Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Klukknahljóð fögur

Mynd af kirkjubjöllum

Á dögunum sá ég athugsemd á Facebook frá manneskju sem saknaði þeirrar stórborgarstemningar að heyra í kirkjuklukkum úr öllum áttum. Hún hafði dvalið í Berlín fyrir nokkrum árum og notið sándtrakks þessara voldugu slagverkshljóðfæra, en þegar hún kom þangað síðast voru klukkurnar þagnaðar, því þær fóru víst í taugarnar á helvítis trúleysingjunum.

Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð klofinn í afstöðu minni til þessa. Mér finnast kirkjuklukkur mögnuð fyrirbæri og flott perkussjón. Ómurinn af þeim er jafnvel notalegur, sérstaklega í stórborgum. Mér þykir vænt um Big Ben í London og gæti ekki hugsað mér að hann þagnaði. Og það er ekki vegna þess eins að hann er ekki kirkjuklukka, heldur bara veraldleg. Bjölluhljómur er bara flott sánd.

Það sem fer helst í mig er tangarhald kirkjunnar á þessu slagverki og notkun þess til að hringja inn guðsþjónustur. Á páskadagsmorgun eru þeir byrjaðir að þenja þetta eldsnemma. Og til skamms tíma var einhverjum leiðindasálmum þrumað ofan úr Hallgrímskirkju yfir hverfin þar í kring á hverjum degi, í tíma og ótíma. Vei þeim manni sem fann upp á því að tengja klukkuverkið við orgelið.

Vandinn er sá að sóknarkirkjur eru fyrst og fremst inni í íbúðahverfum, en klukkur þær sem mæla tímann alla jafna fjarri þeim, á svæðum þar sem fram fer stjórnsýsla, verslun og kaffihúsarekstur. Á þeim vettvangi eru klukkur sem slá á heila tímanum og jafnvel kortérunum fínar. Dómkirkjuklukkuverkið er krútt og litar andann niðri á Austurvelli. Ekkert er mér fjær en að vera á móti bronsklukkum í turnum. Til fjandans með þá helvítis trúleysingja sem þögguðu niður í stemningunni í Berlín!

En það er annað sem pirrar trúleysingja jafnvel enn meira nú til dags - krosstáknið, þegar það er komið í annað samhengi en í tengslum við kirkjur. Þar er ég líka klofinn og alls ekki með einhverja algilda stefnu í kollinum.

Mér myndi leiðast að sjá krossa hanga í skólum, utan á dómshúsum og ráðhúsum. Ég skil vel þá bandarísku kollega mína sem vilja þennan kristilega áróður burt ásamt boðorðunum 10 sem búið er að klína út um allt í opinbera kerfinu þar vestra.

En þegar ég sé krossa sem syrgjendur hafa reist við þjóðveginn þar sem banaslys hefur orðið dettur mér ekki í hug trúboð eða Þjóðkirkjan eða neitt slíkt, heldur bara harmur og dauði. Ég sé þetta sem áminningu um að fara varlega um leið og ég finn til með þeim sem lífið lék svo illa að þeir hafi þurft að setja þetta tákn sorgar og dauða niður. Ég yrði verulega pirraður ef trúleysingjar færu að heimta þetta í burtu á einhverjum þeim forsendum að þetta særi vitsmuni þeirra eða jafnvel trúartilfinningu! Þótt kross sé kross sé kross, þá skiptir dálitlu máli sá tilgangur sem liggur að baki honum og hverjir það eru sem að honum standa.

Þarna gæti þó þurft að setja einhverjar reglur, því talsverður munur er á litlum trékrossum sem standa tvö misseri og fjúka svo eða mást út, eða því að steypa niður risavaxinn járnkross á opinberu landsvæði og heimta að hann fái að standa þar um aldur og ævi. Eins og ég hef mikla samkennd með syrgjendum þá þoli ég illa frekjugang þeirra sem heimta forréttindi sér til handa endalaust.

Oftast þegar við sjáum krossa tákna þeir dauða. Það fer því bara vel á því að þeir sjáist á vettvangi sviplegra dauðaslysa og tróni á turnum dauðaköltsins sem einokað hefur klukknahljóð fögur.


Mynd fengin hjá RuEd

Birgir Baldursson 01.09.2014
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/09/14 09:10 #

Ímyndum okkur að einhver nýr aðili myndi sækja um leyfi til að vera með sambærilegan hávaða í öllum íbúðahverfum landsins með svipaðri tíðni og kirkjuklukkur óma - mörgum til ama.

Eru einhverjar líkur á að slíkt leyfi yrði veitt? Ég held ekki.

Kirkjuklukkulætin eru enn eitt dæmið um forrréttindi kirkjunnar, gamlar leyfar frá því trúfrelsi var ekki í tísku.

Ég hef búið mjög nálægt kirkju. Það var óþolandi.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?