Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Feimnislaust trúboð

Mynd af opnu í sálmabók

Í Fréttablaðinu í gær birtist grein eftir ríkiskirkjuprestinn Örn Bárð Jónsson. Í greininni, Trúmál í skólum, leggur Örn Bárður til að í opinberum skólum fái skírð börn "fræðslu um sína trú – feimnislaust og af fullri einurð og án afsakana kennara – og þá með biblíusögum, sálmasöng, bænum og öllu sem tilheyrir."

Þýska fyrirmyndin

Að sögn Arnar Bárðar ber okkur að líta til Þýskalands þegar kemur að tengslum opinberra skóla og trúarbragða. Í Þýskalandi hefur það nefnilega lengi tíðkast að skólabörnum er skipt niður í hópa eftir trú foreldra þeirra: mótmælendur, kaþólikkar og "aðrir", og hver hópur fær einhvers konar fræðslu frá trúfélögum eða skólum.

Samkvæmt grein í New York Times sem Örn Bárður vísar í hefur íslam nú bæst í hópinn í einu sambandsríkja Þýskalands. Börn múslíma fá þá sérstaka fræðslu um íslam í skólum.

Eftir því sem við fáum best séð er um að ræða kennslu um íslam, en ekki iðkun trúarinnar í skólum og hugsunin er sú að þetta verði mótvægi við öfgatrú og um leið er verið að reyna að koma til móts við minnihlutahóp, að minnihlutahópurinn hafi svipaðan valkost og stærri hóparnir.

Tillögur Arnar Bárðar

Örn Bárður vill taka upp svipað kerfi á Íslandi. Hann vill að í skólum séu börn flokkuð og þau sem fara í kristna flokkinn fái "fræðslu" sem inniheldur meðal annars bænir og sálmasöng. Hann vill með öðrum orðum færa sunnudagaskólann inn í grunnskólann, láta börn stunda trúariðkun og fá trúarinnrætingu af fullum krafti í opinberum skólum.

Börn foreldra sem vilja ekki að börn þeirra fái kristilega "fræðslu" eiga samkvæmt Erni Bárði samt að fá svipaða "fræðslu", en þá á öðrum forsendum. Til dæmis myndu skólarnir hugsanlega hafa sérstaka "fræðslu" fyrir börn bókstafstrúaðra kristinna manna, börn múslíma og börn ásatrúarmanna.

Fræðsla, trúboð og innræting

Að Örn Bárður skuli kalla bænahald og sálmasöng "fræðslu" endurspeglar algent vandamál í umræðum við kirkjunnar fólk. Þó það segist ekki vilja trúboð í skólum heldur bara fræðslu, þá kallar það oft trúboð sem beinist að skírðum börnum "fræðslu". Hugmyndin sem býr að baki er sú að skírt barn sé kristið og því sé það ekki trúboð þegar reynt er að kristna barnið!

Af hverju ættum við að fara að skipta skólabörnum eftir trúflokkum svo að hver hópur geti fengið trúarinnrætingu við hæfi? Það passar ekki sérstaklega vel við hina opinberu stefnu, skóla án aðgreiningar. Er það hlutverk hins opinberra menntakerfis að innræta skólabörnum trúarbrögð?

Á Þjóðkirkjan ekki fjöldan allan af risastórum byggingum þar sem svona "fræðsla" fer fram? Hvers vegna ættum við að troða sunnudagaskólanum inn í opinbera skóla?

Hvað má raunverulega bæta?

Það er sjálfsagt mál að fræða um trúarbrögð í skólum. Það er stór galli á trúarbragðafræði á Íslandi að þar ræður hinn meinti meirihluti, sem ríkiskirkjan segist standa fyrir, of miklu. Kennslan er hlutdræg og lítið er fjallað um annað en kristni, og ekkert um trúleysi. Þetta mætti laga og það myndi vonandi minnka fordóma.

Erfitt er að sjá hvernig það muni bæta trúarbragðafræðslu að skipta börnum í hópa til þess að þessi meinti meirihluti geti stundað trúboð í skólum.

Það er tilbreyting að ríkiskirkjuprestur segi það berum orðum að hann vilji bænahald og sálmasöng í opinbera skóla. Vonandi munu þeir prestar sem hafa verið á móti trúboði í skólum í orði mótmæla þessari uppástungu Arnar harkalega.


Mynd fengin hjá Richard

Ritstjórn 11.02.2014
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?