Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þróunin verður ekki umflúin

Mynd af Alþingi

Það blasti heldur undarlegur pistill við mér í leiðara Fréttablaðsins 16. apríl sl., skrifaður af Ólafi Þ. Stephensen.

Leiðarinn er sérkennileg blanda af rökleysum og rangfærslum til stuðnings yfirlýsingum Árna Páls um þjóðkirkjuna. Gott og vel, kannski má sýna þessu skilning, það er ekki mikið um rök málinu til stuðnings og því kannski úr litlu að moða.

Höfundur leggur áherslu á söguna og segir að hún verði ekki umflúin. Þó hlutir hafa verið á einhvern hátt þýðir það ekki að við getum ekki breytt þeim til betri vegar. Það felst gríðarlegt misrétti í ríkiskirkjufyrirkomulaginu hér á landi, það mismunar fólki eftir trúarskoðunum og stangast bæði á við Mannréttindasáttmála Evrópu og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.

Það nægir að benda á hversu fráleitur þessi málflutningur er með því að skipta út þjóðkirkjunni og setja inn jafnrétti kynja (eða kynþáttafordóma). Hvernig ætli leiðari Fréttablaðsins hefði verið ef innihaldið væri að ekki mætti leiðrétta misrétti kynjanna vegna þess að hér hafi verið misrétti og að sagan verði ekki umflúin?

Flestar fullyrðingar hafa margsinnis verið leiðréttar. Það greiða allir sóknargjöld þeirra sem eru í ríkiskirkjunni. Fjármálaráðherra staðfesti þetta til að mynda í svari 24. mars. Allir greiða háar fjárhæðir til reksturs ríkisrekinnar kirkju fyrir utan þau sóknargjöld sem hún fær. Hluti af því er skýrður með „jarðasamningi“ frá 1997, en bara hluti, við sem erum trúlaus greiðum nefnilega enn meira.

Hausverkur

Ritstjóranum ratast þó rétt á rithönd þegar hann segir að það yrði talsverður hausverkur að reikna út hvað kirkjan ætti að fá (ef nokkuð) ef samningnum um jarðirnar frá 1997 yrði rift. Það veit nefnilega enginn hvaða jarðir þetta voru. Þess vegna veit enginn hversu mikils virði þær eru. Skárstu ágiskanir eru um eða innan við árlegt gjald til kirkjunnar.

Aðrar rökleysur telja lítið, það eru frídagar í flestum nágrannalöndum, alls konar tákn sitja í þjóðfánum og neyðarlegar setningar finnast í mörgum þjóðsöngnum. Fæstar þessara þjóða hafa ríkisrekna kirkju. Og ekkert af þessu réttlætir að ég þurfi að greiða fyrir rekstur trúfélags sem ég vil ekki tilheyra.

Svo nefnir höfundur að við megum ekki gleyma niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrána. Nei, við skulum heldur ekki gleyma því hvernig staðið var að henni. Við skulum ekki gleyma að spurningunni var snúið við á kjörseðlinum, ekki gleyma að rangt var farið með grundvallaratriði í kynningarbæklingi, munum að ríkisrekin kirkjan eyddi góðum upphæðum úr sameiginlegum sjóðum til að auglýsa sig og kynna sinn málstað. Og höfum sérstaklega í huga hversu hlutdræg kynning fjölmiðla var, sérstaklega RÚV. Og gleymum ekki að niðurstöðurnar voru í mótsögn við niðurstöður skoðanakannana.

Trúleysi eykst jafnt og þétt bæði hér og í nágrannalöndum okkar og fer þar eðlilega í takt við betri upplýsingar og meiri menntun.

Fylgjendur ríkiskirkjunnar eru nefnilega á hálum ís þegar þeir nota „meirihlutarökin“ til að réttlæta yfirgang og kúgun og það að ganga á rétt minnihlutans. Það styttist nefnilega í að skráðir trúleysingjar verði hér í meirihluta. Ég á reyndar ekki von á að þeir láti trúaða kenna á „eigin meðulum“ – trúleysi fylgir nefnilega gjarnan talsvert umburðarlyndi.

Það má læra af sögunni, það þýðir ekki að við ætlum að „flýja“ hana, framþróun verður hins vegar ekki umflúin.


Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu

Valgarður Guðjónsson 05.05.2014
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/05/14 10:44 #

Hjalti Hugason prófessor í guðfræði svaraði grein Valgarðs (ásamt öðru) í aðsendri grein í Fréttablaðinu.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/14 15:26 #

Búinn að senda blaðinu svar við grein Hjalta, sem þeir sögðust birta fljótt..


Árni Árnason - 11/05/14 22:31 #

Lúsin og beinkrömin fylgdu okkur líka eins og skugginn í gegn um aldirnar, ég ætla rétt að vona að sá hluti sögunnar hafi verið okkur laus í hendi.

Við gleymum því ekkert að kristindómur er hluti Íslandssögunnar og átti sitt blómaskeið þegar fáfræðin var alls ráðandi og fólk hafði engar forsendur til annars en að trúa því sem prestarnir sögðu, enda voru þeir lengst af nær einu "lærðu" mennirnir á Íslandi.

Ég hugsa með hlýhug til allra þeirra sem trúðu í einlægni og gáfu kirkjunni með glöðu geði af fátæklegum eigum sínum til að öðlast eilífa sælu í himnaríki eftir volað baslið hér á jörð.

Ég ber öllu minni virðingu fyrir þeim sem í dag predika þetta sama gegn betri vitund í þeirri von að áfram verði þeim tryggt þægilegt innistarf á flottum launum.

Nú þegar enginn (ekki einu sinni prestarnir )trúir stöku orði lengur af þessu trúarbulli er mál að linni.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?