Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Risi í járnrúmi - undraveröld Biblíunnar

Mynd af Jahve að kasta steinum

Heimur Biblíunnar var skemmtilegur og stór undarlegur. Hér eru nokkur dæmi til umhugsunar um þá ævintýrabók sem margir telja vera bók bókanna:

  • Synir Guðs tóku sér fagrar dætur mannanna, höfðu við þær samfarir og eignuðust börn. Börnin urðu risar og hetjur, sem bættust í hóp risa sem voru fyrir á jörðinni. (1. Mós 6)

  • Guð steig niður af himni til að skoða borg og turn sem mennirnir höfðu gert. Í framhaldinu ruglar Guð tungumálum mannanna og dreifir þeim um jörðina. (1. Mós 11)

  • Kona Lots leit um öxl og breyttist í saltstólpa. (1. Mós 19:26)

  • Með því að skafa af trjágreinum börkinn, og láta greinarnar svo í vatnsrennur sauðfés, er hægt að láta ær eignast rílótt, sprekklótt og flekkótt lömb. (1. Mós 30:37-19)

  • Stafur breytist í eiturslöngu, og svo aftur í staf. (2. Mós 4) Seinna breytast margir stafir í eiturslöngur, en ein þeirra borðaði allar hinar, og breyttist svo aftur í staf. (2. Mós 7:8-13)

  • Allar ár og öll vötn í Egyptalandi breyttust í blóð. (2. Mós 7)

  • Hérar voru jórturdýr. (3. Mós 6:11)

  • Menn færa Guði eldfórnir, sláturfórnir, og brennifórnir. Lyktin stígur upp til Guðs og honum finnst lyktin af fórnunum góð. (Víða í 3. Mós og 4. Mós) Sumstaðar er talað um að menn færi Guði mat. Hvað skyldi Guð þurfa margar hitaeiningar á dag? (3. Mós 21:16-24. " Hafi einhver niðja þinna, nú eða í komandi kynslóðum, lýti á sér, þá skal hann eigi ganga fram til þess að bera fram mat Guðs síns. ... eigi skal hann koma fram til þess að bera fram mat Guðs síns.")

  • Ef karlmenn grunuðu konur sínar um að hafa haldið fram hjá sér, áttu þær að drekka drullumall af gólfinu, blandað vígðu vatni. Guð sá svo til þess að gera þær veikar, ef þær voru sekar. Ef þær voru hins vegar saklausar, varð þeim ekki meint af kokteilnum. Þannig var hægt að eyða óvissu eiginmannsins, og sekar konur fengu sanngjarna refsingu. (4. Mós 5:11-31)

  • Jörðin opnaðist og gleypti ákveðið fólk sem var í uppreisn gegn Móse. Fólkið hrapaði lifandi niður til heljar, ásamt öllum sínum eignum og húsum. (4. Mós 16:31)

  • Asni talaði við mann sem hét Bíleam og spyr afhverju Bíleam berji sig. Í stað þess að verða forviða af undrun yfir hinum talandi asna, svarar Bíleam spurningu asnans eins og ekkert óðeðlilegt hafi gerst og segir: „Þú gerir gys að mér. Hefði ég sverð í hendi mundi ég drepa þig“, og asninn svarar auðvitað fyrir sig: „Er ég ekki þín asna sem þú hefur riðið alla ævi þar til nú? Hef ég haft það fyrir vana að fara þannig með þig?“ (4.Mós 22:28-30)

  • Konungur nokkur að nafni Óg var risastór, enda kominn af risum. Rúm hans var úr járni, 4,5 metrar að lengd, og tveir metrar að breidd. (5. Mós 3:11)

  • Guð kastar sjálfur stórum steinum af himni ofan niður á óvini Hebreanna (Jós 10:11)

  • Sólin stöðvaðist á ferð sinni yfir himininn, og stóð kyrr fyrir ofan stað sem hét Gíbeon, til þess að Hebrear fengju næga birtu til að slátra óvinum sínum. (Jós 10:13)

  • Drottinn var með Júdamönnum og hjálpaði þeim að berjast til sigurs gegn óvinum sínum. Það dugði þó ekki til gegn íbúum sléttlendisins, þar sem þeir áttu járnvagna. (Dóm 1:19)

  • „Jael, kona Hebers, þreif tjaldhæl og tók hamar í hönd sér og gekk hljóðlega inn til Sísera sem fallinn var í fastasvefn því að hann var þreyttur. Hún rak hælinn gegnum gagnauga hans svo að hann gekk í jörð niður. Varð þetta hans bani.“ (Dóm 4:17) Eitthvað þekkir maður þennann stíl úr Íslendingasögunum.

  • Maður drap þúsund manns með einn asnakjálka (bein) að vopni. (Dóm 15:15-17)

  • Guð berst við eldspúandi sæskrímsli (Job 41)

  • Maður er gleyptur af stórum fiski, og er í maga hans í þrjá daga og þrjár nætur, en lifir það af, og kemur sprelllifandi og hress úr maganum. (Jónas 2)

  • Axarhöfuð flaut á vatni. (1. Kon 6)

  • Salómon átti 700 eiginkonur (allar konungbornar), og 300 hjákonur. Ef að konurnar hans Salómons hefðu komið í þáttinn hans Dr. Phil, hefði Phil spurt: „Can y‘all get him to do anything?“ (1. Kon 11:3)

  • Golíat var fjórir metrar að hæð, og hefði smell passað í rúm Ógs frænda síns. (1. Sam 17:4)

  • Maður að nafni Absolon var myndarlegasti maður í Ísrael, og lét reglulega raka af sér hárið. Ekki veitti af, því það gat vegið allt að 2,5 kíló og verið honum til trafala. (2. Sam 14:25-26)

  • Maðurinn Gat var risastór, og af risa ættum. Hann hafði 12 fingur og tólf tær. (2. Sam 21:20)

  • Guð, eða Djöfullinn, fær Davíð til að taka manntal. Guð drepur svo 70.000 gyðinga í refsingarskyni fyrir manntalið, þar sem það var synd að telja fólk. Einhverjir myndu halda að Guð hafi með þessu brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. (2. Sam 24. 1. Kron 21)

  • Guð berst við sæskrímsli sem heitir Levjatan. (Sálmur 74:13-14)

  • Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna. (Sálmur 82:1)

  • Guð blístrar á flugur, og rakar bæði höfuðhár, skaphár og skegg, með leigðum rakhníf. (Jes 7:18,20) - (Þetta er eitthvað táknmál hjá Jesaja spámanni)

  • Sólin bakkaði afturábak á ferð sinni yfir himininn. (Jes 38:8)

  • Guð banar skrímsli og dreka. (Jesaja 51:9)

  • Þegar Guð úthellti sinni brennandi reiði yfir Síon suðu konur sín eigin börn sér til matar. (Harm 4:10-11)

  • Guð gaf lýðnum óholl boðorð og lög sem leiddu til ólífis og lét fólk brenna frumburði sína í eldi. Þetta gerði hann til þess að fólki mætti ofbjóða og gera sér grein fyrir því að Guð sé Drottinn. (Es 20:25-26)

  • Dalbotn nokkur var þakinn dauðra manna beinum, sem Guð þakti holdi og reisti upp frá dauðum og úr varð geysifjölmennur her. (Es 37:1-10)

  • Guð fer í vont skap og segir prestunum að ef þeir hlýði ekki, muni hann strá saur framan í þá, og höggva af þeim höndina. (Mal 2:3) Þetta er kannski ekki svo skrítið. Það er vel þekkt að prestar eru oft til vandræða.

  • Stjarna á himnum getur vísað mönnum veginn að ákveðnu þorpi, og leitt menn að ákveðnu húsi. (Jólaguðspajllið)

  • Fjöldi löngu dáinna manna reis upp frá dauðum í Jerúsalem, og örkuðu um götur bæjarins og birtust mörgum. Þeim Markúsi, Lúkasi og Jóhannesi fannst þessi sérstaki atburður ekki í frásögur færandi. (Matt 27:50-53)

Sindri G. 24.03.2014
Flokkað undir: ( Biblían )

Viðbrögð


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 02/04/14 05:54 #

Bráðskemmtileg lesning, ekki var mikið fjallað um þessi atriði í minni kristnifræðikennslu hér áður fyrr enda vandræðalegt að útskýra þetta með skynsamlegum hætti.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.