Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Spurt og svarað um Vantrú

Spurningamerki

Í þessari samantekt eru algengar spurningar um Vantrú og þeim svarað stutt og skýrt, oft með vísunum í ítarefni. Spurningarnar varða tilgang og eðli Vantrúar, lítið eitt um trúleysi, um efnistök Vantrúar og uppákomur félagsins; hvað við gerum, hvað við höfum gert og hvað við ætlum að gera. Við tökum fram að þetta er ekki tæmandi listi, þannig að ef þið hafið frekari spurningar varðandi félagið er hægt að skrifa athugasemd við greinina, sent póst á vantru@vantru.is, skráð ykkur á Spjallið og spurt þar eða sent skilaboð á Facebook-síðu Vantrúar.

Spurningar um Vantrú

Spurt og svarað um Vantrú

Hvað er Vantrú?

Vantrú er félag og vefrit trúleysingja. Vefritið hefur verið starfrækt síðan 2003 og félagið var stofnað árið 2004. Tilgangur félagsins er að "veita mótvægi við boðun hindurvitna og vinna gegn áhrifum þeirra í samfélaginu" líkt og greint er í 2. grein í lögum félagsins.

Hver eru helstu baráttumál ykkar?

Við höfum sérstaklega barist fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju, gegn trúboði í leik- og grunnskólum, gegn mismunun, gegn því að skottulækningar verði hluti af heilbrigðiskerfinu og öðru sem tengist tilgangi félagsins. Aðalbaráttumál Vantrúar er að veita mótvægi við hindurvitnaáróðurinn í samfélaginu. Með þessu mótvægi gerum við tilraun til að fá fleira fólk til þess að hafna hindurvitnum og tileinka sér gagnrýnni hugsun.

Styðjið þið trúfrelsi?

Að sjálfsögðu. Og við styðjum ekki einungis trúfrelsi, heldur styðjum við líka "trúarjafnrétti": við viljum ekki að neitt trúar- og lífskoðunarfélög njóti forréttinda umfram önnur félög.

Eruð þið á móti kristinfræði?

Auðvitað ekki. Við erum ekki á móti fræðslu um trúarbrögð í skólum. Við erum á móti trúboði í skólum. Á því er mikill munur. Ef kennsla um kristni er hvorki hlutdræg né trúboð, þá erum við ekki á móti henni.

Af hverju eruð þið ekki umburðarlynd?

Auðvitað erum við umburðarlynd. Við viljum ekki banna fólki að trúa því sem það vill eða banna því að iðka trú sína. Við umberum alveg trúmenn, en gagnrýnum skoðanir þeirra. Við umberum alveg skottulækna, en við gagnrýnum vörur þeirra. Við umberum alveg miðla, en við efumst um hæfileikana þeirra. Við umberum alveg kuklara, en bendum á að þeir eru oftast að reyna féfletta þig. En einsog hjá öllu venjulegu fólki, eru til takmörk. Við umberum ekki þegar hindurvitni eru niðurgreidd af almannafé, eða það sé á dagskrá alþingis að veita vafasamri þjónustu fé úr ríkissjóði. Umburðarlyndi felst ekkert í því að trúa öllu sem er sagt og spurja einskis. Við umberum ekki skaðlegar skoðanir. Stundum þarf að spurja spurningar, jafnvel þó þær séu óþægilegar, og í því felst að mestu starfsemi Vantrúar.

Haldið þið að trúað fólk sé fífl?

Nei. Við vitum að trúað fólk er ekki fífl. Fólk getur hagað sér einsog fífl, hvort sem það er trúað, trúlaust eða einhverstaðar á milli.

Eruð þið ekki öfgafull?

Ef baráttumál Vantrúar eru skoðuð, jafnvel bara á yfirborðinu, þá eru þau afskaplega hófsöm: aðskilnaður ríkis og kirkju, trúboð úr skólum, að foreldrar bólusetji börnin sín og það ríki jafnrétti í trú- og lífsskoðunarmálum, eru ekki öfgafull baráttumál. Það er auðvelt að ímynda sér hver baráttumál öfgafullra trúleysingja gætu verið ef þau væru spegilmynd baráttumála ríkiskirkjufólks: eitt trúleysisfélag væri forréttindafélag, sérstaklega stutt og verndað af stjórnvöldum í stjórnarskrá, í skólum væri trúleysi boðað og hugvekja um trúleysi væri flutt á hverjum morgni á Rás 1. Það væru alvöru öfgar. Og flest fólk fílar ekki öfgar.

Af hverju eruð þið að þessu?

Hindurvitni, eins og trúarbrögð og skottulækningar, hafa áhrif á samfélagið. Trúfélög fá milljarða framlög frá ríkinu, það er bannað með lögum að hæðast að trú þeirra og skottulæknar reyna að koma kukl-aðferðum þeirra inn í heilbrigðiskerfið. Talsmenn þessa hindurvitna eru duglegir við að breiða út áróðri fyrir meiri áhrifum hindurvitnanna. Í ljósi þessa teljum við að það sé nauðsynlegt að veita mótvægi, því sinnuleysi er engin dyggð, þó það sé mjög skiljanlegt að fáir nenni að standa í þessu.

Er Vantrú ekki bara trúfélag?

Nei. Vantrú er félag, með lög, félaga og (valkvæm) félagsgjöld og flest öllu sem tilheyrir því að vera lögformlegur félagsskapur. Hugmyndafræði Vantrúar er ekki trú og því er Vantrú ekki trúfélag. Vantrú er ekki heldur lífskoðunarfélag líkt og Siðmennt. Við höldum ekki úti athafnir á borð við giftingar og greftranir og fáum ekki sóknargjöld frá ríkinu.

Eruði þið ekki líka með trúboð?

Nei. Það sem við gerum og það sem trúboðar gera er svo ólíkt hvort öðru að samlíkingin er fráleit. Ef við boðum eitthvað þá boðum við skoðanir, viðhorf og gagnrýni í gegnum eðlilegar boðleiðir þar sem fólk er frjálst að lesa þær, taka undir með okkur, svara okkur. Við bjóðum upp á umræðu og erum galopin fyrir slíku. Trúboðar boða goðafræði sem sannsögulegum atburðum, og kjósa eintal frekar en samtal.

Er Vantrú einhverskonar költ?

Nei. Það eru auðvitað til margskonar skilgreiningar á "költum" en Vantrú passar ekki við neinar þannig skilgreinar. Það er enginn karismatískur leiðtogi í Vantrú sem stjórnar félaginu samkvæmt sínu höfði, félagar eru ekki einangraðir frá samfélaginu eða fjölskyldum og við boðum engan sannleika. Ef fólk vill einhverja skilgreiningu á Vantrú þá er félag trúlausra, anarkó-lýðræðsilega jafnréttissinna sem starfar á grundvelli sjálfboðavinnu, samtals og samvinnu, ágætis byrjun.

Spurningar um trúleysi

Spurningamerki

Hvað er trúleysi?

Trúleysi er að trúa ekki á yfirnáttúruleg fyrirbrigði eins og guði, álfa og drauga.

Er trúleysi ekki trú?

Nei. Að vera trúlaus er að vera laus við trú á yfirnáttúruleg fyrirbrigði eins og guði, álfa og drauga.

Er lífið ekki bara merkingarlaust ef maður er trúlaus?

Nei. Auðvitað ekki. Lífið er stórkostlegt og hefur uppá svo mikið uppá að bjóða að hver upplifun er einstök fyrir hverja manneskju. Tilgangurinn er sá sem þú vilt. Lífið er ekkert minna ríkulegra vegna þess að við trúum ekki á yfirnáttúruleg fyrirbrigði eins og guði, álfa og drauga.

Hvað er efahyggja?

Efahyggja er þekkingarfræðileg afstaða og gengur út á það að taka ekki fullyrðingum gildum nema það séu góðar ástæður fyrir því að taka þeim trúanlega. Innan hindurvitna er efahyggja oft litin hornaugum og meiri áhersla lögð á trúgirni í staðinn fyrir t.d. að spurja hvort það séu yfirhöfuð til yfirnáttúruleg fyrirbrigði eins og guðir, álfar og draugar.

Spurningar um uppákomur

Spurt og svarað um Vantrú

Af hverju haldið þið bingó föstudaginn langa?

Samkvæmt lögum er bingóhald bannað á föstudeginum langa. Með bingóinu erum við að mótmæla helgidagalöggjöfinni.

Hver var Svarthöfði?

Það er leyndarmál.

Hvað eru Ágústínusarverðlaunin?

Ágústínusarverðlaunin eru háalvarleg og virkilega virðingaverð fræðimannaverðlaun Vantrúar veitt til guðfræðinga sem taldir eru skara fram úr í guðfræðilegum vísindastörfum síns tíma sem og rúmi á hverju ári, þar sem eitt þarf ekki að útiloka annað úti sem og Gabríel.

Eruð þið á móti akademísku frelsi kennara við Háskóla Íslands?

Nei. Auðvitað ekki. Vantrú sendi kæru til Siðanefndar Háskóla Íslands þegar félaginu var gert kunnugt um að kennari við guðfræðideild var að setja fram mjög vafasamar fullyrðingar um Vantrú og einstaka félagsmenn í kennslu sem fjallaði um félagið. Akademískt frelsi í háskóla sem vill láta taka sig alvarlega hlýtur nú að takmarkast eitthvað þegar augljósar fleipur eru dulbúnar sem fræðsla. Eða ekki.

En Overton glugginn? Ha? Hvað með hann?!

"Geisp"

Haldið þið upp á jólin?

Já og nei. Það fer væntanlega eftir því hvaða þýðingu jólin hafa fyrir hvern og einn. Jólahald trúleysingjans er samt voða mikið einsog hjá öllum öðrum sem hafa alist upp í þjóðfélagi sem heldur hátíðlega uppá jólin. Bara mínus allt trúarruglið.

Spurningar um efnistök

Spurt og svarað um Vantrú

Hver eru helstu umfjöllunarefni ykkar?

Við fjöllum um þau efni sem varða tilgang félagsins, sem eru trúarbrögð, með sérstaka áherslu á kristni, og aðskilnað ríkis og kirkju. Hjáfræði og hindurvitni; samsæriskenningar, andbólusetningar og allskyns skottulækningar. Þessi efnistök mynda svo ritstjórnarstefnu Vantrúar. Ef þið hafið frekari spurningar varðandi ritstjórnarstefnu félagsins getiði sent póst á ritstjorn@vantru.is.

Hvað eru gervivísindi?

Gervivísindi (einnig kölluð hjáfræði) er allt það sem gefur sig út fyrir að vera vísindi en er það í raun og veru ekki. Hvar nákvæmlega mörkin liggja þarna á milli er ekki ljóst og þetta vandamál kallast afmörkunarvandinn í heimspeki. Hins vegar er heilmikið sem er ekki á gráu svæði og er klárlega gervivísindi, eins og til dæmis "ungjarðavísindi", smáskammtakukl og svo framvegis.

Hvað eru skottulækningar?

Skottulækningar eru tilraunir manna til þess að lækna sjúkdóma með aðferðum sem skortir vísindalegan stuðning. Stundum hefur meira að segja verið sýnt fram á að þessar aðferðir virka ekki.

Hvað eru hindurvitni?

Hindurvitni eru þær hugmyndir sem sprottnar eru af fáfræði og ekki er hægt að styðja með rökum né traustum heimildum.

Af hverju talið þið svona mikið um kristindóminn?

Við skrifum meira um kristni heldur en önnur trúarbrögð vegna þess að hér á landi er kristni fjölmennustu trúarbrögðin. Kristni eru einnig þau trúarbrögð sem njóta hvað mestu forréttinda og áhrifa í samfélaginu. Ef aðstæður hér á landi væru svipaðar og nú, þ.e. norrænt velferðarkerfi, nema að hér væri sérstakt ríkisásatrúarfélag eða ríkismúslímafélag og það sérstaklega stutt og verndað af stjórnvöldum samkvæmt stjórnarskrá, þá myndum við alveg pottþétt skrifa meira um múslímana og heiðingjana. En staðreyndin er sú að Ísland er eitt af fáum lýðveldisríkjunum sem enn hafa sérstaka ríkiskirkju getna í stjórnarskrá. Það er einfaldlega óréttlát og ósanngjarnt að trú/félag sé í þessari tilteknu stöðu innan hins opinbera.

Þoriði ekki að skrifa um Íslam?

Við skrifum að sjálfsögðu um Íslam. Við skrifum einfaldlega meira um kristindóminn vegna stefnu félagsins og sú staðreynd að kristni tekur meira pláss í opinberri umræðu og, einsog áður hefur verið getið, vegna stöðu hennar í samfélaginu.

Hefur ekki orðið aðskilnaður ríkis og kirkju?

Nei. Alls ekki. Þjóðkirkja Íslands er sérstaklega getið í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Því verður að breyta. En meðanháttur er á verður aldrei aðskilnaður, þrátt fyrir að meirihluti landsmanna krefjist þess.

Hvaða meira kjaftæði eruði að tala um?

Kjaftæðisvaktin er óháð neytendavakt á vegum Vantrúar er varðar að mestu kukl og annað kjaftæði. Við höfum skrifað ýmislegt um skólamál, siðferði, stjórnmál, vísindi í bland við trúmálin; meira um kristni, en íslam og kaþólisma (og ásatrú). Við horfum stundum til baka og skoðum einhvern heilagan hrylling og guðlöstum. Við höfum einhverjar klassískar greinar, látum stundum í okkur heyra, getið rennt yfir einhverjar hugvekjur, greinar um efahyggju, rökvillur, jólin og svo margt, margt fleira.


Myndir: Birgir Baldursson, Bjarki Sigursveinsson, Egill Óskarsson, Gillian Maniscalco, Jódís Eva Eiríksdóttir.

Ritstjórn 22.09.2014
Flokkað undir: ( Bólusetningar , Klassík , Spurt og svarað , Vantrú )

Viðbrögð


G. - 22/09/14 11:22 #

Hér að ofan segir: "Efahyggja er þekkingarfræðileg afstaða og gengur út á það að taka ekki fullyrðingum gildum nema það séu góðar ástæður fyrir því að taka þeim trúanlega."

En í þekkingarfræði (og heimspeki almennt) er þetta bara alls ekki efahyggja. Það er eins og þið séuð að rugla saman efahyggju annars vegar og skilgreiningu Páls Skúlasonar á gagnrýninni hugsun hins vegar: að fallast ekki á neina skoðun nema á fullnægjandi forsendum.

Í þekkingarfræði og annarri heimspekilegri umræðu er efahyggja yfirleitt skilin sem sú afstaða að þekking sé ómöguleg, annaðhvort á tilteknu sviði (efahyggja um x) eða almennt og yfirleitt, og sett fram sem vandi sem þarf að vinna bug á (stundum eins og strámaður). Í heimspeki fornaldar er efahyggja á hinn bóginn sú afstaða að fullyrða hvorki af eða á heldur fresta því að mynda sér skoðun -- segja t.d. hvorki að þekking sé möguleg (sem væri jákvæð kredduspeki) eða að hún sé ómöguleg (sem væri neikvæð kredduspeki), heldur vera skoðanalaus um hvort hún er það eða ekki.

Ég mæli með vönduðu lesefni á ritstýrðum og ritrýndum vef:

Um efahyggju: http://plato.stanford.edu/entries/skepticism/

Um forna efahyggju: http://plato.stanford.edu/entries/skepticism-ancient/


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 22/09/14 11:54 #

Kannski hefðum við átt að tala um "efasemdarhyggju"?

Annars höfum við notað þetta orð í þessari merkingu ansi lengi (sbr flokkinn "efahyggja").

Þetta er líklega kallað "scientific skepticism" á ensku og ég sé að á íslensku Wikipedia-greininni um efahyggju er talað um aðferðafræðilega efahyggju eða vísindalega efahyggju í svipaðri merkingu, þannig að við erum greinilega ekki þeir einu sem nota orðið svona ;)


G. - 22/09/14 14:27 #

Ég kannast við þessa Wikipediu-þýðingu. En, já, ég er hrifnari af "efasemdahyggju" í þessu samhengi. Samhengi er allt, sjáðu til. Þegar einhver segir "Efahyggja er þekkingarfræðileg afstaða og gengur út á ..." án þess að þrengja tilvísun orðsins neitt, þá hugsa ég auðvitað fyrst og fremst um þekkingarfræði og heimspeki; í því samhengi er þetta vond lýsing (en aftur á móti rétt lýsing á skilgreiningu Páls Skúla á gagnrýninni hugsun, eins og áður sagði).

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?