiskirkja, en aðalatriði í þessu er, að þið haldið því ranglega fram, að utanþjóðkirkjufólk borgi framlög til sóknargjalda Þjóðkirkjunnar.

Utanþjóðkirkjufólk borgar hins vegar framlag af sköttum sínum til launa presta og biskupa Þjóðkirkjunnar og starfsfólks Biskupsstofu. Skipaðir sóknarprestar fá ekki laun sín af sóknargjöldum (sem fara til reksturs kirkna og kóra og almennra starfsmanna þar, flestra óvígðra), heldur af þessu framlagi, sem hér um ræðir. Og það framlag helgast af því, að ríkið er á þennan hátt að endurgreiða Þjóðkirkjunni fjölda kirkjujarða eða afraksturinn af þeim. Sjá nánar hér: Gegn árásum á Þjóðkirkjuna.

Með nýárskveðju.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/01/15 20:11 #

Hér er engin ríkiskirkja,

Víst er hér ríkiskirkja Jón Valur. Jú víst. Jú, jú, jú. Víst.

þið haldið því ranglega fram, að utanþjóðkirkjufólk borgi framlög til sóknargjalda Þjóðkirkjunnar.

Það er nákvæmlega enginn greinarmunur gerður á mínum sköttum og sköttum séra Jóns þegar kemur að því að fjármagna greiðslur svokallaðra sóknargjalda til ríkiskirkjunnar. Þetta er allt tekið úr sömu hýt. Jón greiðir ekki hærri skatta til ríkisins, en hann nýtur óbeint hærri styrkja (því trúfélagið hans fær greiðslur í hans nafni).

það framlag helgast af því, að ríkið er á þennan hátt að endurgreiða Þjóðkirkjunni fjölda kirkjujarða eða afraksturinn af þeim

Þessar kirkjujarðir hafa verið marggreiddar eins og oft hefur verið bent á hér á Vantrú - og þú veist vel.


Predikarinn - 03/01/15 22:51 #

Félagar í Vantrú hafa rangt fyrir sér eins og um það bil alltaf þegar þeir taka fyrir umræðu er varðar trúfélög. Það virðist vera meinloka í þeim að geta aldrei látið trúfélög njóta sannmælis.

Staðreyndin er auðvitað sú að þessi félagsgjöld eru felld inn í skattheimtu, en ekki sem almennur skattur, samanber Lög um sóknargjöld og fleira, og því ólögmætt af síðustu ríkisstjórn að skerða þetta félagsgjald til trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.

Í þessu sambandi megum við ekki gleyma að síðasta ríkisstjórn skar með ólögmætum hætti margsinnis á stjórnartíð sinni niður sóknargjöld til trúfélaga um marga tugi prósenta og hirti til annarra óskyldra verkefna þá aura sem af voru skornir. Innheimtumönnum ber auðvitað lögum samkvæmt að skila því sem þeir taka að sér að innheimta og þar með er ráðstöfun sem þessi klárt lögbrot og varðar í raun sektum og fangelsisvist ef venjulegur maður dytti í hug að gera slíka óhæfu.

Á þennan hátt svelti síðasta ríkisstjorn alla starfsemi trúfélaga þannig að mjög víða ramba sóknir þjóðkirkjunnar og trúfélög ýms á barmi gjaldþrots þrátt fyrir að hafa skorið niður starfsemi og útgjöld sín til mótvægis á þessu quadrennium horribilis sem þessi skelfingarstjórn stóð yfir.

Vel að merkja þá leyfði ríkisstjórn þessi sér slíkar aðgerðir þegar venjulegt fólk þurfti verulega á kirkju sinni að halda sem aldrei fyrr. Alþjóðlegt bankahrun var nýgengið yfir heimsbyggðina með tilheyrandi vandamálum og gengisfelling krónunnar varð enn meiri hjá okkur íslendingum vegna alls kyns glæfra útrásarböðla þjóðarinnar um langt skeið.

Við þessar aðstæður varð margt heimilið örbirgð að bráð og leitaði til sálusorgara síns um bæði andlega og fjárhagslega aðstoð. Sem fyrr segir er öll sálusorgun án endurgjalds hjá þjóðkirkjunni. Hitt er annað að fjármagn til að geta aðstoðað einstaklinga í neyð, sem átti jafnvel ekki fyrir mat handa börnum sínum hluta mánaðarins vegna mikilla útgjalda þar sem nauðþurftir höfðu hækkað í verði og veðlán heimilanna rokið upp úr öllu valdi með tiheyrandi auknum útgjöldum, var auðvitað af skornum skammti eftir slíkan ólögmætan niðurskurð.

Sama átti við um verðtryggða leigu þeirra sem á leigumarkaði voru. Sjóðir kirkjunnar eru fljótir að verða þurrausnir við slíkar aðstæður. Ég veit um presta sem gáfu úr eigin veski við erfið tilfelli sem þau sem ég nefndi því það er vitaskuld ekki auðvelt að þurfa að snúa grátbólginni einstæðri móður, sem ekki á til að kaupa matvæli handa ungviði sínu, á braut allslausri úr slíkri bónarför. Það er eitt að eiga erfitt, en erfið og níðþung eru þau skref fyrir móður í slíkum aðstæðum að fara til prestsins síns og óska eftir slíkri aðstoð og fáar gera slikt fyrr en öll önnur sund eru þeim lokuð.

Þannig lét ríkisstjórnin greipar sópa um veski trúfélaga sem hver annar innbrotsþjófur að næturlagi þannig að eftir stóð ekki nema um 56-57% af því félagsgjaldi sem trúfélög áttu með réttu að fá.

Þetta er ríflegur niðurskurður hvernig sem á hann er litið - og kolólöglegur.

Ef félagar í Vantrú hefðu tekið að sér að innheimta þetta fyrir trú- og lífsskoðunarfélög þess lands fyrir 5 árum síðan og hefðu haldið eftir þessum fjármunum fyrir sig sjálfa þá sætu þeir á Litla Hrauni meðal annarra glæpamanna þjóðarinnar. Hvar sitja fyrrum forsætis- og fjármálaráðherra sem stálu þessum fjármunum með fulltingi meirihluta síns á Alþingi ?

Í makindum í stofu sinni á meðan flest trúfélög landsins eru annað hvort þegar orðin gjaldþrota eða ramba á barmi gjaldþrots af völdum þessara óþokkahjúa Jóhönnu og Steingríms J. .

Ég mun hér í sparnaðrskyni á tíma mínum setja hér inn hluta úr upprifjun sr. Gísla Jónassonar prófasts á þessu málefni :

„ Í þessu sambandi skal það rifjað upp að þegar undirritaður hóf störf sem sóknarprestur í Vík í Mýrdal árið 1982 tíðkaðist það enn að gjaldkeri sóknarnefndar gekk fyrir hvers manns dyr til að innheimta sóknargjaldið. Ég gekkst þess vegna fljótlega fyrir því að semja við sýslumanninn, sem á þeim tíma var innheimtumaður opinberra gjalda, um að hann annaðist þessa innheimtu svipað og gjaldheimtan í Reykjavík gerði þá fyrir söfnuðina í höfuðborginni. Á þessum tíma vissu allir hverjum þessar tekjur tilheyrðu.

Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp vildi ríkisvaldið útrýma öllum „nefsköttum“. Því var kirkjunni og öðrum trúfélögum gert það tilboð, að ríkið skyldi taka að sér að innheimta og síðan skila sóknargjöldum til réttra aðila, sem tiltekið hlutfall af tekjuskatti.

Var það fyrirkomulag síðan fest í lög með gildandi lögum um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga segir að það meginsjónarmið hafi verið haft við tillögugerðina að trúfélögin haldi tekjustofnum sínum óskertum, miðað við það sem þau hafi áður haft. Jafnframt sé mikilvægt að reglur sem settar verði tryggi stöðugleika á tekjustofnum þeirra.

Þá segir í greinargerðinni að kostir þeirrar leiðar, sem valin var við að reikna út og skipta umræddum gjöldum, séu einkum þeir að hún sé einföld í framkvæmd, hún tryggi til frambúðar stöðugleika á umræddum tekjustofnum og fylgi tekjubreytingum. Þetta auðveldi trúfélögunum að áætla tekjur sínar og byggja fjárhagsáætlanir á þeim.“


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 03/01/15 23:07 #

Sú hugmynd að Alþingi hafi verið að brjóta lög með því að lækka framlag ríkisins í formi sóknargjalda er svo fráleit að hún var skotin niður á kirkjuþingi. Ef þetta væri svona "kolólöglegt", af hverju hefur ríkiskirkjan þá ekki farið í mál við ríkið, ósanni Predikari?

Eins og hefur komið fram áður. Þá borgar fólk (hvort sem það er í eða ekki í ríkiskirkjunni) tekjuskatt. Úr þeim peningi sem þannig er innheimtur er gefin ákveðin upphæð til trúfélaga.

Allir þeir sem borga tekjuskatt borga í þetta. Þetta eru ekki félagsgjöld. Og það er ekki ólöglegt af ríkinu að lækka þessi framlög.


Predikarinn - 03/01/15 23:15 #

Ekkert af þessu skaut kirkjuþing niður. Ég hef svarað þér þessu áður HRÓ. Þarf að margtyggja staðreyndir ofan í þig ?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 03/01/15 23:19 #

Predikari: Á kirkjuþingi var sú hugmynd að kæra ríkið vegna sóknargjalda útskýrð þannig að sú kæra yrði að vera á þeim grunni að "Alþingi Íslendinga hefði ekki heimild til að setja lög".

Enn og aftur: Ef ríkið er augljóslega að brjóta lög, af hverju kærir kirkjan þá ekki ríkið? Vill hún ekki þessa milljarða?


Predikarinn - 03/01/15 23:19 #

Hér er úr svari mínu til þín um þetta fyrir margt l0ngu :

Þú veist að byskuparnir hafa verið góðmenni og ekki viljað láta sverfa til stáls þó hér sé um þjófnað að ræða. Þeir eru aumingjagóðir byskuparnir sem kallað er. Þeir þekkja sennilega til geðheilsu þeirra sem að þessu stóðu.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 03/01/15 23:23 #

Jahá. Þannig að það eru tveir möguleikar. Biskuparnir hafa ekki viljað stefna ríkinu upp á nokkra milljarða króna vegna:

  1. Þeir vita að málið mun ekki vinnast.
  2. Þeir eru "góðmenni" og þekkja "geðheilsu" þeirra sem skáru niður sóknargjöld.

Miðað við umræður á kirkjuþingi, þá er 1 svarið. Miðað við hugarheim einhvers "Predikara", þá er 2 svarið.


Predikarinn - 04/01/15 00:02 #

Þú getur HRÓ snúið út úr þessu eins og þú vilt - enda gerir þú fátt eitt annað þegar kemur að kritnum málefnum Þá grípur þú að vanda til þess sem skáldið kvað, hálfsannleikur oftast er, óhrekhandi lygi. Það er vitað að lafgalegur grunnur kröfu trúfélaga er á traustum gtunni og óþokkahjúin fóru ránshendi um veski trúfélaga. En þar sem lagagrunnurinn er traustir er best að knýja fram samninga um endurgreiðslu en a'ð fara í málaferli sem taka langan tíma og eru kostnaðarsöm, enda er niðurstaðan nokkuð ljós fyrir.


Jón Valur Jensson - 04/01/15 03:07 #

Það er út í hött að tala um Þjóðkirkjuna sem ríkiskirkju. Hún var það um tíma fyrr á öldum, en ekki lengur, þegar komið var fram á 20. öld og ennþá síður á 21. öld. Dr. Björn Karel Þórólfsson (Biskupsskjalasafn, Skrár Þjóðskjalasafns III, í hans langa inngangi þar, bls. 68) skiptir íslenzkri kirkjusögu í fimm tímabil: 1) goðakirkjuna, 2) "hina algjöru páfakirkju", 3) lútherska landskirkju, eins og á dögum Brynjólfs biskups, 4) ríkiskirkju, eins og um aldamótin 1800, og 5) þjóðkirkju. "Ríkiskirkjunni var breytt í þjóðkirkju með stjórnarskránni 1874 ..." segir hann og vísar ekki sízt til lýðræðisvæðingar kirkjunnar um þá breytingu. Og eftir það hefur sjálfstæði hennar, með stofnun Kirkjuþings og breytingum undir lok 20. aldar, færzt til þess að verða sama sem algert.

Þarna er ekki nóg fyrir ykkur Vantrúarmnn að vísa í, að í lagasafni Alþingis sé að finna ýmis lög sem snúa beint að trúmálum og að á lista yfir þau sé "að finna 34 lög og flest þeirra ... samin með ríkiskirkjuna í huga," eins og segir á einni þeirra vefslóða sem Matti nokkur vísaði til í innleggi sínu hér kl. 20:11 í kvöld. Kaþólska kirkjan á Íslandi á miðöldum var EKKI ríkiskirkja, heldur hin alþjóðlega kirkja með yfirstjórn í Róm og erkibiskup í Niðarósi með visst vald hér í kirkjumálum. Samt voru ýmis lög samþykkt á Alþingi sem snertu kirkjuna allt frá kristnitökunni, einnig tíundarlögin (1096 eða 1097) og kristinréttur hinn forni (á árabilinu 1022–33) og lögin mikilvægu frá 1253 um, að þar sem á greindi landslög og Guðs lög, þ.e. lögmál kaþólskrar kirkju, skyldu Guðs lög ráða. Allt þetta merkti þó ekki, að kaþólska kirkjan hafi verið ríkisstofnun (eins og orðið "ríkiskirkja" klárlega merkir), enda var hún sjálfstæð stofnun með sjálfstæða yfirstjórn og sitt eigið stjórnkerfi og dómskerfi og trúar- og siðferðis-kenningakerfi sem var í samræmi við hina alþjóðlegu kaþólsku kirkju. Og Þjóðkirkjan er heldur ekki ríkiskirkja.

Þjóðkirkjan hefur sína eigin innri stjórn sinna mála skv. lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr.78/1997 m/síðari br., er þar skv. 1. gr. "sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni," og í 2. gr. hennar segir: "Þjóðkirkjan nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka. Þjóðkirkjan, einstakar sóknir og stofnanir hennar njóta sjálfstæðrar eignhelgi og koma fram sem sjálfstæðir aðilar gagnvart almannavaldinu eftir því sem við getur átt."

Engu breytir um þetta, að í 3. gr. sömu laga segir: "Íslenska ríkið greiðir þjóðkirkjunni árlegt framlag á grundvelli samninga um kirkjueignir og prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar til viðbótar öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum." Sjálf er þessi grein (frá 2007) einmitt staðfesting á því, að Matti og félagar fara með fleipur, þegar þeir halda því fram á grundvelli falsraka, að "þessar kirkjujarðir hafa verið marggreiddar."


Matti (meðlimur í Vantrú) - 04/01/15 11:35 #

það er vitað að lafgalegur grunnur kröfu trúfélaga er á traustum gtunni og óþokkahjúin fóru ránshendi um veski trúfélaga.

Það er vitað! Hverjir vita það? Hvernig vita þeir það? Hvar eru gögnin? Prédikari, sýndu almennileg gögn - það hefur Hjalti gert.

Jón Valur, prófaðu að sofa á nóttinni.

Það er út í hött að tala um Þjóðkirkjuna sem ríkiskirkju.

Nei, það er það ekki og fjölmargir sérfræðingar - þ.m.t. innan ríkiskirkjunnar - tala um Þjóðkirkjuna sem ríkiskirkju.

Sjálf er þessi grein (frá 2007) einmitt staðfesting á því, að Matti og félagar fara með fleipur, þegar þeir halda því fram á grundvelli falsraka, að "þessar kirkjujarðir hafa verið marggreiddar."

Ég skal endurorða þetta fyrir þig Jón Valur. Íslensa ríkið hefur greitt ríkiskirkjunni (þjóðkirkjunni) miklu meira en verðmæti jarðanna - jafnvel tífalt verðmæti þeirra.

Fyrir utan það að ríkiskirkjan á ekkert réttmætt tilkall til þessara jarða sem hún eignaðist meðan ekki var trúfrelsi á Íslandi. Jarðirnar tilheyra þjóðinni sjálfri með réttu, ekki einhverri forréttindaklíku. En kaþólikkar skilja ekki slíkt hugarfar.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 04/01/15 11:45 #

Það er vitað að lafgalegur grunnur kröfu trúfélaga er á traustum gtunni og óþokkahjúin fóru ránshendi um veski trúfélaga.

Hann er svo traustur að jafnvel sérfræðignar sem sitja á kirkjuþingi telja málshöfðun vera fráleita!

ríkisstofnun (eins og orðið "ríkiskirkja" klárlega merkir),...

Jón Valur, farðu inn á fyrirtækjaskrá Ríkisskattsstjóra og settu inn "biskupsstofa".

Þú munt komast að því að hún er flokkuð sem ríkisstofnun, enda er Þjóðkirkjan ríkisstofnun og þar af leiðandi ríkiskirkja.

Svo er ótrúlegt að þú skulir ásaka mig um að "skrökva" fyrir að kalla Þjóðkirkjuna ríkiskirkju, þegar jafnvel helsti sérfræðingur landsins á þessu sviði, Hjalti Hugason, segir að það sé fræðileg deila um það hvort að Þjóðkirkjan sé ríkiskirkja eða ekki. Eru allir fræðingarnir sem deila okkar skoðun líka að "skrökva"?


Jón Valur Jensson - 05/01/15 00:57 #

Skráning ríkisskattstjóra á Biskupsstofu segir ekkert um eignarhald á henni, hvað þá um eignarhald á allri Þjóðkirkjunni í heild.

Á Facebók minni vísaði ég á grein mína á Moggabloggi undir fyrirsögninni: Þjóðkirkjan er ekki "ríkiskirkja", sem hefst á orðunum: "Það er út í hött að tala um Þjóðkirkjuna sem ríkiskirkju." Þar, á Facebókinni, sést, að Karli Sigurbjörnssyni, Fb-vini mínum, fyrrverandi biskupi Íslands, líkar við þá grein mína – og vitaskuld er það ekki til marks um, að hann sé haldinn sömu bábiljum og þið hérna.

Eða hvenær nákvæmlega "eignaðist" ríkið Þjóðkirkjuna að ykkar hinna fáfróðu mati?!!!


Jón Valur Jensson - 05/01/15 01:15 #

Afstaða Matta til eignarréttar er honum ekki til sóma.

Vitaskuld voru kirkjujarðirnar nægar að verðmæti til að framfleyta með eðlilegri árlegri rentu sinni um 120–150 prestum Þjóðkirkjunnar. Blaður þessa Matta, að ríkið hafi "greitt" "jafnvel tífalt verðmæti" kirkjujarðanna til Þjóðkirkjunnar, er alveg makalaust vitlaust og kannski fyrsti alvörubrandari ársins, en sýnir þó kannski fyrst og fremst inn í hugskot þessa manns, eftir að hann hefur árum saman hamazt á kirkju og kristindómi á þessum vef trúlausra.

Merkilegt að hamast þannig gegn kristindómi, sem afnam útburð barna, hólmgöngur, að þrælum og gamalmennum væri varpað fyrir björg og mönnum fórnað til að blíðka gerviguði Ásatrúar –– en ganga hins vegar fram til varnar islamstrú, sem færa myndi klukkuna aftur á bak um aldir um mann- og kvenréttindi hér á landi. Þetta sýnir kannski bezt, hvernig andúðin blindar menn, svo að þeir kunna ekki lengur gott að meta og sjá ekki hætturnar sem þeir ættu miklu fremur að gæta að og steðja að þjóðum Norðurálfu, ef dogmatískt islam tekur í vaxandi mæli við af kristni á þessari nýbyrjuðu öld.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/01/15 10:25 #

Afstaða Matta til eignarréttar er honum ekki til sóma.

Víst, þessi afstaða mín er til fyrirmyndar. Hún sýnir bestu mannkosti mína.

Vitaskuld voru kirkjujarðirnar nægar að verðmæti til að framfleyta með eðlilegri árlegri rentu sinni...

Reyndar ekki. Það er ástæðan fyrir því að kirkjan, nærri gjaldþrota, samdi við ríkið á sínum tíma.

Merkilegt að hamast þannig gegn kristindómi, sem afnam útburð barna...

Merkilegt að styðja kristindóm, sem brenndi villutrúarfólk á báli.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 05/01/15 15:12 #

Skráning ríkisskattstjóra á Biskupsstofu segir ekkert um eignarhald á henni, hvað þá um eignarhald á allri Þjóðkirkjunni í heild.

Þetta segir okkur að ríkiskirkjan er ríkisstofnun.

Annars vegar höfum við ríkisskattstjórann og innanríkisráðuneytið, sem bæði flokka Biskupsstofu sem ríkisstofnun. Og hins vegar höfum við Jón Val.

Hvor ætli viti betur?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?