Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Talnaspeki – húmbúkk eða hjálpleg aðferð?

Tölur

Í gegnum tíðina hefur maðurinn reynt að finna aðferðir til þess að skýra og lýsa hegðun og persónuleika sem og að spá fyrir um framtíðina. Talnaspeki er ein af þeim aðferðum sem maðurinn hafa þróað til þess arna og á sér 2500 ára sögu.

Talnaspekin gengur út á það að allir eigi sér tölustaf eða tölustafi og þessir tölustafir eiga að lýsa persónueinkennum, örlögum og lífsgöngu. Talnaspekingar eiga því samkvæmt þessu að geta ráðið fólki heilt út frá tölustöfum sem þeir reikna út.

Í talnaspeki er m.a. hægt að finna út forlagatölu og lífsleiðartölu.

Forlagatala (Destiny number) – Tala fundin út frá nafni

Samkvæmt talnaspekinni segir forlagatalan í raun frá hæfileikum okkar og persónueinkennum. Hún segir okkur hvað við eigum að afreka í lífinu.

Samkvæmt kenningum talnaspekinnar hefur hver stafur í stafrófinu númer. Hér að neðan má sjá hvaða númer hvaða stafur hefur.

1 A J S Æ
2 B K T Ö
3 C L U
4 D M V
5 E N W
6 F O X
7 G P Y
8 H Q Z
9 I R Þ

Ekki er gerður greinamunur á d og ð, i og í, a og á o.s.fr.

Svokölluð forlagatala er reiknuð út frá nafni. Hér má sjá hvaða forlagatölu ég hef.

H A F R Ú N
8+1+6+9+3+5 = 32 => 3+2 = 5.

K R I S T J Á N S D Ó T T I R
2+9+9+1+2+1+1+5+1+4+6+2+2+9+9 =  63 => 6+3= 9.

9+5= 14 => 1+4= 5.

Forlagatala mín er því 5.

Samkvæmt því  hef ég marga hæfileika og get gert margt vel.   Ég mun þroskast á þann hátt að ég get auðveldlega  kynnt hugmyndir og mun vita hvernig ég á að nálgast fólk til þess að fá það sem ég vil frá þeim.   Ég get verið óþolinmóð  og jafnvel þótt að ég sé klók þá á ég það til að gera sömu mistökin aftur og aftur. Hér má sjá betur hvað forlagatalan 5 þýðir.

Samkvæmt talnaspekinni er beint orsakasamband á milli þess hvað við heitum og hvers konar persónueinkennum  eða hæfileikum við búum yfir og sömuleiðis þess hvað við eigum líklega eftir að afreka í lífinu.  Hvernig nafn okkar á að geta haft bein áhrif á það hver við erum og hvernig líf okkar mun verða er með öllu óljóst.   Af þessu má því leiða að foreldrar geta fyrirfram ákveðið hvaða hæfileika og persónuþætti barn þeirra ber með því einu að velja viðeigandi nafn. Þetta er jafnvel hægt að gera áður en getnaður á sér stað.

Mér verður hugsað til móður minnar.  Mamma mín heitir Elín Þórjónsdóttir.  Amma og afi höfðu ákveðið að mamma skildi heita Elín Þuríður Þórjónsdóttir.  Þegar presturinn spurði afa minn hvað barnið ætti að heita sagði afi minn hátt og snjallt nöfnin tvö sem þau amma höfðu valið.  Svo illa vildi til að presturinn var farinn að missa heyrn og hreinlega heyrði ekki Þuríðar-nafnið, sleppti því alfarið og skýrði móður mína Elínu.  Samkvæmt talnaspekinni hafði presturinn þarna úrslitaáhrif á örlög móður minnar. 

Það virðist ekki vera samkomulag um það meðal talnaspekinga hvort notast eigi við skírnarnafn við útreikning á forlagatölu eða hvort að eðlilegt sé að notast sé við gælunöfn eða nöfn sem fólk tekur sér þegar liðið er á ævina.   Ef ekki er nauðsynlegt að notast við skírnarnafn getum við í raun valið okkur persónueinkenni og örlög.  Það sem meira er, persónueinkenni og örlög geta breyst á einu augabragði, t.d. við giftingu.  Það er sem sagt möguleiki á því að við getum endurvalið þau örlög og þau persónueinkenni sem foreldar okkar völdu fyrir okkur með nafngiftinni. 

Lífsleiðartalan (life path number) – Tala fundin út frá fæðingardegi

Lífsleiðartalan er sögð mikilvægasta talan í talnaspekinni. Lífsleiðartalan á að segja til um ferðalag okkar í gegnum lífið.

Ég er fædd 20.nóvember 1979. Lífsleiðartala er því 2+0+1+1+1+9+7+9 = 30 => 3+0 = 3.

Ég er því þristur. Samkvæmt því er ég m.a. skapandi og bý yfir yndislegum samskiptahæfileikum. Ég mun lifa lífinu til fullnustu og hef sjaldnast áhyggjur af morgundeginum. Ég er viðkvæm sál. Ég á auðvelt með að leysa vandamál. Ég get verið skapvond og óþolinmóð. Hér er ítarlegri útlistun á mér fyrir áhugasama.

Samkvæmt talnaspekinni á orsakasamband að vera milli þess hvenær maður er fæddur og hvernig persóna maður er og hvernig lífi maður mun lifa. Að því sögðu verður að hafa í huga að tímatalið er mannanna verk. Á vísindavef HI stendur eftirfarandi: „Raunar var ekki farið að miða við meint fæðingarár Jesú fyrr en á fyrri hluta 6. aldar. Það var Dionysius Exiguus sem gerði það árið 525 en hann vann þá að því að framlengja töflur yfir tímasetningu páskanna fyrir Jóhannes I. Páfa.“ Einnig segir á sama stað: „Ekki er vitað með vissu hvaða aðferð Dionysius beitti en hann komst að þeirri niðurstöðu að Jesús hefði fæðst í desember á 753ja ári frá stofnun Rómaborgar og miðaði upphaf tímatals síns við næsta ár á eftir, það er árið sem hófst viku eftir meintan fæðingardag Jesú, og nefndi það 1

Forsendur talnaspekinnar byggja því á ansi veikum grunni svo ekki sé meira sagt. Í raun má segja að samkvæmt talnaspekinni byggi vegferð okkar allra á reiknikúnstum og ákvörðunum Exiguus. Kúnstum og ákvörðunum sem afskaplega lítið er vitað um. Auk þessa verður að velta því fyrir sér hvort talnaspeki nái ekki yfir þá sem lifa við annað tímatal en okkar.

Mennirnir tóku ákvörðun um það að telja að barn væri komið í heiminn þegar búkurinn allur er komin út úr móðurinni. Tæknilega séð hefði verið hægt að ákveða að barn væri komið í heiminn þegar það dregur fyrst andadráttinn eða þegar klippt er á naflastrenginn. Þegar barn kemur í heiminn er litið á klukkuna sem er inn á stofunni um leið og barnið er allt komið út. Þetta er einungis gert ef aðstæður leyfa. Ef aðstæður leyfa ekki er litið á klukkuna um leið og hægt er og áætlað hvenær barnið kom í heiminn. Augljóst er því að ekki er alltaf nákvæmur fæðingatími skráður á fæðingavottorð. Fjölmargt getur orsakað það, svo sem það að klukkan á fæðingastofunni er ekki hárrétt. Af þessu leiðir að skráður fæðingatími getur verið eina mínútu yfir tólf á miðnætti en raunverulegur fæðingatími er eina mínútu í miðnætti. Þessi örlitla og ómerkilega skekkja getur því samkvæmt talnaspekinni haft úrslitaáhrif á persónuleikaeiginleika og lífsgöngu þess einstaklings sem á í hlut.

Niðurstaðan er því sú að persónueinkenni, mannkostir, örlög og lífsganga okkar markast af því hvaða nafn foreldar okkar velja okkur, reikniaðferðum Dionysius Exiguus, nákvæmni klukkunnar á fæðingastofunni, nákvæmi ljósmóðurinnar í skráningu á fæðingatíma og mögulega heyrn prestsins sem skírir okkur. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ef við erum ósátt við örlög okkar og persónueinkenni þá getum við bara tekið upp annað nafn!

Öllum sem vita vilja ætti að vera ljóst af ofansögðu að talnaspeki byggir á afskaplega veikum grunni. Í raun er það svo að talnaspeki stenst enga skoðun. Talnaspeki er húmbúkk.

En má ekki hafa gaman af talnaspekinni? Líta á hana sem einhvers konar dægradvöl? Eflaust er það svo. En sú er ekki alltaf raunin. Talnaspeki er lifibrauð ótalmarga, fólk tekur pening fyrir að ráðleggja öðrum eftir þeim leiðum sem notaðar eru hér að ofan. Ástæða þess að ég settist niður og kynnti mér talnaspeki er sú að á Útvarpi Sögu er vikulegur þáttur þar sem hlustendur geta hringt inn og talnaspekingur finnur út lífsleiðatölu hlustandans og ráðleggur honum út frá henni. Ráðleggingar spekingsins eru oft hreinlega hættulegar. Nú ber svo við að talnaspekingurinn er farinn að auglýsa að hann geti ráðlagt fólki sem upplifir mikla óvissu, kvíða og óöryggi vegna ástandsins í þjóðfélaginu, að sjálfsögðu gegn greiðslu! Þegar svo ber við er talnaspeki ekki einhvers konar dægradvöl heldur fjárplógsstarfsemi af verstu gerð.


Heimildir:
skeptics.com.au
en.wikipedia.org/wiki/Numerology
astrology-numerology.com/numerology.html
thedreamtime.com/spirit/numerology.html
visindavefur.hi.is
wikinfo.org/index.php/Numerology

Birtist upphaflega á Húmbúkk

Mynd fengin hjá Chiot's Run

Hafrún Kristjánsdóttir 07.04.2014
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Árni Árnason - 13/05/14 00:40 #

Fyrir þónokkrum árum hlustaði ég á þátt í útvarpi þar sem maður sem titlaði sig talnaspeking tók á móti símtölum frá fólki úti í bæ og sagði því allt um persónuleika þess,ásamt fleiru. Hann vann út frá fornafni viðkomandi eingöngu og ég man sérstaklega að einn innhringjandi sagðist heita Árni. Þetta er mér í fersku minni einmitt vegna þess að sjálfur heiti ég Árni. Í stuttu máli sagt romsaði "talnaspekingurinn" upp úr sér persónulýsingu og lýsti þarmeð í stuttu máli öllum Árnum á Íslandi. Þáttastjórnendurnir sem fengið höfðu mannin til þess arna héldu varla vatni yfir því hvað hann væri klár, og fannst það ekkert skrýtið að allir Árnar væru nákvæmlega sami karakterinn.

Nú hefur einn talnaspekingurinn lengi auglýst þjónustu sína á Útvarpi Sögu. Varla stæði hann í því viku eftir viku nema að einhverjir aular bíti á agnið. Þarf ekki að stöðva svona svikamyllur?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?