Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúarbrögð dauðans

Mynd af Kóraninum

Fyrir skömmu las ég pistil á kristilegri heimasíðu þess efnis að íslam væri trúarbrögð dauðans. Réttilega var bent á fjöldamörg vers í Kóraninum sem lofa verðlaunum fyrir píslarvottadauða. Hinir trúuðu eru jafnvel hvattir til að fórna sér í stríði fyrir Guð, gegn veglegum verðlaunum handan grafarinnar (Kóraninn 4:74; 9:111; 2:207; 61:10-12; 17:33). Kóraninn lofar auðvitað ekki einungis verðlaunum eftir dauðann fyrir þá sem deyja sem píslarvottar. Þeir sem lifa réttlátu lífi og trúa á hinn eina guð og dómsdag hljóta helstu verðlaun sín að jarðvistarlífi loknu í paradís.

En það sama gildir líka um kristni. Þó meðal íslenskur meðlimur eða prestur í ríkiskirkjunni hugsi ekki endilega með þeim hætti, þá er kristni í grunninn trúarbrögð dauðans líkt og íslam. Í bréfi Páls til Filippímanna, 1:21, segir t.a.m.: „Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur“. Jesús segir í Jóhannesarguðspjalli 12:25: „Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs.“ Í síðara Korintubréfi 5:8 segir: „Já, ég er hughraustur og mig langar öllu fremur til að hverfa burt úr líkamanum og vera heima hjá Drottni“. Jesús segir okkar að gleðjast og fagna yfir launum okkar á himnum, þó allt sé að fara á versta veg hér á jörðu (sjá t.d. Matt 5:12).

Haldi ég áfram að tína til vers í þessum dúr verður greinin óheyrilega löng. Hið eina trúarrit kristinna manna er fullt af slíkum versum. Hinum trúaða er lofað eilífu lífi á himnum að dauðanum loknum. Honum er sagt að hann sé fyrst ríkisborgari himnaríkis, ekki jarðríkis (Filippíbréf 3:20-21). Í þessum heimi hafa lærisveinar Jesú það erfitt (Jóh 16:33), og höfðingi þessa heims er djöfullinn sjálfur (t.d. Jóh 14:30; 16:11; Matt 4:8-9). Von hinna kristnu, skv. Nýja testamentinu, felst í verðlaunum eftir dauðann því eftir hann munu þeir lifa (Jóh 11:25). Þessi himnavist og fyrirgefning syndanna var að sjálfsögðu gerð möguleg með blóðugum fórnardauða Jesú á krossinum. Enda er ekki hægt að fyrirgefa syndir án úthellingar blóðs (Heb. 9:22). Það er einfalt að finna tilvitnanir í fræga kristna trúarleiðtoga, bæði forna og nýja, sem endurspegla dauðadýrkun Nýja testamentisins.

Í íslensku samfélagi er stór stjórnarskrárvarin ríkiskirkja sem aðhyllist útvatnaða skárri útgáfu af trúarbrögðum sem í grunnin upphefja dauðann og hið meinta líf handan þessa heims. Fjöldi Íslendinga tilheyrir þessum söfnuði í algjöru hugsunarleysi. Þessi trúarbrögð draga í grunninn talsvert úr vægi eina lífsins sem við eigum, sem er lífið hér og nú, með því að veita falsvon um líf að lífinu loknu.


Mynd fengin hjá Beshr O

Sindri G. 17.09.2014
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Íslam )

Viðbrögð


Valur Arnarson - 18/09/14 00:57 #

Sæll Sindri,

....og þú áttar þig auðvitað á muninum:

Annað mál. Í þessum versum sem þú vitnar til, eru engin dæmi um ástundun trúboðs með vopnum.
Versin í gamla testamentinum sem þú vitnar í fjalla um það að gyðingar áttu að drepa þá sem voru í “þeirra hópi”, fjölskyldu meðlimi o.þ.h. sem tældu þá til þess að hverfa frá trúnni.
Varðandi Markúsarguðspjallsversið sem þú bentir á: Þeir sem eru fyrirdæmdir í nýjatestamentinu, eru þeir sem “glatast” – fara til helju eftir dauðann. Það er enginn beðinn um að drepa neinn.

Tekið af skodun.is þar sem þú rökræðir þessi mál við Sigurð Hólm Gunnarsson.

Kær kveðja,


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 18/09/14 11:09 #

Ég átta mig auðvitað á muninum. Íslam og kristni eru ekki sömu trúarbrögðin - og á þeim er mikill munur þó þau eigi margt sameiginlegt. Bæði upphefja þau með einhverjum hætti lífið eftir dauðann, og draga þar með úr vægi eina lífsins sem við höfum.


Valur Arnarson - 18/09/14 12:32 #

Sæll Sindri,

Það má alveg setja fram þá fullyrðingu að allar lífsskoðanir séu lífsskoðanir dauðans, því þær kalla fram ákveðna breytni í lifanda lífi sem eru háðar gildismati á fyrirframgefnum veruleika sem er háður spurningunni; hvað gerist þegar við deyjum?

Ef efnisheimurinn er allt sem er til og ekkert er til utan hans þá gerist ekki neitt. Það slökknar á vitundinni og líkaminn rotnar. Þegar þú segir:

Þessi trúarbrögð draga í grunninn talsvert úr vægi eina lífsins sem við eigum, sem er lífið hér og nú, með því að veita falsvon um líf að lífinu loknu.

Þá hvetur þú óbeint til þess að fólk nýti það líf sem það hefur nú til fullnustu vegna þess að það sé ekkert annað. Þín lífsskoðun er því ekkert minna um dauðan heldur en aðrar.

Nú veit ég ekki hvort þú hefur lesið eitthvað eftir gríska skáldið Nikos Kazantzakis en hann skapaði persónuna Alexis Zorba í bók sinni um Grikkjann Zorba. Persónan Zorba er gott dæmi um þann hugsunarhátt að nýta þurfi þetta líf til hins ýtrasta vegna þess að það sé ekkert annað.

...hið sýkta ástand mannsins til þessa dags, að minnsta kosti þess manns sem hefur verið taminn, hin líffræðilega barátta mannsins við dauðann (eða réttara sagt, við viðbjóðinn á lífinu, við örmögnunina, við óskina eftir „endalokunum“).(Nietzsche, F. 2003)

Kazantzakis og Nietzsche hafa báðir reynt að gefa okkur ástæðu til að ætla að hin sítúlkandi náttúra eigi rétt á sér sem gildismat. Kazantzakis gerði tilraun til þess með persónunni Zorba.

Zorba trúir ekki á Guð og fyrirfram ákveðnar siðferðisreglur og sér því enga ytri ástæðu til að neita sér um það sem efnisheimurinn hefur upp á að bjóða, kynlíf, mat, dans eða drykk. Í sögunni vinnur Zorba eins og skepna við að byggja timburkláf sem á að hjálpa honum við skógarhögg og timbursölu. Kláfurinn liðast í sundur og veldur stórskemmdum. Einhvernvegin þá virðist útkoman ekki skipta Zorba miklu máli og hann endar daginn í drykkju og dansi, hamingjusamari sem aldrei fyrr. Einhverjum þætti hegðunin órökrétt en í tilganslausum heimi er rökfesta einfaldlega lítils virði.

Zorba ber enga virðingu fyrir meinlætamönnum, tómhyggjumönnum, prestum eða heimspekingum sem eru að hans mati allir fastir í hjólförum sem gerir þeim ókleift að sjá heiminn út frá sjónarhorni dýrsins. Lausn Zorba á óseðjandi og truflandi löngunum felst ekki í því eð temja andann til að hafna þeim fyrir fullt og allt, heldur kalla vandamál efnisheimsins á efnsilegar lausnir.

Allt er þetta háð afstöðunni til spurningarinnar; hvað gerist þegar við deyjum. Hvert sem svarið er þá krefst það þess að ekki sé grafið undan þeirri skynsemi sem það gerir tilkall til að vera.

Nietzsche, Friedrich, (2003) The Genealogy of Morals, þýð. Horace B. Samuel, New York, Dover Publications.


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 18/09/14 13:19 #

Eins gott að maður þarf ekki að hugsa eins og Zobra þó að maður telji sér ekki trú um að það sé líf eftir dauðann. Það er hins vegar slæmt ef menn þurfa að reisa lífsgildi sín á ranghugmyndum um handanheima sem hvergi eru svo til staðar í raunveruleikanum. Auðvitað eigum við að nýta líf okkur til fullnustu. Það er ekkert annað líf. Það þýðir samt ekki að ekki séu til siðferðisreglur. Maðurinn sem dýr hefur siðferði og samkennd sem hefur þróast með mannskepnunni, og þessi atriði (siðferðið og samkenndin) skipta jafnvel enn meira máli, þegar ekki er tækifæri til að rétta við hlut manna í ímynduðum handanheimum. "Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar." Prédikarinn 9:5


Valur Arnarson - 18/09/14 15:26 #

Sæll Sindri,

Mér þykir þú öruggur í fullvissu þinni en læt mér það vel lynda.

Skemmtilegt að þú skulir vitna í Prédikarann því þetta vers geymir mikla visku og samkvæmt minni trú höfum við alltaf vitað að við eigum eftir að deyja. Sú vitneskja kom ekki til okkar með tilviljunarkenndum stökkbreytingum á DNA bösum hvort sem það ferli var yfir langan tíma eða gerðist með einhverskonar "sprengju" - eins og mannfræðinga greinir á um.

Með góðum kveðjum,


Benni - 15/12/14 23:22 #

Hverjir hafa vinninginn. Þeir sem eiga bara "þetta llíf" eða þeir hinir, sem eiga "þetta líf" og líf eftir það?. Mér sýnist það vera þú sjálfur sem ert að draga úr vægi lífs! Ert þú ekki að boða trúleysi fyrir engan ávinning?


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 19/12/14 12:03 #

Sæll Benni. Þessi viðbrögð fóru fram hjá mér. Ég legg áherslu á lífið sem er til - hér og nú. Það er hér á jörðinni. Kristni leggur í grunninn áherslu á líf eftir dauðann sem er ímyndun og er ekki til í alvöru. Þar liggur munurinn. Sá sem boðar eilíft líf, sem ekki er til í alvöru, veldur með því skaða sem er fólginn í því að menn leggja traust sitt á ranghufmyndir.


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 20/12/14 11:54 #

" Ert þú ekki að boða trúleysi fyrir engan ávinning?"

Mig langar leggja aðeins út frá þessum punkti Benna. Þetta er nefnilega hárrétt. Ég er að "boða" trúleysi fyrir engan ávinning, bara vegna þess að ég tel það siðferðislega rétt. Ef við berum þetta saman við trúboða þá trúa þeir því yfirleitt að þeir fái sérstök verðlaun frá Guði fyrir trúboð sitt. Hvort er göfugra? Að gera eitthvað vegna þess eingöngu að það er rétt, eða til þess að fá líka verðlaun og ávinning frá einhverjum (þ.e. Guði)?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.