Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Stærsta spurningin um guð

Mynd af guði

Vantrú hefur verið í gangi í rúmlega tíu ár. Það er hár aldur á vefriti. Á þeim tíma hafa birst greinar um fjölmargt sem varða trúmál. Það verður þó oft þannig að greinar um smærri þætti verða meira áberandi en þær sem fjalla um grundvallarspurningar.

Spurningin sem mér finnst rétt að velta upp er einföld en veigamikil: Hvaðan hefur fólk þekkingu sína á guði? Það er nefnilega þannig að ég get alveg verið opinn fyrir möguleikanum á því að til sé einhver guð en ég hef aldrei séð neitt sem bendir til þess að fólk hafi einhverja raunverulega þekkingu á mögulegri tilvist hans. Það stoppar hins vegar ekki til dæmis presta í að útlista skoðanir guðs á hinu og þessu.

Hjá flestum trúmönnum sem ég hef rætt við í gegnum tíðina er hægt að rekja þekkinguna á guð til Biblíunnar. Það þykir mér fráleit uppispretta þekkingar. Gamla testamentið er svo vandræðalegt í þessu samhengi að jafnvel prestar láta eins og það sé einhvern veginn ósanngjarnt að vitna í það í umræðum um trúmál.

Nýja testamentið fjallar um mann sem á að hafa framkvæmt einhver kraftaverk og var mögulega álitinn sonur guðs á sínum tíma. Það er engin ástæða til að telja þessar frásagnir trúverðugar. Við vitum að það er hægt að blekkja fólk með einföldum brögðum og við vitum að fólk er ákaflega duglegt að blekkja sjálft sig. Af hverju ættum við að trúa þessum ótrúlegu sögum en ekki öllum öðrum álíka undarlegum sögum frá sama tíma eða jafnvel seinna?

Aðrar þekkingaraðferðir sem ég hef heyrt vísað til er hugljómun og innblástur. Vissulega getur fólk fengið áhugaverðar hugmyndir á þennan hátt en ég sé enga ástæðu til að taka þær gildar ef þær byggja ekki á neinu öðru. Ef einhver fær hugljómun um ósýnilegar geimverur sem stjórna heilanum okkar þá hlýtur maður að þurfa að spyrja fyrst hvernig maður geti fengið þessa þekkingu staðfesta. Ef engin staðfesting fæst þá er hugljómun lítils virði.

Það gæti verið til guð sem felur sig í heiminum en hvers vegna í ósköpunum hefur þú verið útvalinn til að sjá og skilja þann guð?

Óli Gneisti Sóleyjarson 24.02.2014
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/02/14 13:36 #

Heimsmynd okkar sem göngum út frá vísndalegum niðurstöðum er eins traust og nokkur skoðun um heiminn getur orðið. Hún er byggð á ótal hrekjanlegum niðurstöðum fengnum fram við margendurteknar tilraunir og rannsóknir.

Heimsmynd hins trúaða um guðdóm er ekki byggð á þekkingu heldur óskhyggju. Þetta viðurkenna hinir trúuðu sjálfir og tala um að þetta sé einfaldlega trú þeirra. En þá er spurningin þessi: Af hverju kýs fólk að ástunda þann vitsmunalega óheiðarleika að taka það fyrir satt sem ekki byggir á nokkru nema óskhyggju?

Og kannski er mesti skandallinn sá að menn hafa sett á stofn heila "fræðigrein" til að túlka og skýra þennan guðdóm og tilgang hans. Og þessi "fræðigrein" er virt í samfélaginu, prófessorar og lektorar þiggja laun úr almannasjóðum og til þeirra er leitað til álits á ýmsu því sem fram fer í samfélaginu. Þessi staðreynd getur bókstaflega ært mann, sér í lagi þegar þetta fólk svarar ekki grundvallarspurningum á borð við þær sem bornar eru fram í þessari grein hér að ofan.


Sveinbjörn Halldórsson - 01/03/14 18:43 #

Athugasemd fjarlægð.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?