Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ævintýri í undralandi samsærissinna

Undraland

Á Facebook er hópur sem heitir Wonderland[1] þar sem samsærissinnar deila kenningum héðan og þaðan. Í gegnum tíðina hafa meðlimir í hópnum líka boðið einhverju efasemdarfólki inn til þess að reyna að sannfæra það. Ég endaði þarna fyrir löngu vegna umræðu um bólusetningar en hef lítið afrekað þarna. En fyrir stuttu leiddist mér eitthvað og gerði einhverjar tilraunir til að rökræða.

Áhugaverðasta rökræðan varðaði mynd sem þið sjáið hér. Þar er því haldið fram að samkvæmt nýjum heilsutryggingarlögum í Bandaríkjunum (Obamacare)[2] þá eigi að koma fyrir örflögum í fólki. Ég gúgglaði málið og fann strax umfjöllun á Snopes þar sem þetta var allt hrakið.

Teiknimynd um Óbama

Í stuttu máli var í tilteknu lagafrumvarpi klausa um gagnagrunn þar sem skráð yrðu ýmiskonar búnaður sem settur er í sjúklinga (s.s. gangráða og gervimjaðmir). Þetta frumvarp varð ekki að lögum og lögin sem voru að lokum samþykkt innhéldu enga klausu um þennan gagnagrunn (hvað þá einhverjar örflögur).

Þegar ég benti á greinina á Snopes fékk ég margskonar viðbrögð frá samsærissinnunum. Það voru efasemdir um heimildagildi Snopes (sem er frábær vefur) og ég þótti almennt leiðinlegur að vera með svona skítkast (að benda á grein). Þá benti ég á að það væri nú auðvelt að gúggla umrætt lagafrumvarp og skoða líka lögin sem voru samþykkt. Það væri sumsé auðvelt að hrekja Snopes greinina ef hún væri röng. Auðvitað var það ekki gert enda allt rétt þarna.

Það tók nokkrar atrennur en síðan fór samsærisfólkið að reyna að verja einhvern tengdan "sannleikskjarna" án þess þó að viðurkenna beint (og stundum afneita hreint út) að ég hefði hrakið fullyrðinguna sem kom fram í upphafi. Síðan voru mér gerðar upp skoðanir sem tengdust í engu því sem ég hafði sagt[3].

Þegar á leið umræðuna bættust við fleiri samsærissinnar. Einn kom með eftirfarandi tilvitnun í "Einstein":

Condemnation without investigation is the hight [svo] of ignorance

Mér þótti tilvitnunin kunnugleg þannig að ég leitaði og fann (stórskemmtilega) bloggfærslu eftir sjálfan mig þar sem ég tek fyrir umrædda tilvitnun (skrifuð af sama samsærissinna og með sömu stafsetningavillu) og bendi á að hún er væntanlega ekki eftir Einstein.

Ég benti á bloggfærslu mína í umræðuþræðinum á Wonderland og fékk það til baka að það skipti ekki máli hver hefði sagt þetta og ég ætti að taka innihaldið til mín[4]. Á þessum punkti benti ég á að ég hefði einmitt ekki fordæmt upprunalegu tilgátu umræðuþráðsins án athugunar heldur hefði ég einmitt rannsakað málið og sýnt fram á að þetta væri ósatt. Þá var mér sagt að ég hefði í raun ekkert hrakið.

Ég veit ekki hver lexían er af ævintýrum mínum í undralandi samsærissinna er í raun. Það mætti halda að hún sé að maður eigi ekki að reyna að rökræða við fólk sem hefur svona ranghugmyndir um raunveruleikann en ég vona ekki. Rökræðan getur nefnilega líka snúist um að koma í veg fyrir að þeir sem fylgjast með fari niður þessa döpru götu samsæriskenninga.


[1] Hópur telur ríflega níuhundruð manns og hver sem er getur boðið hverjum sem er að ganga í hann.
[2] Kaldhæðnislegt í ljósi þess að þessi mynd er greinilega í þágu "auðvaldsins" sem berst gegn heilbrigðistryggingu fátækra bandaríkjamanna en umrætt auðvald er einn helst óvinur samsærissinnana í Wonderland hópnum.
[3] Svona eins og þegar maður vogar sér að verja erfðabreyttar matvörur þá er maður strax orðinn stuðningsmaður Monsanto.
[4] Hérna vottaði ekki fyrir því að umræddur samsærissinni áttaði sig á því hve kaldhæðnislegt það væri að nota ítrekað tilvitnun þar sem það væri fordæmt að taka afstöðu án athugunar án þess að athuga hvort hún sé í raun eftir manninn sem henni er eignuð.

Óli Gneisti Sóleyjarson 28.01.2014
Flokkað undir: ( Bólusetningar , Efahyggja )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.